19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

1. mál, fjárlög 1981

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég byrja mál mitt með því að segja að ég get vel tekið undir ræðu hv. 1. þm. Vestf. í sambandi við málefni Landhelgisgæslunnar. Þar er vissulega um mál að ræða sem þarf að taka til ítarlegrar umfjöllunar. Efling Landhelgisgæslunnar er mikilvægt mál fyrir okkur. Ég tel að það sé kominn tími til að skoða það mál opnum augum, miðað við þá tækni og þær nýjungar sem eru á því sviði, því að öflug landhelgisgæsla er brýnt mál sem þarf að skoða mjög vandlega.

Það var ekki ætlun mín að ræða hér efnislega um fjárlögin, enda stöndum við framsóknarmenn að meirihlutaáliti sem hér hefur verið gerð ítarleg skil af formanni fjvn.

Eins og fram hefur komið við þessar umr. eru fjárlög fyrir árið 1981 undirbúin og unnin með svipuðum hætti og verið hefur á undanförnum árum. Hins vegar hefur efnahagsástandið, hin mikla spenna í þjóðfélaginu, gert þessa fjárlagagerð vandasamari en oftast áður. Meginmarkmið fjvn., sér í lagi meiri hl. n., hefur því verið að halda fjárlögum innan þeirra forsendna sem fjárlagafrv. byggir á, sem eru í meginatriðum að launaverðlagsþróun verði sú, að tekjur og verðlag hækki að meðaltali um 42% milli áranna 1980 og 1981. Til þess að því markmiði verði náð tel ég að fjvn. hafi með aðhaldsaðgerðum sínum við umfjöllun frv, auðveldað stjórnvöldum að marka skynsamlega stefnu í efnahagsmálum sem allir eru í raun sammála um að ekki megi draga lengur að koma fram. Ég vil í þessu tilefni geta þess, eins og allir ættu raunar að sjá, að í sjálfu frv. eru 11 milljarðar til efnahagsaðgerða og enn fremur hefur hér komið fram að möguleikar eru á 4 milljörðum í sambandi við skattheimtu sem einnig má nota í sama skyni.

Ég get ekki stillt mig um að nota tækifærið til að lýsa sérstakri ánægju með yfirlýsingar hv. stjórnarandstæðinga á Alþingi undanfarnar vikur um nauðsyn á mikilvirkum aðgerðum í efnahagsmálum, því að ég geri ráð fyrir að þrátt fyrir stóryrði þeirra og orðaskak gagnvart ríkisstj. og okkur stuðningsmönnum ríkisstj. viðurkenni þeir í raun hið atvarlega efnahagsástand og viðleitni og ákvörðun ríkisstj. til viðnámsaðgerða. Það mætti því ætla að þeir væru fúsir til samvinnu um þessar aðgerðir. Þetta er mjög mikilvægt að mínu mati og undirstrikar þann þunga sem við framsóknarmenn höfum lagt og leggjum í undirbúning efnahagsaðgerða hæstv. ríkisstj. sem nú eru á lokastigi. Dreg ég ekki í efa að stjórnarandstaða muni styðja væntanlegar aðgerðir. Það er Þjóðarvilji.

Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú vil ég láta í ljós þá skoðun, að ég tel brýna nauðsyn að fjvn. fái aðstöðu til að taka til ítarlegrar skoðunar ýmsar fyrirferðarmiktar stofnanir ríkisins með það fyrir augum að gera úttekt á því hvort sú mikla sjálfvirka útþensla í umfangi ýmissa ríkisstofnana hefur við rök að styðjast. Þetta er mikið og vandasamt verk, en að mínu mati má ekki lengur fresta að hefja í alvöru þessa úttekt í sambandi við fjárlagagerðina. Jafnframt tel ég að fjvn. verði að hafa möguleika til að taka virkari þátt í gerð fjárlaga í samvinnu við fjárlaga- og hagsýslustofnun en venja hefur verið til þessa. Um þetta ætti raunar Alþingi að taka sérstaka afstöðu sem fyrst.

Við afgreiðslu fjárlaga 1980 var ákveðið af n. að gera athugun á einni eða fleiri ríkisstofnunum á grundvelli svokallaðrar núllgrunnsáætlanagerðar. Þetta mistókst algerlega, því miður, ekki síst vegna aðstöðuleysis nefndarinnar og tímaleysis hagsýslustofnunar. Tel ég sjálfsagt að skoða þetta mál betur og kanna hvort þessi aðferð, sem víða um heim hefur gefið góða raun að sagt er, hentar að einhverju marki í okkar efnahagskerfi.

Í þessu sambandi vil ég nefna hér framkvæmd laga um skipan opinberra framkvæmda frá 30. apríl 1970. Framkvæmd þessara laga hefur verulega mistekist. Í sumum tilfellum hefur hún verkað öfugt við tilganginn. Það mætti hafa langt mál um þetta atriði sérstaklega og lesa upp úr lögunum sjálfum sem Alþingi samþykkti á sínum tíma mótspyrnulítið, að því er ég hygg, hér í sölum Alþingis. En því miður hefur framkvæmdin verulega mistekist. Ég tel því brýna nauðsyn að Alþingi taki þessi lög til endurskoðunar með tilliti til þeirra miklu ágalla og árekstra sem sífellt eru að verða eða hafa komið fram, ekki síst í sambandi við fjárlagagerðina sjálfa. Kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. ýmislegt viturlegt um það mál. Þó að vissar ýkjur hafi verið hjá honum í mörgum tilfellum styðst þetta þó við vissa reynslu.

Við höfum margar stjórnarstofnanir í kerfinu, sumir segja of margar. Ég nefni Rannsóknarráð ríkisins sem á að vera ráðgefandi við stefnu í rannsóknum fyrir atvinnuvegina, ekki síst iðnaðinn, svo og fyrir nýjar iðngreinar og ýmsa framtíðarmöguleika og ekki síst í því verkefni að skipuleggja stofnanir á þessu sviði. Það er skoðun mín að endurbæta þurfi skipulag þessara mála í heild, þar með talið Rannsóknaráðið sjálft. Það vill einhvern veginn þannig til í okkar litla þjóðfélagi, að það er eins og það sé sjálfgefið að um offjölgun þurfi að verða í nefndum og ýmsum stjórnarstofnunum sem eiga að vera til ráðuneytis um að skipuleggja ýmsa þætti í þjóðfélaginu.

Eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við fjárlögin er auðvitað hvernig fjármagnið, sem veitt er til hinna ýmsu framkvæmda, er nýtt. Það er áreiðanlega verðugt viðfangsefni Alþingis að skoða vandlega á hvern hátt eftirlit á þessu sviði getur farið fram og þá ekki síður með ríkisframkvæmdum en sameiginlegum framkvæmdum ríkis og sveitarfélaga. Ég vil vekja sérstaka athygli á hugmynd hv. 3. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, sem kom fram í till. hans hér á Alþingi á fyrri þingum um tengingu ríkisendurskoðunar við eftirlit á þessu sviði. Í lögum um stjórn efnahagsmála o.fl. eru að vísu sterk ákvæði um fjárfestingarmál, en að mínu mati ná þau alls ekki nógu vel utan um þetta verkefni.

Ég vek athygli á því, að enn hefur Alþingi ekki tekið beina afstöðu til lögbundinna framlaga til fjárfestingarsjóða þar sem framlög eru skorin niður í fjárlögum ár hvert án þess að lögum sé breytt. Ég tel að ekki sé hægt að draga lengur að marka stefnu í því máli. Það er óraunhæft og raunar alls ekki í samræmi við tilgang laganna að hafa þá viðmiðun eða þá stefnu sem fylgt hefur verið í þessu máli, og þetta á einnig ríkan þátt í að skekkja fjárlögin frá ári til árs.

Ég minni hér á eitt mál í fjárlögum sem um hefur verið rætt í fjölmiðlum. Málið er ekki stórt, en það er um fjárveitingu til að setja upp lyftu í Þjóðminjasafnshúsið í þeim tilgangi að auðvelda fötluðu fólki aðgang að þessu safni. Hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessa máts er raunar gott dæmi um hvernig ekki á að standa að framkvæmd fjárlaga. Í fjárlögum 1979 var fyrst veitt fé til framkvæmda þessara sjálfsögðu úrbóta. Fjármagnið var notað í annað án samráðs við fjvn., m.a. keyptur sendiferðabíll o.s.frv. Í fjárlögum yfirstandandi árs — 1980 — var aftur veitt fé til að kaupa lyftu. Ekkert hefur verið framkvæmt, en lyfta pöntuð og mun sennilega koma í byrjun næsta árs, hluti fjárhæðar greiddur inn á pöntunina. Þetta kom í ljós við eftirgrennslan í haust. Fjvn. gerði sérstaka úttekt á þessu máli nú og leggur fram till. um 26 millj. kr. fjárveitingu til að tryggja að staðið verði við þessa nauðsynlegu framkvæmd fyrir fatlað fólk í landinu. Ég tel nauðsyn í þessu tilfelli að fjvn. taki sér það vald nú í vetur og vor að fylgja þessu sérstaka máli eftir að gefnu tilefni. Þetta sýnir okkur, þm. góðir, ljóslega þörfina á raunhæfara eftirliti með opinberum framkvæmdum í landinu.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna sérstaklega einn mikilvægan þátt fjárlaga, þ.e. fjármagn til vegamála 1981 sem er eins og allir vita tæplega 39 milljarðar. Það er veruleg aukning frá fyrri árum og mun gera mögulegt að ná umtalsverðum árangri á næsta ári bæði í uppbyggingu vega og lagningu varanlegs slitlags. Stórframkvæmdir í vegamálum eru með þýðingarmestu framkvæmdum fyrir þjóðina. Svo sannarlega vona ég að nú sé brotið í blað og næstu ár berum við gæfu til að gera stórátak á þessu sviði. Það er eitt þýðingarmesta byggðamál á Íslandi sem stendur.

Það hefur e.t.v. ekki vakið athygli annarra en mín, að hv. frsm. 1. minni hl. fjvn. taldi ekki ástæðu til að minnast á þetta atríði í hinni venjulegu neikvæðu ræðu sinni um fjárlög ríkisins. Það vakti athygli. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er eitt af þeim málum sem hefur verið deilt hart um á undanförnum árum í sölum Alþingis. En það er ekki ástæða til þess nú, þegar eitthvað jákvætt er að gerast í svona málum, að minnast á það. Þetta eru neikvæð vinnubrögð og neikvætt tal.

Í tilefni 50 ára afmætis Ríkisútvarpsins vil ég láta koma fram, að ég vona að ákvörðun verði tekin um að hefja byggingu útvarpshúss í byrjun næsta árs og jafnframt verði myndarlegur rekstur hljóðvarps og sjónvarps tryggður með samræmdum aðgerðum bæði hvað varðar breytt innheimtukerfi afnotagjalda svo og nýja tekjustofna. Ég tel sjálfsagt að þm. sameinist um það á þessu þingi að finna varanlega lausn fyrir þetta óskabarn okkar. En ég get ekki látið hjá líða, um leið og ég minnist á þetta, að lýsa furðu á brtt. fyrrv. formanns fjvn., hv. 5. þm. Vesturl., sem er hér á þskj., ekki vegna þess að málið sé ekki gott sem hann flytur og vissulega væri nauðsyn að fá á því leiðréttingu, heldur vegna þess að í fjvn. fyrir ekki ári vorum við að ræða um þetta sama vandamál sem var enn þá stærra þá að vissu leyti, og þá var afstaða hans önnur. (Gripið fram í: Að hvaða leyti?) Að öllu leyti raunar. Þá var enginn rekstur tryggður, eins og kemur fram í reikningum útvarpsins fyrir árið 1980. — En þá var afstaða hv. þm., sem þá var formaður fjvn., í algerri andstöðu við það sem kemur fram í brtt. á þskj. núna. Þetta verður að telja furðulegt, ekki hvað síst þegar um er að ræða að hv. þm. hefur verið starfsmaður stofnunarinnar og er í útvarpsráði sjálfur.

Ég vil endurtaka að ég vona að hv. þm. beri gæfu til þess á þessum tímamótum að taka myndarlega á þessu máli. Það þarf að skoða það ofan í kjölinn og finna skynsamlegustu leið, sem hægt er að fara, til að gera þessa stofnun sjálfstæða, eins og hún þarf og á að vera.

Ég vil að lokum þakka fjvn.-mönnum fyrir ágætt samstarf svo og hagsýslustofnuninni og ánægjulega samvinnu í fjvn. í vetur. Hvað sem við segjum um þessi fjárlög og hvað sem við segjum um efnahagsástandið almennt er það von mín og trú, að þessi fjárlög marki á vissan hátt tímamót til framfara í landinu.