08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

148. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því frv. sem hér er fram komið um fæðingarorlof. Reyndar er það furða, þegar svona merkt mál er á dagskrá eins og þetta frv., að ekki skuli fleiri þm. sjá ástæðu til að sitja hér í þingsölum og hlýða á umræður um þetta mál.

Í þessu frv. eru þrjú merk nýmæli sem ég fagna sérstaklega. Það er í fyrsta lagi réttur heimavinnandi foreldris til fæðingarorlofs, í öðru tagi að viðurkenndur er réttur ættleiðandi foreldris, uppeldis- og fósturforeldris til fæðingarorlofs, sem ég tel mjög merk nýmæli, og að föður er nú í fyrsta skipti heimilt að taka fæðingarorlof í allt að einn mánuð. Í frv. því, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon lagði fram á sínum tíma, var einnig gert ráð fyrir þessum nýmælum, en telja verður að samkv. því frv. hefðu fleiri feður notfært sér þann rétt þar sem þar var miðað við að þeir héldu dagvinnulaunum sínum í fæðingarorlofi. Á hinn bóginn er með þessu frv. komið til móts við óskir verkalýðshreyfingarinnar um að fæðingarorlof greiðist nú úr almannatryggingum.

Ég mun ekki gera neinar aths. við frv. sem hér liggur fyrir, nema að því er snertir orlofs- og lífeyrissjóðsgreiðslur sem ekki er gert ráð fyrir í þessu frv.

Samkv. frv. Magnúsar H. Magnússonar hefðu foreldrar haldið orlofs- og lífeyrissjóðsgreiðslum í fæðingarorlofi, og tel ég það mikinn galla á þessu frv., að ekki skuli ráð fyrir því gert, að foreldrar í fæðingarorlofi haldi þessum réttindum. Sú fæðingarorlofsgreiðsla, sem hér er gert ráð fyrir, 530 221 kr. á mánuði miðað við 1. des., er því ekki raunhæf tala, þar sem lífeyris- og orlofsréttindi koma ekki til. Að frádregnu orlofi og 6% iðgjaldi atvinnurekenda í lífeyrissjóð, sem launþeginn missir í fæðingarorlofi, verður þessi upphæð ekki nema um 454 þús. kr., og í þrjá mánuði yrðu orlofs- og lífeyrissjóðsgreiðslur um 228 þús. af heildarfæðingarorlofsgreiðslunum, sem eru um 1590 þús. kr. í þrjá mánuði. Greiðslur þeirra, sem taka fæðingarorlof að 2/3 hluta skerðast um 151 961 kr. Greiðslur foreldris, sem tekur fæðingarlaun að 1/3 hluta heildargreiðslna, skerðast um 75 980 kr. Ekki verður heldur hjá því komist að benda á að opinberir starfsmenn halda þessum réttindum í fæðingarorlofi, og mælir því öll sanngirni með að launþegar innan ASÍ haldi þessum réttindum einnig. Ég vil því freista þess að flytja ásamt hv, þm. Karvel Pálmasyni brtt. við þetta frv. Ég tel mjög brýnt að þessi brtt. fái meðferð í nefnd samhliða frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 8. mgr. komi eftirfarandi málsliðir:

Af fæðingarorlofsgreiðslum sínum greiðir foreldri á vinnumarkaðinum 4% í lífeyrissjóð og lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins 6% á móti. Auk þess greiðir lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins 8.33% orlofsfé á orlofsreikning viðkomandi foreldris hjá Póstgíróstofunni.“

Ég tel nauðsynlegt að þessi brtt. komi hér fram núna til þess að hún fái meðferð í nefnd. Ég vil svo að lokum vona að þm. geti sameinast um þessa brtt. þannig að foreldrar haldi lífeyris- og orlofsgreiðslum í fæðingarorlofi. Ég vil leyfa mér að afhenda þessa brtt. forseta.