17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal vera örstuttorður.

Hæstv. forsrh. svaraði að vissu marki óbeint fsp. mínum. Hann fór aftur að tala um samninga, nýtt raforkuverð o.s.frv. Ég hafði ekkert spurt hann um það. Ég vissi um það og fagnaði því auðvitað að við fengum þarna bætta samninga. Það var mjög þakkarvert og é skal minnast þess lengi að hann náði þeim samningum. Ég var bara ekki að spyrja um þá. Það var enginn að spyrja um þá. Það, sem var verið að spyrja um, var hvað hefði verið gert þegar hið breska fyrirtæki tilkynnir bréflega 3. okt. 1975 að það telji ekki að þessi viðskipti séu í samræmi við aðalsamninginn. Ég er að spyrja um hvað þá var gert.

Það er sagt, að auðvitað sé ekki hægt að vera að hnýsast ofan í hagi þessa fyrirtækis sífellt — eða eitthvað í þá áttina. Þá er fengið óbeint svar. Það var ekkert gert í málinu. Og fyrir þann tíma hafa kannske ekki verið tilefni, á ráðherratíma Magnúsar Kjartanssonar, til að aðhafast. Ég veit það ekki. En þarna virðist þó hafa verið tilefni — og á sama hátt þær tvær athugasemdir sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson upplýsti að hann hefði gert.

Þetta er liðin tíð. Við skulum ekkert vera að fárast um það eða erfa það. Við vitum þá hvar við stöndum í þessu og ég skal ekki halda áfram neinum frekari deilum um það. En hitt stendur óbreytt, að hæstv. núv. iðnrh. smjattaði á því hér, að það hefði verið annað uppi á teningnum, þegar hæstv. forsrh.var iðnrh., en áður hafði verið. Ég hef kannske misskilið hann, en þetta orðalag punktaði ég hjá mér. Mér fannst hann vera að sneiða að hæstv. núv. forsrh. Ef svo er ekki skal ég gjarnan taka þau orð aftur.

Hins vegar langar mig til, úr því að mér sýnist á hæstv. iðnrh. að hann ætli að taka til máls, að ráðh. segi hv. þdm. frá því, hvaða mótsagnir það hafi verið sem mér skilst að hafi verið margar í ræðu minni. Hann sagði: Þar voru t.d. margar mótsagnir. — Alla vega talaði hann í fleirtölu. Hvaða mótsagnir voru í ræðu minni, hæstv. iðnrh.? Væri hægt að fá svar við því núna? Það er hægt að slá fram slíkum fullyrðingum, en mér þætti vænt um að fá það eitthvað rökstutt.

Ég vil hafa góða samvinnu um athugun þessa máls og samstöðu. Telur einhver að upphaf þess: að hlaupa inn í fjölmiðlana í gær, skrópið úr þinginu í gær, hafi verið heppilegt upphaf góðrar samvinnu allra stjórnmálaflokkanna? Hefði ekki verið hugsanlegt að láta þingflokkana fá að sjá þessi mál, eins og gert er venjulega þegar leitað er eftir góðri samvinnu, eða a.m.k. að koma fyrst með málið inn í þingið? Nei, það liggur alveg ljóst fyrir, að hæstv. iðnrh. ætlaði sér alls ekki að hafa neina samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Hann er búinn að sanna það sjálfur með atferli sínu. Hann snýr við blaðinu núna, vegna þess að við krefjumst þess að fá að fylgjast með málinu og fá að hafa samstarf um það.