18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta mál. Minni hl. n. taldi að ekki væri nauðsynlegt að afgreiða þetta mál úr n., sérstaklega með tilliti til þess, að minni hl. telur nauðsynlegt að gjaldmiðilsbreytingin nái fram að ganga um áramótin. Það er búið að miða allan undirbúning að því og að sjálfsögðu er allt of seint að snúa við nokkrum dögum áður en sú breyting á að koma til framkvæmda.

29. maí 1979 voru samþykkt og tóku gildi lög um að breyta verðgildi íslensks gjaldmiðils. Var þá ákveðið að það skyldi gerast 1. jan. 1981. Það er ekki í fyrsta skipti sem gjaldmiðilsskipti fara fram hér á landi. Þau fóru fram 1948 samhliða eignakönnun. 1968 voru samþykkt ný gjaldmiðilstög og með heimild í þeim var ákveðið að fella niður koparpeninga árið 1969. Með svipuðum hætti voru aurar felldir niður 1975 og fjárhæðir miðaðar við heila krónu.

Það náðist samstaða hér á hv. Alþingi vorið 1979 um þetta mál. Hefur farið fram mikil kynningarstarfsemi og undirbúningur varðandi málið. Áætlað er að kostnaður varðandi þetta mál verði 1041 millj. kr. Að vísu kemur til frádráttar þessari fjárhæð sala á gamalli mynt, um 200 millj. kr. Þess má geta, að það hefur verið dreift bæklingum og auglýsingar hafa lengi verið í gangi. Að mínu áliti því er fráleitt að ætla sér að snúa til baka í þessu máli.

Ef menn hafa í huga í þessu sambandi að fresta málinu með tilliti til þess að halda í við gjaldmiðla Norðurtanda kemur það færi hvort eð er ekki fyrr en mundi verða raunhæft, sem við skulum vona að aldrei verði, að þúsundfalda krónuna. Ég er þeirrar skoðunar, að gjaldmiðilsbreytingin verði hvati til raunhæfra aðgerða í efnahagsmálum, ef vel og dyggilega er á málum haldið, og vænti ég þess, að slík niðurstaða fáist. Með tilliti til þess vil ég leggja til að frv. þetta verði fellt.