09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í máli fyrirspyrjanda kom það fram, að sú þróun hefur átt sér stað, frá því að kjördæmaskipun var seinast breytt, að Vestfirðir hefðu enn tapað hlutdeild í mannfjölda á Íslandi. Ekki bendir það nú til þess að völd þeirra né áhrif séu of mikil á hinu háa Alþingi. Ég vil alfarið vara menn við hugleiðingum um að taka kosningalögin ein og kjördæmabreytingu út úr umræðum um stjórnarskrá. Eigi að gera róttækar breytingar, eins og mér skilst að hér séu uppi hugmyndir um, hlýtur að vera spurning um skiptingu valdsins á milli hinna ýmsu svæða, hvort sem það er fært til sveitarfélaga eða samtaka sveitarfélaga frá hinu háa Alþingi, áður en slíkt fer á umræðustig. Ég tel t.d. fráleitt að Vestfirðingar sitji uppi með verri kosti varðandi sjálfsákvörðunarrétt til fiskveiða út af Vestfjörðum undir innlendri stjórn en þeir höfðu undir danskri.