27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

6. mál, söngmálastjóri og Tónskóli þjóðkirkjunnar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til l. um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar, sem hér er lagt fyrir hv. Nd. á þskj. 6, var lagt fram á 102. löggjafarþingi á s.l. vori, í þinglok, en hlaut ekki umfjöllun þá. Er frv. nú lagt fram óbreytt. Frv. er í meginatriðum byggt á frv. sem samþ. var á síðasta Kirkjuþingi. Höfuðtilgangur endurnýjunar á lögum um söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, sem sett voru árið 1941, er að fá lögfesta tilvist Tónskóla þjóðkirkjunnar sem nú um nokkur ár hefur starfað með því nafni, en á að stofni til jafnlanga sögu og embætti söngmálastjóra, þó hann bæri lengi framan af nafnið Söngskóli þjóðkirkjunnar.

Þrír ágætir menn hafa gegnt embætti söngmálstjóra á liðnum 40 áru. Frumherjinn, Sigurður Birkis söngvari, vann frábært starf við stofnun kirkjukóra og þjálfun þeirra og ekki síst söngþjálfun. Var það umsvifamikið frumherjastarf. Við starfinu tók eftir hann hinn hámenntaði tónfræðamaður, dr. Róbert A. Ottósson, sem einnig kenndi tónmenntir við guðfræðideild Háskólans og jafnframt var aflvaki á ýmsum sviðum tónlistarlífs í landinu. Ég tel engan veginn kastað rýrð á framlag þessara forvera núverandi söngmálastjóra, Hauks Guðlaugssonar, þótt vakin sé athygli á að hann hefur á þeim fáu árum, sem hann hefur gegnt starfinu, reynst slík hamhleypa og endurnýjari að frábært má telja. Er framlag hans þegar orðið til þess, að sönglíf í kirkjum hinna dreifðu byggða hefur öðlast enn nýjan þrótt. Ég vona að það verði metið og að frv. þetta fái góðar móttökur.

Ég minni á að ýmsir merkilegir kirkjulegir viðburðir eru fram undan, þótt e.t.v. þyki mönnum 1000 ára afmæli kristnitökunnar enn í nokkrum fjarska.

Ég vil leyfa mér að óska þess, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.