03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

88. mál, grunnskólar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég held að misskilningur sé nú að nokkru leyti úr sögunni, þ.e. minn misskilningur er úr sögunni, misskilningur á sögunni um drykkjumanninn, því að það er rétt að ég skildi hv. þm. svo, að sá, sem drykki of mikið af áfengi í dæminu sem hann tók, væri kennarinn, en ekki foreldri barnsins. En eftir að hv. þm. hefur útskýrt sögu sína vil ég svara spurningu hans.

Hann spurði hvort þá væri ekki heimilt að mínu áliti að kennarinn fræddi börnin um skaðsemi áfengis. Að sjálfsögðu væri það heimilt. Skaðsemi áfengis er vísindaleg staðreynd hvað sem líður skoðun kennarans. Þetta er sjálfsagt. Börnin eiga að fá þekkingu í skólanum. Þau eiga að fá fræðslu og ekki síst um vísindalegar staðreyndir. Þetta sýnist mér vera gersamlega vandalaus spurning.

En það var annar misskilningur í ræðu hv. þm., sem ég sé mig til knúna að leiðrétta og gerir það að verkum að ræða hv. þm. fól í sér töluvert mikla tímaskekkju. Hv. þm. var enn að tala um að réttara væri að hafa fræðsluskyldu en skólaskyldu. Það mætti ræða það mál fram og aftur. Ég hugsa að hv. þm. geri sér flestir ljósan mun á fræðsluskyldu og skólaskyldu. En fræðsluskyldan var lögleidd 1907 og skólaskyldan líka. Það var ekki löngu seinna, eins og hv. þm, sagði. Skólaskylda var lögleidd frá 10 ára aldri barna árið 1907, þannig að það þarf kannske að fara aftur í umræður Alþingis frá þeim tíma, og þær mun vera að finna hér uppi á lofti, til að kynna sér öll þau rök sem þá voru færð fram í því sambandi. Hygg ég að það væri of langt mál að fara út í það núna, enda fjallar þetta frv. ekki um það.