08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

27. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt um breytingu á lögum um almannatryggingar, hefur þegar hlotið meðferð í hv. Ed. Alþingis og fékk þar samhljóða afgreiðslu. Meginefni frv. má segja að komi fram í 1. gr. þess þar sem segir:

„Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.“

Hér er verið að kveða á um með afdráttarlausum hætti að jafnvel þó að ekki sé unnt að feðra barn eftir að stefnt hefur verið í máli eigi barnsmóðir rétt á barnalífeyri, en mæður hafa á undanförnum árum oft orðið að bíða árum saman eftir niðurstöðu í þessum efnum. Hér hefur verið um að ræða mikið óréttlæti. Það frv., sem hér er á dagskrá, gerir í rauninni ráð fyrir að samræma almannatryggingalögin þeim anda sem felst í frv. til barnalaga sem liggur nú fyrir hv. deild.

Í annan stað er það efnisatriði þessa frv., að skiladagar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Tryggingastofnunarinnar á meðlögum verði tíðari en verið hefur.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða um þetta mál og legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.