09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

361. mál, verslun og innflutningur á kartöflum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Egill Jónsson hefur lagt fram fsp. í fimm liðum. 1. tl. er svo hljóðandi: „Hver var ástæðan fyrir því, að á s.l. hausti voru kartöflur fluttar til landsins eftir að auðvelt var að fullnægja markaðsþörfinni með framleiðslu innanlands?“

Það hefur verið venja á undanförnum árum að Sexmannanefnd hefur heimilað stjórn Grænmetisverslunar landbúnaðarins að setja sérstakt verð á sumaruppskeru á kartöflum í ágústmánuði, nægilega hátt til þess að bændur sjái sér hag í því að hefja uppskeru á kartöflum til sölu þó að þær séu eigi fullsprottnar. Sú heimild hefur hins vegar verið bundin því skilyrði, að einnig séu á boðstólum ódýrari kartöflur, að öðru jöfnu innfluttar, þannig að neytendur eigi þess kost að velja á milli dýrrar sumaruppskeru á kartöflum og ódýrari kartaflna. Í sumar sem leið var hafður sami háttur á.

Þegar í undirbúningi var að hefja sumarsölu á íslenskum kartöflum komu fram óskir kartöfluframleiðenda um að tekið yrði sérstakt tillit til þess í hærra verði til þeirra, að verulegur uppskerubrestur og tap varð á kartöfluframleiðslu haustið 1979. Það kom ekki fram af hálfu þeirra við þessar umræður, að hugsanlega yrði uppskera á kartöflum haustið 1980 meiri en nokkru sinni áður og jafnvel svo mikil að mundi nægja fyrir neysluþörf okkar fram á haustið 1981. Svo sem kunnugt er hefur það verið svo undanfarna áratugi, að kartöfluframleiðsla okkar hefur ekki nægt markaðnum. Oftast hefur það verið svo, að sumaruppskera á kartöflum, sem ekki hafa verið fullsprottnar, hefur fremur valdið meiri en minni þörf á að flytja inn kartöflur til að fullnægja markaðsþörfinni.

Þegar sumarsala á íslenskum kartöflum hófst í byrjun ágústmánaðar var verð til bænda ákveðið 450 kr. á kg af óflokkuðum kartöflum, sem mun láta nærri að hafi verið 50% hærra en það verð sem sexmannanefnd ákvað á íslenskum kartöflum sem bráðabirgðahaustverð í sept. s.l. og gilti til 1. des. s.l. Ekki var talið að bændur vildu taka upp kartöflur, sem voru í fullri sprettu, til sölu fyrir lægra verð en 450 kr. á kg. Þetta háa verð var hins vegar háð því, að jafnframt væru til sölu ódýrari kartöflur þannig að velja mætti á milli þess að kaupa nýuppteknar íslenskar kartöflur á tiltölulega háu verði eða ódýrari innfluttar kartöflur.

Framkvæmd innflutnings á kartöflum á sumarmánuðum s.l. árs var með sama sniði og hefur verið á undanförnum árum. Það má deila um hvort rétt sé að leyfa það frjálsræði í verðlagningu á sumaruppskeru á kartöflum sem verið hefur gegn því að jafnhliða séu á boðstólum ódýrari innfluttar kartöflur, svo sem skýrt hefur verið frá. Eigi að hafa strangari reglur um takmörkun á innflutningi erlendra kartaflna á sumarmánuðum mundi það leiða til strangara aðhalds í verðlagsmálum en verið hefur fyrir innlenda framleiðendur og jafnframt yrðu þeir áð vera tilbúnir að fullnægja markaðsþörfinni samkv. fyrirskipun Grænmetisverslunar landbúnaðarins, þó svo að þeim þætti það verð, sem Sexmannanefnd ákvæði fyrir sumaruppskeruna, of lágt til að svara auknum kostnaði við hana og því uppskerutapi sem verður þegar kartöflur eru teknar upp í sprettu.

Svo sem kunnugt er hefur ríkisstj. hækkað niðurgreiðslu á verði kartaflna eftir því sem verðlag þeirra hefur hækkað, en til þess var á fjárlögum yfirstandandi árs ráðstafað 3120 millj. kr. 5. ágúst s.l. kom til framkvæmda hækkun á niðurgreiðslu á verði fleiri búvara. Þegar kom fram yfir 20. júlí varð ljóst að þær erlendu kartöflur, sem til voru, mundu þrjóta í lok mánaðarins. Þegar farið var að leita eftir kartöflum erlendis kom í ljós að örðugleikar voru á að ná kartöflum með litlum fyrirvara, en jafnframt var ljóst að hækkun niðurgreiðslna mundi örva sölu á kartöflum og leiða til vöntunar ef ekki yrði að gert.

Hinn 4. ágúst komu rúm 166 tonn af erlendum kartöflum til landsins og viðbótarfarmur, tæp 168 tonn, átti að koma fljótt á eftir. Þessar kartöflur voru allar pantaðar seinni hluta júlímánaðar. Föstudaginn 1. ágúst voru allar kartöflur uppseldar hjá Grænmetisversluninni og hafði verið reynt að jafna kartöflum milli verslana á síðustu dögum. Kartöflur þær, sem komu 4. ágúst, seldust allar á tveimur dögum. Hins vegar dróst nokkuð að seinni farmurinn kæmi og varð því aftur skortur á kartöflum, þótt nokkuð framboð yrði á innlendum kartöflum í fyrstu og einkum þó annarri viku ágústmánaðar. Seinni farmurinn kom 12. ágúst og var það seinna en vonir stóðu til og þurft hefði vegna þess að þannig stóð á skipaferðum. Alls voru flutt inn í ágúst 333.8 tonn af kartöflum, þar af 52.8 tonn af stórum steikarkartöflum, sem nauðsynlegar voru, m.a. vegna þess að í sumaruppskeru hér fást ekki nógu stórar kartöflur til slíks nota. Miðað við sölu í júlímánuði var innflutningur í ágúst rúmlega 13 daga neysla.

Niðurstaða þessa máls er því sú, að innflutningur í ágúst var til þess ættaður að neytendur ættu kost á að velja milli nýrra, dýrra kartaflna og annarra ódýrari, eins og að jafnaði hefur verið í ágústmánuði. Takmarkað framboð var á innlendum kartöflum fram til 10. ágúst, en þá jókst framboðið. Ef nákvæmlega hefði verið hægt að sjá þróunina fyrir og ráða yfir skipaferðum hefði sá farmur, sem kom 4. ágúst, þurft að koma viku fyrr og einnig sá farmur sem kom 12. ágúst, og þá hefði sennilega enginn talað um óþarfan innflutning kartaflna. Engar aðrar kartöflur voru fluttar inn í ágúst og auðvitað engar kartöflur fluttar inn í haust, svo sem spurt er um í fsp.

Til viðbótar þessu vil ég taka það fram út af orðum hv. fyrirspyrjanda um að tilkynnt hafi verið af hálfu framleiðenda með nægum fyrirvara að þeir væru þess albúnir að sjá um markaðinn í ágústmánuði, að sú tilkynning hefur ekki borist rn.

Í 2. lið er spurt: „Hve miklu nam innflutningur á kartöflum í ágústmánuði s.l. og hvaða afskipti hafði landbrh. af ákvörðun um þann innflutning?“

Ég hef þegar greint frá því, hvað innflutningurinn var mikill. Ég vil vekja athygli á því, að í 3. gr. reglugerðar um Grænmetisverslun landbúnaðarins, mat og flokkun kartaflna og grænmetis segir svo, með leyfi forseta:

„Grænmetisverslun landbúnaðarins skal ávallt fylgjast vel með uppskeruhorfum, uppskeru og birgðum af kartöflum og öðrum matjurtum í landinu, svo hægt sé að stilla innflutningi á vörum þessum svo í hóf, að hann torveldi ekki sölu á innlendri framleiðslu. Þó skal þess gætt, að ætíð séu til nægar birgðir af þessum vörum við hæfilegu verði, eftir því sem við verður komið.“

Afskipti rn. af þessum innflutningi voru ekki önnur en þau, að mælast til þess að framfylgt væri þeim ákvæðum sem hin tilvitnaða reglugerðargrein mælir fyrir um.

Í 3. lið er spurt: „Hve mikil var kartöfluuppskeran hér á landi á s.l. hausti?“

Samkv. skýrslu yfirmatsmanns garðávaxta var uppskera sölukartaflna, sem reiknað var með að kæmu á markað, 115 778 tunnur. Til viðbótar við þetta magn hefur verið áætlað að verulegt magn af kartöflum færi beint til heimanota hjá þeim sem ekki setja sínar kartöflur á markað.

Í fjórða lagi er spurt: „Sé áætlað að kartöfluuppskeran sé umfram innanlandsþarfir, með hvaða hætti er þá áformað að nýta uppskeruna?“

Svar: Í 5. gr. reglugerðar, sem fyrr er nefnd, segir svo, með leyfi forseta:

„Grænmetisverslun landbúnaðarins ber að athuga á hvern hátt sé hagkvæmast að gera verðmætan þann hluta kartöfluframleiðslunnar, sem er umfram innlendar þarfir hverju sinni, t.d. með útflutningi eða á annan hátt, eftir því sem aðstæður leyfa.“

Nokkrar athuganir hafa þegar verið gerðar á útflutningi kartaflna. Örðugt er um markað fyrir íslenskar kartöflur erlendis, bæði vegna lágs verð erlendis og þess einnig, að neytendur í nágrannalöndum þekkja lítið eða ekki þau afbrigði sem við ræktum mest af, svo sem rauðar íslenskar, Helgu og Gullauga. Þó mun Gullauga nokkuð þekkt víða í Skandinavíu. Bintje er eina afbrigðið sem ætti auðveldlega að seljast, en af þessari tegund hefur ekki fram til þessa verið ræktað nægilega mikið fyrir innlendan markað. Frekari athuganir mundu fara fram eftir áramót á sölu íslenskra kartaflna, en ýmsir spá að þá muni rýmkast um markaði í Evrópu.

Þá vil ég geta þess, að í undirbúningi er stofnun verksmiðja á Svalbarðsströnd til að framleiða kartöfluflögur, steiktar kartöflur, svokallaðar franskar kartöflur, sem vonir standa til að geti tekið til starfa um miðjan vetur, jafnvel í febrúarmánuði. Hefur rn. útvegað sérstakt fjármagn til að greiða fyrir þessu máli. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég á eftir að svara einum tölul. fsp., ef ég mætti kom því að.

Í fimmta lagi er spurt: „Gilda sömu reglur um greiðslur afurðalána út á kartöflur eins og aðrar framleiðsluvörur landbúnaðarins? Ef svo er ekki, í hverju eru þær þá frábrugðnar?“

Svar: Endurkaup afurðalána út á kartöflur frá Seðlabanka Íslands eru háð hverju sinni ákvörðun bankastjórnarinnar um hversu mikið verði lánað út á kartöflubirgðir í hlutfalli við skilaverð kartaflna, sem er óniðurgreitt heildsöluverð að frádregnum sjóðagjöldum. Til mjólkurafurða og kindakjöts er lánað 48.5% af skilaverði. Til kartöfluframleiðenda hafa lánin oftast numið 30–40% af skilaverði. Á s.l. hausti og nú á þessum vetri hafa þau numið 31% af skilaverði eða 7700 kr. á tunnu. Lánin eiga að greiðast upp eigi seinna en eftir 6 mánuði og þarf heimild bankastjórnarinnar fyrir lengri lánsfresti.

Landbrn. hefur átt viðræður við stjórn Seðlabanka Íslands um þessi mál, m.a. um frekari lánafyrirgreiðslu, en niðurstöður þeirra viðræðna liggja enn ekki fyrir. Reiknað er með því, að viðskiptabankarnir veiti viðbótarlán að sínum hluta sem geti numið allt að 14% af skilaverði, en nokkur misbrestur mun hafa verið á þessari fyrirgreiðslu viðskiptabankanna og eru þau mál nú til athugunar.