17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum umr. hefur mín verið getið sem iðnrh. á árunum 1974–1978 og af því tilefni vil ég segja hér örfá orð.

Það var haustið 1974, nokkru eftir að ég tók við starfi sem iðnrh., að ákveðið var að taka upp viðræður við Alusuisse um endurskoðun á samningnum. Það var tvennt sem fyrir okkur vakti: Annars vegar að fá endurskoðuð ákvæði samningsins um skattgreiðslur eða framleiðslugjald og hins vegar endurskoðun á orkuverðinu. Í sambandi við þetta er rétt að taka fram, að það þótti ástæða til þess þá að óska eftir endurskoðun frá endurskoðunarfyrirtæki sem naut og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, Coopers & Lybrand í London, — endurskoðun á súrálsverðinu árið 1974. Niðurstaða þessa fyrirtækis varð þá sú, að súrálsviðskipti Alusuisse væru ekki í fullu samræmi við ákvæði aðatsamningsins. Þessar ítarlegu viðræður um breytingar á samningnum við Alusuisse leiddu til þess, að verulegar breytingar fengust Íslendingum í hag á þessu tvennu: Annars vegar breyting á reglum um skattgreiðslur. Ég hef ekki við höndina tölur um það, hverju þessar breytingar hafa skilað síðan Íslandi í hag, en það er ljóst að skattgreiðslur fyrirtækisins eru mun meiri síðan en verið hefði eftir gamla samningnum. Samningsákvæði um orkuverðið sem ÍSAL skyldi greiða til Landsvirkjunar fékkst endurskoðað og orkuverðið hækkað verulega. Ég hef fengið upplýsingar frá Landsvirkjun um það, hver tekjuaukinn hafi orðið af þessari breytingu frá 1975. Niðurstaðan er sú, að á þessum sex árum síðan — sennilega að árinu í ár meðtöldu — hafi heildartekjuauki okkar numið 8.7 milljörðum kr. frá því sem verið hefði eftir hinum eldri samningi.