15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

Afgreiðsla þingmáls

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að þessi hæstv. ráðh. skuli tala um að það sé algjör óþarfi að mál fái skoðun í þinginu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sú rödd heyrist. Venjan er sú, þegar beðið er um að menn komi og ræði við nefndir og gefi upplýsingar að það sé vegna þess að viðkomandi nefndarmenn telja sig þurfa á frekari upplýsingum að halda sem gætu upplýst ýmislegt í sambandi við það mál sem til meðferðar er. Þess vegna var t.d. óskað eftir að fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Ístands mættu á fundi hjá nefndinni. Við því var búist að þeir hefðu eitthvað til málanna að leggja sem kannske gæti varpað nýju ljósi á þessi mál.

Ég verð að bæta því við, því að það er óhjákvæmilegt, að frv. hæstv. ríkisstj. eru þannig úr garði gerð að það er ekki eins og einhver óskeikull páfi hafi búið þau úr garði. Það er síður en svo. Það er margt þar sem leiðrétta þarf og betur mætti fara.

Athugasemdir hv. 1. þm. Vestf. eru líka réttmætar vegna þess að ef ríkisstj. og stuðningsmenn hennar ætlast til að þingstörf gangi greiðlega og mál nái fram að ganga, þá verða þeir að sýna lágmarkskurteisi, lágmarksháttvísi. Á það hefur skort. Þessi hæstv. ráðh. hefur t.d. í dag þverskallast við að svara einföldum spurningum sem til hans var beint. Það er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðh. gera það. Ég sé að hæstv. fjmrh. er inni. Það má kannske spyrja hann um það sem hæstv. félmrh. neitaði að svara í dag. Mun ríkisstj. nú um áramótin, hæstv. fjmrh., standa við ákvæði Ólafslaga? (Gripið fram í.) Ég var að tala um þingsköp, herra forseti. Ég var að ræða um hversu háttað væri hér um samstarf þingsins og ríkisstj., að það mundi auðvelda framgang mála í þinginu ef einföldum spurningum væri svarað jafnóðum og þær eru bornar fram, en ekki þyrfti að ítreka þær hvað eftir annað. Ég var að vekja athygli á því, að hæstv. ríkisstj. fæst ekki til að svara þeirri einföldu spurningu, hvort hún ætti að standa við ákvæði Ólafslaga varðandi vaxtaákvæðin um næstu áramót.

Ég sé að hæstv. fjmrh. er svo upptekinn að tala við yfirkommann að hann gefur þessu ekki auga, en ég vil sem sagt ítreka það, að aths. hv. 1. þm. Vestf. voru að gefnu tilefni og til þess fallnar að bæta sambúð stjórnar og stjórnarandstöðu í framtíðinni og bæta vinnubrögð í þingnefndum.