03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

88. mál, grunnskólar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. flm. þessa frv., Ragnhildur Helgadóttir, fór að vitna í dæmisögur sem hún sagði að ég hefði sagt hér áðan. Það vildi svo til, að hún sneri því gersamlega við sem ég sagði. Ég verð þá að tala miklu hægar ef athygli hennar nær ekki þeim talhraða sem var í fyrra skiptið.

Það er fyrst til að taka, að það er munur á fræðsluskyldu og skólaskyldu. Sá munur liggur í því, að fræðsluskylda leggst á ríkið á þann veg, að það er skyldugt að sjá til þess að börnin njóti fræðslu ef þau að vilja foreldranna eiga að fara í skóla. Skólaskylda leggur aftur á móti þá skyldu á börnin, að þau skulu fara í skóla og þau skulu mæta og hlýða á fræðsluna. Þarna er mikill réttindamunur. Það er allt annað að mega njóta réttindanna eða vera skyldugur til að sitja uppi með þau.

Ég taldi að Íslendingar hefðu gert rétt frá 1907 og til þess tíma er þeir breyttu lögunum og tóku upp skólaskyldu. Hún er búin að vera mjög stuttan tíma hér á Íslandi, kom með grunnskólalögunum. Ég tel jafnframt að með þessu móti hafi þeir fullnægt þeim ákvæðum, að foreldrarnir gætu komið í veg fyrir að trúar- og lífsskoðanir þeirra væru vanvirtar af skólunum. Ég er þeirrar skoðunar enn að svo sé.

Ég minntist ekki á það áðan að kennari væri stórdrykkjumaður. Ég tók hitt dæmið, sem mun vera í flestum bekkjardeildum á Íslandi, að eitthvert barnanna eigi ofdrykkjumann fyrir föður eða mann sem drekkur mikið vín. Mín spurning var sú til hv. flm., hvort kennaranum væri þá heimilt að halda því fram, að það væri skaðsamlegt t.d. að drekka áfengi og það bæri að draga úr slíku. Það sama gilti að mínu viti gagnvart tóbaki.

Ég efa að það sé rétt að færa einstökum foreldrum neitunarvald gagnvart hópnum. Flm. talaði um að það væri þá hægt að taka viðkomandi nemanda úr tímum. Vissulega er það framkvæmanlegt. En skólaskyldan gerir ráð fyrir að sú leið sé ekki farin. Fræðsluskyldan hefði ekkert við þá leið að athuga. Einmitt þess vegna vil ég undirstrika það, að ég tel að þeim markmiðum, sem sagt er að séu tilgangur með flutningi þessarar lagabreytingar, verði auðveldara að ná með því að breyta ákvæðum um fræðsluskyldu og skólaskyldu en með þeirri breytingu sem hér er lögð til.

Að svo mæltu vona ég að þessi misskilningur sé úr sögunni.