17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

147. mál, almannatryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv. til l. um fæðingarorlof, sem hér liggur fyrir, er að hluta til komið til vegna samningagerðar Alþýðusambands Íslands og ríkisvaldsins og var ætlunin að greiða fyrir samningum með úrbótum í þessum efnum.

Það er ekki vafi á að það frv., sem hér liggur fyrir, er skref fram á við, en bæði ég og aðrir, sem tökum þátt í störfum verkalýðshreyfingarinnar, erum á margan hátt mjög óánægðir með það, hvernig frv. er, og teljum að ekki hafi tekist að ná fram stórum atriðum sem við lögðum vissulega mikla áherslu á. Því hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. - reyndar sömu brtt. og fluttar voru í Nd. — og er fyrri brtt. svohljóðandi:

„Við 1. gr. Aftan við 8. málsgr. komi eftirfarandi málsliðir:

Af fæðingarorlofsgreiðslum sínum greiðir foreldri á vinnumarkaðinum 4% í lífeyrissjóð og lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins 6% á móti. Auk þess greiðir lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins 8.33% orlofsfé á orlofsreikning viðkomandi foreldris hjá Póstgíróstofunni.“

Í samningaviðræðunum var gerð krafa um að þetta yrði tekið með í frv. Sú krafa náðist ekki fram. Sú krafa mótaðist mjög af því, að við teljum óeðlilegt að konur, sem þurfa að hverfa frá vinnu vegna barnsburðar, hætti að greiða í lífeyrissjóð og missi þar af leiðandi af réttindum í lífeyrissjóði, og við teljum og óeðlilegt að þessar konur fái ekki orlofsfé eins og þær mundu hafa fengið væru þær í fullu starfi. Ef við tækjum upphæðina, sem ætlað er að greiða í fæðingarorlof, og hugsuðum okkur að þessar greiðslur, þ.e. í lífeyrissjóð og í orlofsfé, væru innifaldar í því mundi upphæðin lækka um 227 941 kr. Það lækkar upphæðina allverulega frá því sem tilgreint er. Hvers vegna viljum við fá þetta inn? Hvers vegna viljum við fá greiðslur í lífeyrissjóð og orlofsgreiðslur einnig? Það er vegna þess að við höfum fyrir okkur dæmi um að svo er gert hjá öðrum. Þetta er gert hjá BSRB, þetta er gert hjá Bandalagi háskólamanna og nú nýverið var verið að taka upp það nýmæli, að mér er sagt, hjá Lánasjóði stúdenta — eða að minnsta kosti fyrirhugað að taka það upp — að þeim séu reiknaðar lífeyrisgreiðslur í því kerfi. Þannig eru greinileg fordæmi fyrir því sem við erum hér að fara fram á.

Önnur brtt. okkar fjallar um bráðabirgðaákvæði sem var tekið fyrir í Nd. Í samþykktinni sem gerð var í Nd. segir svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal Atvinnuleysistryggingasjóður ljúka greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi samkv. lögum nr. 56/1975 til þeirra kvenna, sem fæða fyrir árslok 1980. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins endurgreiðir Atvinnuleysistryggingasjóði þann kostnað, sem af þessu leiðir eftir 1. janúar 1981.“

Kvisast hefur til ýmissa verkalýðsfélaga að svona hafi verið að málum staðið. Það er ekki nokkur vafi á að menn telja að þetta séu svik á gerðu samkomulagi. Þeir, sem sömdu um fæðingarorlofið við ríkisvaldið, töldu að greiðslur ættu að hefjast strax um áramót til allra þeirra kvenna sem ættu að njóta fæðingarstyrks eða fæðingabóta. Samkv. því bráðabirgðaákvæði, sem samþ. var í Nd., er þetta af tekið og verkar þannig að um lækkun verður að ræða. .

Best verður þessu lýst með því að vitna til bréfs sem mér var að berast áðan frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ég held að ég lesi það, með leyfi forseta. En bréfið er svohljóðandi:

„Fyrir hönd Verslunarmannafélags Reykjavíkur vil ég leyfa mér að koma á framfæri athugasemd við frv. til l. um fæðingarorlof sem nú er til afgreiðstu á hinu háa Alþingi.

Samkv. brtt. frá heilbr.- og trn. Nd. er gert ráð fyrir að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóði svo: „Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal Atvinnuleysistryggingasjóður ljúka greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi samkv. lögum nr. 56/1975 til þeirra kvenna sem fæða fyrir árslok 1980. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins endurgreiðir Atvinnuleysistryggingasjóði þann kostnað, sem af þessu leiðir eftir 1. janúar 1981.“

Ég vil leyfa mér að benda á að ef þetta ákvæði verður samþ. leiðir það til mjög mikils mismunar á rétti milli mæðra. Sem dæmi vil ég nefna annars vegar konu, sem fæðir nokkrum mínútum fyrir kl. 24 31. des. 1980, og hins vegar konu sem fæðir nokkrum mínútum eftir miðnætti þessa sömu nótt. Báðar þessar konur lenda á sama greiðslutímabili, en samkv. framangreindri brtt. mundi konan, sem fæðir fyrir miðnætti, fá greitt samkv. eldra kerfi, en sú konan, sem fæðir eftir miðnætti, fær greitt samkv. nýja kerfinu sem veitir verulega meiri rétt, svo skiptir hundruðum þúsunda.

Til að tryggja sem mestan jöfnuð réttinda er eðlilegast að sá hluti greiðslutímabilsins, sem eftir stendur við gildistöku laganna, greiðist til allra mæðra samkv. nýju lögunum frá þeim tíma sem þau taka gildi. Brtt. á þskj. 274“ — sem reyndar eru nú á þskj. 291 — „gerir ráð fyrir að komið verði í veg fyrir framangreint misrétti, og leggur Verslunarmannafélag Reykjavíkur mikla áherslu á að Alþingi samþykki hana. Ég tel að slík ákvæði séu í samræmi við þann skilning sem forustumenn verkalýðshreyfingarinnar lögðu á þann rétt sem nýju lögin um fæðingarorlof ættu að tryggja konum sem lögin taka til, þ.e. að allir hefðu sama rétt frá gildistöku þeirra.

Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fjölda félagsmanna Verslunarmannafélags Reykjavikur, auk fjölda annarra. Hér er þó ekki fyrst og fremst um hagsmuni að ræða, heldur réttlæti. Verslunarmannafélag Reykjavíkur treystir því, að hv. Alþingi taki til greina þessar ábendingar félagsins og samþ. brtt. á þskj. 274“ — sem reyndar er nú þskj. 291.— Undir þetta ritar Magnús L. Sveinsson formaður félagsins.

Ég get á alveg sama hátt mótmælt þessum skilningi fyrir hönd Verkamannasambands Íslands. Eftir að verkakvennafélögin fréttu af þessari breytingu varð uppi fótur og fit og telja menn að hér sé um brigð að ræða, ekki hafi verið staðið við það sem lofað hafði verið.

Ég notaði tímann í morgun til að hafa samband við menn í Atvinnuleysistryggingasjóði. Hjá þeim var hugsunin aðeins sú að tryggja greiðslur til þeirra kvenna sem hófu töku fæðingarbóta í desember t.d., eiga þá væntanlega inni nokkurt fé í ársbyrjun, að tryggja að þær fái greiðslur áfram. Frv. er ekki betur úr garði gert en það, að samkvæmt því ættu þær konur alveg að falla út og engar greiðslur að fá. Það var hugsunin hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, en ekki að greitt yrði eftir tveimur kerfum þó svo hafi til tekist hvað samþykktina snertir.

Ég legg á það mjög mikla áherslu, að heilbr.- og trn. taki þetta mál til íhugunar. Þá þarf einnig að kveðja til fulltrúa frá ASÍ og leita eftir því, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, er í samræmi við það samkomulag sem gert var í samningaviðræðunum. Það er skoðun mín að í þeim efnum, sem ég rakti áðan, sé það ekki og því þurfi breytingar til að koma.

Varðandi greiðslurnar og fyrri tillöguna um lífeyrissjóðinn og orlofsféð, teljum við mikið sanngirnismál að hún verði samþ. Við lítum ekki á fæðingarféð sem styrk, heldur sem bætur eða laun. Verði hún ekki samþ. er verið að ganga á rétt kvenna innan ASÍ meira en ég held að menn geri sér grein fyrir því þetta er greitt hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og þykir þar sjálfsagt.