18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umr., en vegna þess að inn í þær hefur dregist hv. 12. þm. Reykv. langar mig til að leggja fáein orð í belg.

Þessi hv. þm. hefur enn þá augsýnilega ekki tapað algerlega trúnni á hæstv. ríkisstj., eins og hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson sem dvelst erlendis og hefur gert um skeið og kemur væntanlega ekki aftur fyrr en eftir áramót. En það er ástæða til þess í framhaldi af þeim orðræðum, sem fóru fram áðan, að spyrja hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson, hvort hann hafi enn sömu trú á hæstv. ríkisstj. og hann hafði áður, með tilliti til orða sem hann lét falla á Alþingi hinn 14. apríl s.l. um ávöxtun skyldusparnaðar, en þar var nokkuð rætt um vaxtamál. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna örstutt til ummæla hans í þessum umr., en þar segir hann m.a.:

„Það mun ekki vera tími til að halda þessu áfram öllu lengur hér því að nú eiga þingflokksfundir að fara fram. Ég ætla ekki heldur að lengja umr. um þetta mál, þó að ástæða væri til að fara um það frekari orðum. Ég vil þó segja það vegna þess, sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði áðan um að sú ríkisstj., sem nú sæti, væri að hundsa Ólafslög varðandi verðtryggingu, sem minn skilning á þeirri stefnu sem þar kemur fram, að þar er kveðið á um að jákvæðum vöxtum skuli náð í árslok og þeim skuli náð í áföngum. Það er ekki kveðið á um hversu mörgum áföngum, hvenær þeir áfangar skuli vera eða hversu háir hver og einn þeirra skuli vera. (Gripið fram í: Veit þm. það?) Nei, það er ekki heldur endilega ákveðið, enda má laga það nokkuð eftir aðstæðum. En lokapunkturinn er ákveðinn. Og ég vil minna hv. þm., sem situr í ritarasæti, á að hægt er að ná þessu á tvenna vegu: annars vegar með því að hækka vexti og hins vegar með því að lækka verðbólguna. Augljóst var það markmið að lækka verðbólguna, hvort sem það næst með fyrstu ákvörðun, sem hér hefur verið gagnrýnd. En fyrst í árslok, þegar ljóst er að þessu marki hefur ekki verið náð, hafa þm. ástæðu til að tala um að ríkisstj. hundsi lög, en ekki fyrr, vegna þess að ekkert hefur verið brotið í þeim lögum varðandi þessa vaxtastefnu enn þá.“

Nú hefur það gerst á hinu háa Alþingi, að hæstv. fjmrh. hefur komið í ræðustól og lýst því yfir, að þótt ekkert verði aðhafst í vaxtamálum séu engin Ólafslög brotin, þvert á þær skoðanir sem koma fram í þessum stutta kafla úr ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Ég er algerlega sammála þeirri skoðun sem kemur fram hjá hv. síðasta ræðumanni í þeim orðum sem hann lét falla á Alþingi hinn 14. apríl s.l. Nú er það ljóst, samkv. því sem má lesa í hans eigin orð, að hæstv. ríkisstj. hefur „hundsað lög“, svo að hans eigin orð séu notuð. Ég gæti vitnað til fleiri aðila, t.d. orða annars af hv, frsm. áðan um þetta sama mál. Það er þess vegna sem það er full ástæða til þess í framhaldi af þeirri fsp., sem kom frá hv. 3. þm. Vestf., að spyrja hv. síðasta ræðumann um trú hans á þessari ríkisstj., um trú hans á því, að núv. hæstv. ríkisstj. ætli sér að efna til þeirra efnahagsráðstafana sem nauðsynlegar eru til að tryggja verðgildi hins nýja gjaldmiðils sem kemur um næstu áramót. Hv. þm. virðist hafa þessa trú á ríkisstj. og ég vil spyrja hv. þm.: Hve lengi má tukta hann til og berja hann með svipum, eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert, til þess að hann missi trú á ríkisstj.? Hefur hann virkilega trú á því, að til efnahagsráðstafana verði gripið, og ef hann hefur það, hvað er það sem gefur honum þessa trú? Er það eitthvað sem við, almennir þm., vitum ekki? Er það eitthvað sem um hefur verið samið í hæstv. ríkisstj.? Er það einhver trygging sem kom fram t.d. þegar lánsfjárlögin — sá hluti þeirra sem hefur birst — komu fram á Alþingi? Hvað er það eiginlega, sem hv. þm., sem ég veit að er þingmanna áhugasamastur um velferð íslensks þjóðfélags og styður virkilega að til viðeigandi efnahagsráðstafana verði gripið, — hvað er það sem styrkir hann í þeirri trú? Hvað er það, sem gerir það að verkum, að hann hefur þá afstöðu sem hann lýsti í síðustu ræðu sinni?