20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

1. mál, fjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Alþingi er ein af þeim stofnunum ríkisins sem kaupa dagblöðin. Þessi blöð lesa alþm. í vinnutímanum. Ég vil benda hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni á það, að dagblaðið Tíminn liggur t.d. á borði hans nú þegar við störfum að atkvgr. í Sþ. (Gripið fram í: Er það nokkur hemja?) Herra forseti. Hér er um það að ræða að heimila ríkisstofnunum (Gripið fram í.) Þingvörður kom og sótti Tímann á borð Matthíasar Bjarnasonar. Hér er um það að ræða að heimila ríkisstofnunum að kaupa eintök af dagblöðum. Fyrir nokkrum árum átti ég þess kost að fara ásamt fleiri ritstjórum dagblaða yfir kaup ríkisins á blöðum. Þá afhentu dagblöðin yfir 900 eintök af blöðum til ríkisstofnana, en fengu aðeins greitt fyrir um 200 eintök. Ég hygg, að svo sé þetta enn, og bendi á það t.d., að dagblöðin gefa nú í dag fjölmörgum ríkisstofnunum, eins og skólum og sjúkrahúsum, fjölmörg eintök. Mér finnst engin ástæða til þess, að ýmsir menn í þjónustu ríkisins, svo sem þm., fái dagblöðin til lestrar án þess að fyrir þau sé greitt. Ég segi nei.