28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

348. mál, dvalarkostnaður aldraðra

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa orðið nokkrar umræður um stöðu og þróun heilbrigðismála almennt. Þessi umræða og blaðaskrif hafa aukist í kjölfar heilbrigðisþings sem nýlokið er. Það hafa komið fram skiptar skoðanir um einn þátt þeirra gjalda sem hið opinbera, sjúkratryggingarnar, greiðir fyrir sjúka aldraða sem dveljast á vegum Landspítalans eða deildar Landspítalans að Hátúni 10B hér í Reykjavík. Aðrar stofnanir, hvort sem þær eru í eigu sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnanir, fá sitt daggjald ákveðið af daggjaldanefnd, hvar í eiga sæti fulltrúar opinberra aðila og sveitarfélaga, en enginn aðili frá sjálfseignarstofnunum. Eftir að daggjaldanefnd hefur lokið störfum sínum fer úrskurður hennar, sem er byggður á yfirsýn og staðreyndum sem fyrir liggja frá viðkomandi stofnunum fyrir æðsta dóm — verðlagsnefnd þessara mála — sem er hæstv. ríkisstj.

Það, sem ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh um, er þetta:

Hver er raunkostnaður á dag fyrir sjúklinga sem dvelja á hjúkrunardeild Landspítalans að Hátúni 10B: a) í fullri vistun; b) í dagvistun? Og ég hef beðið um að það yrði sundurliðaður kostnaður og að með verði teknir kostnaðarliðir sem verða til utan deildarinnar sjálfrar.

Ég hef það í huga m.a. að gott getur verið til frekari samanburðar á seinna stigi að fá svar við þessu því að í byggingu er eitt slíkt hjúkrunarheimili aldraðra þar sem menn bjóða sömu þjónustu, þegar það verður komið upp, og þessi hjúkrunardeild Landspítalans veitir, þótt hæstv. ráðh. hafi ekki séð ástæðu til að minnast á það í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu þegar hann var að telja upp þau hjúkrunarheimili og skyldar stofnanir fyrir aldraða sem í smíðum væru.