19.12.1980
Efri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

176. mál, vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur þetta mál gengið bæði gegnum hv. Ed. og Nd. En í Nd. var sú breyting gerð á frv., að sælgætisgjald var lækkað úr 10% í 7%. (Gripið fram í: Er það niðurtalning, hæstv. ráðh.?) Já, við getum kallað það niðurtalningu, það er vel við hæfi. A.m.k. færðist prósentan niður á við og er það áreiðanlega fagnaðarefni þeim sem harðast börðust gegn þessari skattlagningu.

Þegar frv. var fyrst lagt fram var gert ráð fyrir að það skilaði ríkissjóði í auknum tekjum um 3.4 milljörðum kr., í heild tæpum 4 milljörðum þegar við bætist það sem fyrir var í þessari gjaldtöku. Eftir að prósentan hefur verið lækkuð úr 10% í 7% lækkar gjaldið um 250 millj. kr. og mun því skila í auknum tekjum tæplega 3.5 milljörðum.

Vegna umræðna, sem áttu sér stað um málið í Nd., vil ég sérstaklega taka það fram, að tilvist þessa frv. og þessara væntanlegu laga er ekki á nokkurn hátt tengd aðlögunar- eða jöfnunargjaldi sem er allt annar skattstofn og lagður á í allt öðrum tilgangi. Hér er fyrst og fremst um að ræða tekjuöflunarmál fyrir ríkissjóð og sú tekjuöflun verður að ganga fyrir sig alveg óháð því, hvernig hagað verður hugsanlegu 2% aðlögunargjaldi eða 2% hækkun á jöfnunargjaldi eða ígildi þess, eins og kveðið er á um í frv. um jöfnunargjald sem afgreitt hefur verið frá Ed. og er nú til meðhöndlunar í Nd. Það fé, sem inn kemur vegna þessa vörugjalds, mun renna í ríkissjóð eins og alltaf hefur verið og mun sem sagt ekki verða endurgreitt úr ríkissjóði til iðnaðarins. Þessi gjaldtaka mun standa alveg óháð því, hvernig til tekst um hækkun jöfnunar- og aðlögunargjaldsins.

Þetta vildi ég að kæmi alveg skýrt fram, svo að enginn misskilningur væri um þetta efni, vegna ýmissa ummæla sem féllu um málið í hv. Nd. í gær. En ég vænti þess, að deildin samþykki frv. eins og það liggur nú fyrir.