09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að færa fram þakkir fyrir það að fá að mega taka hér til máls utan dagskrár um afar brýnt mál. Jafnframt vil ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að taka mjög jákvætt undir það þegar ég í morgun bað hann um að svara hér spurningum er varða aðlögunargjald.

Eins og allir hv. þm. vita var aðlögunargjaldi því, sem nú er í gildi, komið á með lögum nr. 58 1979, sem tóku gildi á miðju ári 1979. Í 7. gr. laganna segir að tekjum af gjaldinu á árinu 1979 skuli varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða samkvæmt nánári ákvörðun ríkisstj. að fengnum till. iðnrh. Á sama hátt skal tekjum af gjaldinu á árinu 1980 varið til eflingar iðnþróun samkvæmt ákvæðum fjárlaga.

Þeirri upphæð, sem inn kom 1980, var skipt, og samkvæmt tekjuáætlun fjárlaga 1980 var það gert þannig með samkomulagi milli iðnaðar- og fjármálaráðherra að helmingur af aðlögunargjaldinu kæmi til ráðstöfunar á árinu 1980, en það, sem eftir stæði, yrði greitt á árinu 1981. Ráðstöfun gjaldsins var ákveðin þannig, að til Iðnrekstrarsjóðs runnu 500 millj. kr., iðnþróunaraðgerða 80 millj., nýiðnaðarverkefna 100 millj., starfsþjálfunar 140 millj., svæðisáætlana um iðnþróun 30 millj., eða samtals 850 millj. Í endurskoðaðri áætlun um tekjur 1980 — á þessu ári — er talið að aðlögunargjaldið skili um 1900 millj. kr. Í fjárlagafrv. fyrir 1981 er gert ráð fyrir útgjöldum alls 1 milljarði og 50 millj. kr. á fjárlagaliðnum nr. 11 221, sem heitir Lánasjóðir iðnaðarins og aðlögunargjald. Sú fjárhæð er mismunur áætlaðra tekna 1980 og þeirrar upphæðar, sem skilað var árið 1980, þ.e. 1900 mínus 850, sem gerir 1 milljarð og 50 millj. kr.

Það er deilt um hvernig aðlögunargjald ársins 1980, sem kemur til útgreiðslu 1981, skuli verðbætt. Auðvitað ræður þar mestu hvenær skil verða á árinu 1981, og væri gott að fá svar við því í umr. sem vonandi fara hér á eftir.

Í 3. gr. fjárlagafrv. er tekjuliður undir liðnum 231, sem heitir aðlögunargjald, upp á 2.7 milljarða. Ekkert hefur komið fram í hv, fjvn. sem bendir til þess, að þessi liður eigi að taka breytingum. Hins vegar hefur hæstv. viðskrh. sagt það skýrt og skorinort, bæði í dagblöðum, útvarpi og einnig í ræðu er hann flutti við 1. umr. fjárlaga, að hann legðist gegn þessu gjaldi og teldi að ekki yrði hjá því komist að leggja það niður um næstu áramót eins og ávallt hafi verið ætlunin. Hins vegar sagði hæstv. iðnrh. í Morgunblaðinu í dag eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef flutt um það bæði formlegar og óformlegar tillögur, að aðlögunargjald verði framlengt. Í ríkisstj. flutti ég formlega tillögu um að gjaldið yrði framlengt og síðan lagt niður í áföngum, þ.e. að það yrði 2% á næsta ári, 1% árið 1982 og félli síðan niður í lok þess árs, sagði Hjörleifur Guttormsson iðnrh. í viðtali við Morgunblaðið í gær um aðlögunargjaldið. „Ég tel, að þetta gæti orðið mjúk lending, og hef trú á því, að það sé hægt. í því tilefni vísa ég til tilurðar gjaldsins árið 1979. Þá var einnig sagt, bæði af erlendum aðilum og fulltrúum utanríkisþjónustunnar, að það væri ekki mögulegt, en það var samt sem áður samþykkt einróma þá, og ég tel að það væri einnig hægt að ná því marki nú.“

Og í lok þessarar fréttar segir hæstv. ráðh.: „Framlenging aðlögunargjaldsins og niðurfelling í áföngum hefði á engan hátt stangast á við gefin loforð, það veit ég.“ Og lýkur þar tilvitnun í hæstv. iðnrh.

Aðalatriði þessa máls er að iðnaðurinn telur stöðu sína vera lakari en hinna hefðbundnu atvinnuvega, þ.e. landbúnaðar og sjávarútvegs. Í því sambandi, eins og allir hv. þm. vita, hefur verið bent á aðflutningsgjöld af aðföngum til iðnaðar, en á sínum tíma var flutt um það frv. hér á hv. Alþ. af mér ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Kjartani Ólafssyni og Ingvari Gíslasyni, núv. hæstv. menntmrh. Í öðru lagi hefur verið bent á skattamálin. Iðnaðurinn hefur talið sig hlunnfarinn varðandi launaskatt sem hann greiðir í frekari mæti en aðrir atvinnuvegir. Einnig er bent á virðisaukaskattinn sem kemur sérstaklega illa við iðnaðinn. Reyndar segir í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. að athuga eigi um virðisaukaskattinn, eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum undir liðnum ríkisfjármál, tölulið 6, og er óþarfi að lesa það því að þann sáttmála kunna allir.

Til að kanna þetta mál allt saman flutti hæstv. iðnrh. tillögu í ríkisstj. 30. mars s.l. Í útskrift úr fundargerðarbók hæstv. ríkisstj. segir, með leyfi forseta:

„Iðnrh. bar fram svohljóðandi tillögu um samanburðarathugun á starfsskilyrðum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar:

Ríkisstj. samþykkir að fram fari samanburðarathugun á starfsskilýrðum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar með tilliti til samkeppnisstöðu í útflutningi og á heimamarkaði. Verði að því stefnt að skapa atvinnuvegunum sambærilega aðstöðu, m.a. með tilliti til mismunandi álagningar opinberra gjalda sem leiði til óhagstæðrar gengisskráningar fyrir einstaka atvinnuvegi. Jafnframt verði gerð athugun á lækkun á sölugjöldum á fjárfestingarvörum og hjálpartækjum með tilliti til jöfnunar á samkeppnisaðstöðu og aukinnar framleiðni svo og á breytingu á stimpilgjöldum. Skipuð verði nefnd til að vinna að þessu máli og verði við það miðað að hún skili áliti fyrir 1. júlí n.k. Í nefndinni verði m.a. fulltrúar frá hagsmunasamtökum í viðkomandi atvinnuvegum.

Vegna lækkunar sölugjalda og stimpilgjalda verði gert ráð fyrir allt að 300 millj. kr. tekjumissi ríkissjóðs á síðari hluta ársins 1980. — Samþykkt.“

Með erindisbréfi frá hæstv. forsrh. var síðan nefnd manna skipuð. Í henni eiga sæti Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, formaður, Ingi R. Helgason, Árni Benediktsson, Pétur Sigurðsson og Árni Kolbeinsson. Verður að skilja það svo, að þetta séu fulltrúar hagsmunaaðila, eins og nefnt er í samþykkt hæstv. ríkisstj.

Það, sem vekur nokkra furðu í sambandi við þetta mál, er að erindisbréf er dagsett 9. sept., en samþykktin í hæstv. ríkisstj. er, eins og ég sagði áður, 30. mars, og ætlunin var þá að nefndin skilaði áliti fyrir 1. júlí, en í almanakinu, sem ég nota dags daglega, er 1. júlí framar í almanakinu en 9. september.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvað líði störfum þessarar nefndar sem þarna var skipuð, þar sem hún hefur afskaplega mikil áhrif á það, hvað verður um stöðu iðnaðarins þegar aðlögunargjaldið fellur niður.

Þetta er sá þáttur sem snýr að iðnaðinum, en jafnframt hefur heyrst og gengið um það sögur að nefna eigi til sögunnar nýjan tekjustofn í staðinn fyrir aðlögunargjaldið. Þá er komið að því atriði, sem kannske einkennir þessa hv. samkomu hér, að tekjustofn, sem fundinn er upp í ákveðnu skyni, í þetta sinn til þess að vernda iðnaðinn vegna ójafnrar samkeppnisaðstöðu hans, er felldur niður, en í staðinn er settur skattur til þess að ná inn sömu tekjum og áður. En þær tekjur eiga væntanlega að renna síðan beint í ríkissjóð. Það væri ástæða til að fá fréttir af þessu ef satt reynist. Ég veit að hæstv. fjmrh. er manna fúsastur til að gefa upplýsingar um þessi mál og má vænta þess, að hann taki til máls hér á eftir og geri grein fyrir því, ef það kemur ekki fram hjá hæstv. forsrh., hvað sé að frétta af þessu máli eða hvort það komi til með að gerast sem við vonum flest — a.m.k. sum hver — að þegar aðlögunargjaldið fellur niður falli sá skattur niður fyrir fullt og allt, en ekki komi annar tekjustofn í staðinn.

Sem sagt, ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvernig gangi störf nefndar þeirrar, sem hann skipaði 9. sept., og hvenær megi búast við að þeim störfum ljúki. Það væri vissulega ástæða til að spyrja jafnframt um það, hvort hæstv. iðnrh. hafi fallið algjörlega frá niðurtalningu aðlögunargjaldsins, sem er hans skoðun. Og í þriðja lagi, sem ég minntist á í sambandi við hæstv. fjmrh., hvort um nýjan tekjustofn sé að ræða og verðbætur greiddar o.s.frv. En ég legg ekki mikið upp úr því, að þeim spurningum verði svarað að sinni, því að ég veit að hæstv. forseti gefur mér aðeins stuttan tíma og okkur til þess að ræða þetta mál. Engu að síður er það mjög nauðsynlegt og aðkallandi, fyrir hv. fjvn. annars vegar og fyrir samtök iðnaðarins hins vegar, hvað þá fyrir skattgreiðendur þessa lands, að fá að vita hvert stefnir í þessum málum og hver sé í raun stefna hæstv. ríkisstj.

Ég þakka, herra forseti, fyrir að fá tækifæri til að ræða þetta mál hér í sölum hv. deildar.