18.12.1980
Efri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

171. mál, jöfnunargjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég held að ég verði að leggja nokkur orð í belg í þessari merkilegu deilu, sem upp er risin, í tilefni af síðustu orðum síðasta ræðumanns. Túlkun hans var náttúrlega víðs fjarri öllu lagi, og ég tók hana nánast sem grín. A.m.k. var ég ekki hrifinn af orðinu ígildi og datt annað orð í hug sem ég skal þó ekki nefna hér. En allt er þetta hið mesta púður þótt að þessu sé staðið svona.

Úr því ég er kominn hér í pontuna vil ég líka mótmæla þeim orðum formanns nefndarinnar, að sá meiri hl., sem að brtt. standi, treysti þessari ríkisstj. eða hæstv. viðskrh. sérstaklega til að framkvæma þetta réttilega. Því fer víðs fjarri. Við treystum ríkisstj. ekki til neinna góðra verka eða mjög fárra. Hitt er svo annað mál, að þetta er í höndum hæstv. viðskrh. Það er hann sem á að leita eftir þeim heimildum sem þarf á erlendum vettvangi, ef hann þá telur það rétt. Ég sé ekki að það geti verið nein hætta á ferðum að veita hæstv. ráðh. þessa heimild. Ef hann metur það svo, sem mér skilst, að það sé engin leið að ná þessu fram, þá reynir hann ekkert við þetta. En við viljum gjarnan veita honum þessa heimild — eða þá þeim viðskrh. sem tekur við af honum, sem vonandi verður mjög fljótlega, að einhver annar taki við af þessum hæstv. ráðh. sem nú sitja í virðulegum stólum.