17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég fullyrði það, að sú skattlagning, sem hér fer fram á unglingum og ungmennum, er ekki þyngri skattbyrði en gert var ráð fyrir í upphafi. Hins vegar hefur skattbyrði einstaklinga þyngst og annarra skattþegna, því geri ég mér alveg ljósa grein fyrir.

Það var gert ráð fyrir því í upphafi, að þessi skattur yrði S%. Hann hefur verið hækkaður í 7%. Ef farið hefði verið eftir forsendum frv. sem upphaflega var samþykkt hefði skatturinn átt að vera nær 8%. (Gripið fram í.) Mig minnir að það hafi verið rætt um 2% útsvar. (Gripið fram í.) Það var ekki endanlega ákveðið, það er nú 3%. Hins vegar var aldrei sérstaklega rætt um sjúkratryggingagjaldið. Sjúkratryggingagjald leggst á sama stofn og útsvar, og þess vegna hefur það fylgt með. Ég tel því að sú skattbyrði, sem hér hefur orðið niðurstaðan, sé í fullu samræmi við það sem talað var um við undirbúning laga nr. 40/1978.

Það, sem stendur þá eftir, er einfaldlega það, hvort sú framkvæmd, sem orðið hefur varðandi þetta tiltekna atriði sem er hér til umr., en ekki önnur atriði, — hvort sú framkvæmd hefur farið svo mikið úrskeiðis að það eitt og sér réttlæti það, að þessi gjöld skuli felld niður. Ég skal vera fyrsti maður til að viðurkenna það, að framkvæmdin fór að því leytinu til úrskeiðis, að tilkynningar um þetta bárust seinna en aðrar tilkynningar. Hins vegar máttu allir, sem gerður skattframtöl fyrir ungmenni, vita að þessi skattur mundi koma.

Mér finnst allt of mikið gert úr þessu máli og því sem hefur farið hér úrskeiðis. Að sjálfsögðu var það slæmt. En þótt það sé nú ekki viðurkennt er undirrót þessa málflutnings ekki eins mikil umhyggja fyrir þessum ungmennum og menn vilja vera láta og maður skyldi halda. Sem sagt, það eina, sem eftir stendur, er það: Fór þessi framkvæmd svo mikið úrskeiðis, að það réttlæti þetta? Ég heyri að hv. þm. hafa komist að þeirri niðurstöðu, en ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki það eitt sem hér býr að baki.