09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er eins með það mál, sem hér er til umr., og nýbyggingargjaldið, sem með ræðu hæstv. fjmrh. fyrr á þessum fundi var verið að gera till. um að fella niður, að það var haft að yfirvarpi, þegar þessum skatti var komið á, að koma ætti í veg fyrri verðþenslu og verðbólguþróun. Þessi sérstaki skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er auðvitað fyrst og fremst settur á laggirnar til þess að ná tekjum inn fyrir ríkissjóð, enda kemur í ljós að hann er ekki felldur niður eins og nýbyggingargjaldið, en einu rökin, sem komu fram í ræðu hæstv. ráðh. fyrir því að fella niður nýbyggingargjaldið, voru þau að sá skattur skilaði litlu í ríkissjóð. Mér er nær að halda að yfirvarp þessa vinstri skatts, sem má gjarnan nefna svo því hann var settur á stofn haustið 1978 af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, hafi verið vísvitandi blekking.

Nú hefur það skeð frá þeim tíma, að stefnubreytingar hefur orðið vart í röðum framsóknarmanna á þinginu. Þannig sagði hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson í útvarpsræðu um stefnuræðu forsrh. hinn 23. okt. í Sþ. eftirfarandi, með leyfi forseta: „Í því sambandi“ — þetta er um endurskoðun á skattalögum — „leggjum við framsóknarmenn mikla áherslu á niðurfellingu nýbyggingargjalds, eins og ráð er fyrir gert og fullt samkomulag er um. Við teljum einnig skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vafasaman nú, þar sem dregið hefur úr þenslu á því sviði og upphaflegum markmiðum með honum því náð. Við teljum nauðsynlegt að endurskoða álagningu eignarskatts, einkum einstaklinga. Við viljum einnig lagfæra þá agnúa á tekjuskattslögunum sem komið hafa í ljós og menn gátu að sjálfsögðu búist við í svo viðamiklum breytingum. Við viljum athuga 59. gr. skattalaganna, sem heimilar að áætla mönnum tekjur, og viljum lagfæra skatta á einstæðum foreldrum, svo eitthvað sé nefnt. Um þetta allt hefur verið rætt í ríkisstj. og menn þar sammála um slíka endurskoðun, enda er hún komin í gang. Vænti ég þess, að árangur sjáist fljótlega.“

Árangur sjáist fljótlega, sagði hæstv. samgrh. Steingrímur Hermannsson um það þegar hann lagði til að felldur yrði niður sá skattur sem hæstv. fjmrh. boðar nú að eigi að fá líf enn um sinn.

Hæstv. samgrh. er ekki eini framámaður Framsfl. sem hefur látið skoðanir í ljós í þessu máli því að hæstv. viðskrh., sem var hæstv. fjmrh. þegar þessum skatti var komið á laggirnar, sagði í ræðu um fjárlög í Sþ. 6. nóv. s.l., með leyfi forseta:

„Við umræður um skattamál hér á hv. Alþ. á s.l. vetri lét ég þau orð falla, að ég fylgdi því að framlengja skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þessu ári, en væri þó þeirrar skoðunar, að þetta mál þyrfti að taka til endurskoðunar á yfirstandandi þingi. Slík skattlagning kemur þungt niður á bæði samvinnuverslun og annarri verslun, sérstaklega þó í strjálbýlinu, en þar hefur verslun barist í bökkum á undanförnum árum.

Í þriðja lagi hef ég svo lýst yfir andstöðu minni við það ákvæði 59. gr. skattalaganna, að mögulegt sé að leggja á menn skatt af hærri tekjum en menn sannanlega hafa.“

Hér kemur fram, eins og í ræðu hæstv. samgrh., von um að þessi skattur verði lagður af, en annað kemur nú upp á teningnum. Mér finnst ástæða til að vera uggandi um aðra skatta þegar í ljós kemur að vonir framsóknarmanna, framsóknarráðherra, bresta í þessu skattamáli. Hvernig fer þá fyrir hinum málunum, skattalækkunum sem þessir tveir broddar Framsfl. boðuðu á Alþingi fyrir skömmu? Kannske er ástæðunnar að leita í ræðu sem hæstv. heilbr.- og trmrh. flutti þegar þessi skattstofn var til umræðu á síðasta þingi. Þá sagði hæstv. félags- og heilbr.- og trmrh. — sem þá var reyndar óbreyttur þm. með leyfi forseta:

„Ég er hlynntur því, að sá skattur, sem hér er um að ræða, sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, verði framlengdur. Þetta er skattur sem fráfarandi vinstri stjórn lagði á fljótlega eftir að hún kom til valda, og ég tel eðlilegt að framlengja hann. Ég tel að það ætti að byrja á öðrum en fyrirtækjum og slíkum aðilum ef ætti að létta skattbyrði hér í landinu.“

Þetta voru orð hæstv. heilbr.- og trmrh. Og í þessu máli eins og stundum áður hefur það verið stefna Alþb. í skattamálum sem hefur orðið ofan á.

Í sambandi við þetta frv, er ástæða til að minnast á það jafnframt, að í 3. gr. frv. er- eins og í núgildandi lögum — gert ráð fyrir að þessi sérstaki skattur sé ákveðið hlutfall af fasteignamatsverði. Fyrir örfáum dögum var fasteignamat hækkað, að ég held um 58%. Ég veit að allir hv. þm. þekkja þá þróun á fasteignamarkaðnum sem hefur orðið að undanförnu. Það hefur gerst, að fasteignaverð hefur staðið í stað um langan aldur og er langt innan þeirra marka sem fasteignamatið hækkaði nú síðast. Þessi skattur — sem hæstv. ráðherrar Framsfl. vildu láta leggja niður, en hæstv. fjmrh. fékk fram að fram yrði haldið a.m.k. í eitt ár í viðbót — kemur því til með að hækka mun meira en fasteignaverð hefur hækkað.

Herra forseti. Ég lýsi yfir andstöðu við þetta frv. Við sjálfstæðismenn höfum ætíð verið andsnúnir slíkum sérstökum skatti sem mismunar atvinnuvegunum og hefur verið á komið á fölskum forsendum. Við áttum þær vonir, að í lið með okkur hefðu gengið hæstv. ráðherrar Framsfl., en nú kemur í ljós eins og stundum áður, að það er ekki þeirra stefna sem ræður í skattamálunum, það er stefna hins skattaglaða hæstv. fjmrh.