16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

368. mál, áfengisauglýsingar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Í 16. gr. áfengislaga, nr. 82 frá 1969, segir um áfengisauglýsingar: „Áfengisauglýsingar eru bannaðar. Nánari ákvæði skal setja í reglugerð.“ — Í 15. gr. reglugerðar um sölu og veitingar áfengis, nr. 118 frá 1954, segir: „Engum er heimilt að auglýsa áfengi eða einstakar áfengistegundir.“

Ákvæði áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum er að rekja a.m.k. til áfengislaga frá árinu 1928. Ákvæði hefur fyrst og fremst verið skilið sem bann við hefðbundnum áfengisauglýsingum, þar sem auglýstar eru áfengistegundir eða hvatning er til neyslu áfengis. Lögreglustjórum og handhöfum ákæruvaldsins ber að fylgjast með því, að áfengislög og þar á meðal ákvæði laga um bann við áfengisauglýsingum séu ekki brotin, eins og þeim ber að fylgjast með framkvæmd annarra laga. Eigi eru fyrir hendi sérstök fyrirmæli um hvernig slíku eftirliti skuli haldið uppi að því er áfengisauglýsingar varðar. Þessum aðilum ber að hafa frumkvæði á þessu sviði, ef þeir verða varir við slík brot, auk þess sem þeim ber að taka við ábendingum sem fram koma.

Telja verður að bannið við áfengisauglýsingum, eins og það hefur verið skilið, hafi verið virt í aðalatriðum og þar með komið í veg fyrir slíkar beinar auglýsingar. Einstök tilvik hafa þó komið upp og hafa leitt til ákæru og refsingar. Í sumum tilvikum hafa ábendingar eða athugasemdir lögregluyfirvalda verið teknar til greina. Önnur tilvik hafa leitt til ákæru eða refsingar.

Hins vegar eru tilvik, sem vikið er að í síðari lið fsp., óbeinar auglýsingar eða áfengiskynningar, oft erfiðari viðfangs. Augljóst er að allt tal um áfengi eða áfengistegundir fellur ekki undir auglýsingu. Slík tilvik eru þannig augljóslega takmarkatilvik og er þá oft erfitt að festa hendur á því, að um sé að ræða auglýsingu. Mat á því, hvort um auglýsingu er að ræða, getur lent hjá ríkissaksóknara sem þá kveður á um málsmeðferð. Tilvik þau, sem að er vikið og birst hafa í blöðum og tímaritum, eru sum hver þannig að eigi hefur þótt af hálfu lögregluyfirvalda eða ákæruvalds unnt að festa þannig hendur á efni að talið hafi verið rétt að hefjast handa um aðgerðir. Nokkur slík mál eru þó nú til meðferðar við embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Að því er varðar síðari spurninguna er það álit rn., að nauðsynlegt sé að fylgja eftir því meginatriði að áfengisauglýsingar séu óheimilar. Er nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort sú kynningarstarfsemi, sem um er að ræða, samrýmist gildandi ákvæðum. Ef svo er, kemur m.a. til álita hvort setja megi í reglugerð skýrari ákvæði, er taki af tvímæli, eða hvort rétt sé að kveða skýrar á um þetta efni í sjálfum áfengislögunum.