28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er laukrétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að með bréfi fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis til fjmrn. á s.l. vori var þess farið á leit, að ákvæði 27. tölul. 3. gr. tollskrárlaga um tollaívilnanir til handa öryrkjum yrðu tekin til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af brtt. sem komu fram hér á Alþ. á s.l. vori. Jafnframt var óskað eftir að grg. og till. til úrbóta yrðu sendar n. fyrir 10. okt. 1980. í tolladeild fjmrn. hefur verið unnið að nefndri endurskoðun eftir því sem föng hafa verið á, en mér er tjáð að vegna mikilla anna hafi ekki reynst unnt að ljúka endurskoðuninni fyrir nefnd tímamörk. Það var ekki fyrr en 7. þ.m. að rn. bárust tillögur lækna sem skipaðir eru í úthlutunarnefnd bifreiða fyrir öryrkja, þar sem fjallað er um þessi mál. Þessar tillögur hafa einmitt verið til athugunar seinustu dagana.

Fyrsta fsp. er hvort fram hafi farið sú endurskoðun sem lýtur að lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja. Þessari spurningu hlýt ég því að svara játandi, en um leið viðurkenna að endurskoðuninni er ekki lokið.

Í öðru lagi spyrja hv. fyrirspyrjendur hvort vænta megi þess, að lagt verði fyrir Alþ. frv. um breyt. á þessu ákvæði. Þeirri spurningu svara ég líka hiklaust játandi. Þess er að vænta.

En að lokum er um það spurt, í hverju breytingarnar yrðu fólgnar. Þá er því til að svara, að það er líklega ekki tímabært að gefa ákveðnar yfirlýsingar um það mál, vegna þess að þeir menn, sem tóku að sér að undirbúa tillögur af því lagi, hafa ekki enn lokið störfum. Ég reikna hins vegar með að það verði alveg á næstu dögum og þá verður væntanlega tekin afstaða til þess, í hvaða búning frv. yrði fært og hvert yrði innihald þess.

Ég vil þó láta það koma hér fram, að ég tel einsýnt að í fyrsta lagi hljóti fjárhæðin að breytast og það til hækkunar. Það liggur kannske í hlutarins eðli miðað við verðþróun í landinu.

Í öðru lagi tel ég sjálfsagt að þessi fjárhæð verði tengd við verðþróunina í einu eða öðru formi. En vissulega getur ýmislegt komið þar til greina. Það er spurning hvort á að miða við framfærsluvísitölu, byggingarvísitölu, gengisbreytingar, lánskjaravísitölu eða eitthvað annað. Þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur verið rætt meðal þeirra manna sem um þetta hafa fjallað, og endanleg tillaga liggur ekki fyrir. En aðalatriðið er að fjárhæðin verði tengd verðbreytingum í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi hefur verið rætt um að stytta tímann sem liðið getur milli þess að þessi fyrirgreiðsla sé veitt öðru sinni eða í þriðja sinn, sem sagt milli endurveitinga á tollaívilnunum. Þar hefur einkum komið til álita að stytta tímann úr fimm árum í fjögur ár eða — eins og sumir hafa nefnt — að binda endurveitingu þessarar ívilnunar við ákveðinn kílómetrafjölda aksturs. Ég held að það sé fullur vilji fyrir því í fjmrn. að gengið verði til móts við óskir sem fram hafa komið um að þarna verði eitthvað slakað á, menn þurfi ekki að bíða í full fimm ár eftir því að mega skipta um bifreið. En af því leiðir svo hitt, að væntanlega verður að taka afstöðu til þess, hvort um yrði að ræða að leyfðum veitingum yrði fjölgað til samræmis við styttingu tímans.

Eins og ég tók fram áðan hafa ekki verið teknar ákvarðanir af hálfu fjmrn. um hvert yrði efni frv. um breytingar á þessum ákvæðum. Ég held hins vegar að ljóst sé að rn. muni stefna að því að lagfæra gildandi lög með þeim hætti sem ég hef nú lýst, þó að nánari ákvarðanir um framkvæmdaatriði og nánari tilhögun hafi ekki enn verið teknar.