27.10.1980
Efri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mjög mikið, það er nokkuð liðið á kvöldið.

Þetta frv., sem hér er til umr., þ.e. frv. til l. um málefni Flugleiða, hefur fengið allmikla umr. nú þegar, ekki aðeins hér, heldur úti í þjóðfélaginu almennt. Eins og við vitum lagði samgrh. fram skýrslu um málefni Flugleiða í Sþ. í liðinni viku. Umr. um hana eru skammt á veg komnar. Ég vil segja það hér strax, að ef ég ætti að draga einhverjar ályktanir af þeim umr., sem nú eru búnar í Sþ., eru þær fyrst og fremst á þann veg, að menn vilji hraða afgreiðslu málsins. En vel að merkja: Sömu menn vilja, að þessi mál séu athuguð vel, og hafa uppi ýmsa fyrirvara.

Ég vil taka undir fjölmörg gagnrýnisorð sem fallið hafa, ekki aðeins hér í þingsölum, heldur úti á hinum breiða vettvangi, að því er varðar málefni Flugleiða. Hins vegar vil ég benda á að í málflutningi stjórnarandstöðunnar gætir, að mér finnst, margs konar þversagna, en þó fyrst og fremst á þann veg, að það er deilt á ríkisstj. fyrir að hafa ekki brugðið nógu hart við, en í hinu orðinu er deilt á hana fyrir að hafa sýnt of mikinn glannaskap. Ég get ekki að því gert, að mér finnst ég lesa þessar þversagnir út úr málflutningi hinna ýmsu sem ekki styðja ríkisstj. að málum. Ég vil endurtaka og ítreka það, að ég vil persónulega að farið sé varlega í þetta mál.

Að því er varðar ádeilu stjórnarandstöðu þess efnis, að frv. feli ekki í sér þau atriði sem um var talað í upphafi að því er varðar stuðning við Flugleiðir hf., vil ég minna á að í Morgunblaðinu er það haft eftir Sigurði Helgasyni forstjóra að loknum stjórnarfundi hjá Flugleiðum, að hann lítur svo á að frv. feli í sér öll þau atriði sem um var rætt í upphafi.

Nú mun þetta frv. koma til umfjöllunar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. Eins og ég gat um áðan varð hlé á umr. í Sþ. um málefni Flugleiða almennt. Ég lit svo á að það sé mjög mikilvægt fyrir fjh,- og viðskn. að hafa fengið hér í umræðum á Alþ. allar þær upplýsingar sem þm. hafa tiltækar um fyrirtækið og fram kunna að koma í umr. Það er raunar dálítið erfitt fyrir n. að taka til starfa um málið áður en þeim umr. er lokið. Ég lít a.m.k. þannig á.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að við munum leita ýmissa upplýsinga til viðbótar við þær upplýsingar sem þegar hafa komið fram um Flugleiðir hf. Hitt er það, að allur dráttur á meðferð þessa máls kann að hafa alvarlegar afleiðingar. Við skulum hafa það í huga, að yfirlýsing Flugleiða um að Atlantshafsfluginu verði hætt hefur nú þegar haft alvarlegar afleiðingar, þ.e. að það hefur stórlega dregið úr bókunum farþega. Forráðamenn Flugleiða halda því fram, að þessu undanhaldi hafi verið snúið við, þ.e. bókanir hafi aukist allverulega á ný. Ég vil minna á þetta atriði og taka til hliðsjónar ef umræða um Flugleiðamálið fer út á — ja, ég segi það hér — vafasamar brautir, ef umr. dregst óeðlilega lengi enn. Menn eru e.t.v. nú þegar búnir að gera sér grein fyrir því og búnir að ákveða það í hugarfylgsnum sínum að veita fyrirtækinu stuðning. Þá legg ég áherslu á að menn gangi hreint til verks. Ég viðurkenni að það er fjölmargt á baksviðinu sem er mjög óljóst varðandi Flugleiðir hf., en ég vil fyrst og fremst líta á þann stóra hóp starfsfólks sem verður af atvinnu sinni verði Atlantshafsfluginu hætt, á milli 400 og 500 manns, og flugsamgöngur verður að tryggja við landið.

Í annan stað vil ég gera samanburð á þessari þjónustu, sem við erum að selja útlendingum, og útflutningi okkar. Við verðum fyrir margs konar áföllum í vöruútflutningi okkar. Yfir okkur ríða margar holskeflur í því tilliti. Við bíðum þær af okkur. Við gefumst ekki upp. Við höldum áfram að framleiða viðkomandi vöru og leitum jafnvel nýrra markaða. Hvar á undanhaldið að hefjast í alþjóðlegum viðskiptum að því er varðar atvinnulíf okkar og þjóðarbúskap okkar? Ég hygg að við ættum að velta þessari spurningu fyrir okkur.

Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að teygja þessa umr. mikið. Ég vil þó aðeins nefna örfá atriði að því er varðar sameiningu flugfélaganna í upphafi, þ.e. stofnun Flugleiða hf. með sameiningu Loftleiða og Flugfélagsins.

Það er rétt að það setti efasemdir að mörgum þegar sú aðgerð var framkvæmd. Þó er það svo, og ég vænti þess, að ég muni það rétt, að þjóðin var yfirleitt mjög hrifin af þessu tiltæki. Margvísleg rök mæltu með því og ég ætla ekki að tíunda það hér.

E.t.v. er ein af aðalorsökum erfiðleika Flugleiða nú innanríkisdeilur í félaginu sjálfu, innan starfsliðsins, milli starfsliðs og stjórnarinnar. Ég held persónulega að við þurfum ekki að undrast þetta út af fyrir sig. Það er lögmál að þegar fyrirtæki stækka slitna stjórnendur meira og minna úr tengslum við starfsfólkið. Það er staðreynd og við þurfum ekkert að ræða það hér. Auðvitað varð gífurleg stækkun á þessu fyrirtæki og starfsmannafjöldinn jókst undir sama hatti. Þetta á kannske stærsta þáttinn í því, að nú ríkir ekki sá uppbyggingarandi sem ríkti við stofnun Flugfélagsins og við stofnun Loftleiða hf. og við rekstur þeirra félaga hvers um sig meðan var og hét.

Herra forseti. Ég vænti þess, að það verði unnið nokkuð fljótt að þessu máli. Ég vænti þess, að Alþ. muni komast að niðurstöðu eftir ekki mjög langan tíma. En það er jafnframt von mín, að þessar umr., sem nú standa yfir og fram fara á næstu dögum um málefni Flugleiða, verði ekki til að staðfesta þau ummæli um þm., sem stundum eru viðhöfð, að þeir tali lengst um það sem þeir hafa síst vit á.

Ég ætla að vona að ef til stuðnings kemur við Flugleiðir hf. nýtist stjórn félagsins og starfsliði þess sá byr sem því verður hugsanlega gefinn til að byggja félagið upp að nýju. Það er mín einlæga von, og ég ætla að segja það að síðustu: Bæði stjórn og starfslið mega ekki að fengnum þessum byr, sem gefinn verður hugsanlega, láta hafa það um sig að það stoði lítið þótt kýrin mjólki vel ef hún fellir fötuna.