27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

29. mál, Grænlandssjóður

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kem hingað til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þá meginhugsun sem kemur fram í þessu framlagða frv. Mig langar hins vegar að minnast á nokkur atriði sem ég gæti haft efasemdir um og er þá fyrst til að taka nafn sjóðsins. Ég sé raunar í grg. að tekið er fram að Íslendingum sé ekki síður fengur en Grænlendingum að gagnkvæmum kynnum, en það finnst mér nafn sjóðsins ekki gefa nægilega til kynna, því að tæplega verður grg. lesin almennt.

Ég vil nefnilega ítreka það, að ég held að Íslendingar eigi ekki síður þó nokkuð til Grænlendinga að sækja — og reyndar heimurinn allur, hinn svokallaði siðmenntaði heimur — heldur en Grænlendingar til Íslendinga, því að Grænlendingar eru stolt þjóð og eiga sér merkilega menningu, og ég held að við eigum ekki að leggja þetta mál upp eins og við séum þeir sem gefa skuli, þó að við getum ýmislegt gert. Og auðvitað getum við stofnað svona sjóð. Peningarnir, sem í hann skal leggja, eru ekki svo miklir að ég eigi von á miklu gagni af þeim. Það, sem ég óttast, er að úr þessu yrðu gagnkvæmar heimsóknir sveitarstjórnarmanna og þingmanna og endataus kaffidrykkja um framtíð Grænlands. Ég hef séð allt of mikið af slíkum samskiptum milli landa og þjóða og held að Grænlendingar þurfi annars og meira með og vilji og hafi meiri metnað en það. Ég held að við ættum að einbeita okkur — og þá sérstaklega í samráði við Grænlendinga sjálfa — að ýmsum viðfangsefnum þar sem við getum komið að gangi. — Ef þingmenn vildu gjöra svo vel að hlýða á mál mitt nokkurn veginn þegjandi, þá á ég t.d. við það, að Grænlendinga vantar mjög iðnmenntað fólk, verkmenntað fólk. Íslendingar eiga þó nokkuð góða iðnskóla. Ég held að það væri mjög gagnlegt að bjóða Grænlendingum verkmenntun ákveðins fjölda manna úr þeirra landi. Það væri praktískt viðfangsefni sem við gætum verið hjálpleg við.

Ég held líka að við getum boðið fram töluverða aðstoð Grænlendingum til handa við verndun tungu sinnar, sem ég held að þeim sé afskaplega mikilvæg. Íslendingar geta talað þar af nokkurri reynslu og fræðimenn okkar gætu þar komið að gagni.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara út í hin stærri málin, sem ég held að Grænlendingar og Íslendingar hljóti að þurfa að ræða á komandi árum. Þá á ég við mál sem snerta e.t.v. ekki bara Grænland og Ísland og önnur Norðurlönd, heldur kannske heimsbyggð alla, svo sem friðlýsing Norður-Atlantshafsins. Ég held nefnilega að það sé alveg óhjákvæmilegt, að þessar þjóðir eigi eftir að ræðast við um framtíð beggja þjóðanna og þess vegna sé óþarft að taka fram, að við ættum að hafa samskipti við þá. Ég held að við munum gera það.

En þrátt fyrir þessar athugasemdir fagna ég þessu frv. Ég tel að Íslendingar hafi vanrækt samskipti sín við Grænland, og ég fagna öllu því sem verður til þess að hvetja til nánari samskipta. En ég vil leggja á það áherslu, að þar eigum við að mæta Grænlendingum á jafnréttisgrundvelli. Þeir hafa ekkert minna til okkar mála að leggja en við til þeirra. Og ég held að báðar þjóðirnar geti haft gagn af meiri kynnum.