28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

21. mál, verðtryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans greinargóðu svör. Þetta er að mínu mati fullnægjandi, þar sem fram hefur komið að endurskoðun er hafin.

Ég vil undirstrika sérstaklega það sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að þetta eru mál sem þurfa sífellt að vera í endurskoðun og til meðferðar í þjóðfélaginu. Ég fagna því, að hann mun beita sér fyrir sífelldri endurskoðun á lögum og reglugerðum að því er varðar almannatryggingar almennt. Þetta er það hlutverk löggjafans sem ég tel að sé jafnvel þýðingarmeira en margt annað, því að svo mikilvæg er þessi löggjöf fyrir þjóðfélagið og þegna þess í heild að nauðsynlegt er að hún sé ávallt í takt við tímann.