03.12.1980
Efri deild: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hafði ég ekki tækifæri til að sitja þennan nefndarfund.

Það er auðvitað nauðsynlegt að bændur njóti sem bestra lífeyrisréttinda í ellinni, svo mjög sem það kerfi, sem Alþingi hefur komið á, hvetur þá til að slíta sér út fyrir aldur fram. En það er óvenjulegt við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir og varðar greinilega fjárhagsleg atriði, þ.e. í þessu tilfelli útgjöld Lífeyrissjóðs bænda, þar sem verið er að breyta réttindum, að ekki sé gerð nein grein fyrir því, hvaða áhrif það hefur á stöðu sjóðsins að breyta réttindunum með þessum hætti. Er það svo, að útgjöld sjóðsins minnki við þessa breytingu þannig að það sé þá verið að skerða rétt hluta af bændastéttinni, eða er það svo, að útgjöld sjóðsins aukist við þessa breytingu? Sé hið síðara tilvikið, hvaða fjárhæð er þá um að ræða og er öruggt að lífeyrissjóðurinn geti staðið undir því? Auðvitað er ekki gagn að auknum réttindum ef sjóðurinn getur ekki staðið undir þeim. Verður ekki ráðið með einhlítum hætti af þeim texta, sem hér liggur fyrir, hvort heldur er. Þess vegna óska ég upplýsinga um þetta efni, hvort þetta minnki eða auki útgjöld sjóðsins og hvaða fjárhæð þar sé um að ræða, þannig að mönnum geti verið ljóst um hvaða fjárhæð á að skerða réttindi bænda eða öfugt og hvernig sjóðurinn muni þá geta staðið undir því.