28.01.1981
Efri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vildi í fyrsta lagi andmæla þeim upphæðum sem hv. þm. Lárus Jónsson nefndi hér áðan og sagði að yrðu munurinn á skattvísitölu þeirri, sem ákveðin er í fjárlögum og þeirri skattvísitölu, sem hefði átt að ákveða miðað við tekjubreytingu milti ára. Þar er ekki um neina 10 milljarða að ræða. Það er hinn mesti misskilningur. Þar er greinilega um tvíreikning að ræða. Eins og ég hef látið koma fram var raunverulega gert ráð fyrir því við fjárlagaafgreiðsluna að þarna væri líklega um 4 milljarða að ræða. Það má vafalaust rökræða það, hver þessi upphæð raunverulega er, en þá verður að taka tillit til þess, hvort fjárlagatölur í fyrra voru raunverulega of hátt áætlaðar miðað við reynsluna og að hvað miklu leyti. En 10 milljarðar eru í þessu sambandi fjarstæðutala. Upphæðin er, eins og ég hef þegar sagt, liðlega 4 milljarðar. Það má kannske segja 4–6 milljarðar, eftir því hvernig það er reiknað, en ég tel að miðað við allar aðstæður sé eðlilegra að miða við lægri töluna.

Hv. þm. sagði að það skipti ekki miklu máli þó að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti hefðu ekki skilað sér eins og áformað var, það væri bara innheimtan sem hefði brugðist á seinustu mánuðum ársins og þá hlyti þetta að skila sér á nýbyrjuðu ári. En þetta er ekki alls kostar rétt. Munurinn á innheimtu og álagningu er ekki bara sú upphæð sem eftir verður hjá einstaklingunum vegna þess að þeir hafa ekki peninga til að borga skattana sína. Það er fleira sem þar kemur til. Álagningartölurnar eru um leið í stórum stíl áætlunartölur. Það er áætlað á alla þá, sem ekki hafa náð því að skila skattframtölum, og þeir voru, að því er mér var sagt, æðimargir að þessu sinni vegna þess hversu skattalöggjöfin var seint á ferðinni og hvað margir voru því óviðbúnir að gera grein fyrir tekjum sinum. Ég held að skýringin á því, hvað innheimtutölurnar eru miklu lægri hlutfallslega en álagningartölurnar að þessu sinni, hvað afföllin eru miklu meiri, liggi ekki síður í því, að það var óvenjulega mikið áætlað og í mörgum tilvikum þá áætlað djarft af skattstofum, en síðan hefur komið í ljós við nánari yfirferð að þarna var ofreiknað og það kemur því til frádráttar. Skattarnir eru í reynd lægri en fyrstu tölur bentu til.

Það má vel vera að eitthvað hafi borið á því, að menn hafi ekki gert skil á sköttum sínum á síðari hluta ársins. Raunar tel ég það víst að svo hafi verið vegna fjárskorts. Það liggur einfaldlega í því, að fyrirframgreiðslan á fyrri hluta ársins var óvenjulega lág, hún var ekki nema 65%, þannig að skatturinn varð hlutfallslega þyngri á síðari hluta ársins en fyrri hluta ársins og menn áttu erfiðara með að greiða hann af því að þeir höfðu ekki haldið nægilega miklu eftir á fyrri hluta ársins. Þannig lentu sumir í greiðsluvandræðum, sem svo aftur hefur valdið því að innheimtan hefur skilað minna en reiknað var með. Það eru einhver dæmi um þetta. En ég held samt að hitt sé ekki síðri ástæða, hvað mikið var um áætlanir, bæði á einstaklinga og fyrirtæki, á s.l. skattári.

Við höfum rætt hérna um tvö atriði sem hv. þm. vék að. Ég vildi sérstaklega ekki láta ómótmælt að hann væri að nefna hér tölur upp á 10 milljarða, — tölur sem bersýnilega eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Í öðru lagi vildi ég benda á það, að léleg innheimta á þessu ári þarf ekki að þýða stórauknar tekjur aftur á næsta árinu. Þar kemur fleira til.

En að lokum, herra forseti, vil ég svara fsp. sem kom fram hjá hv, þm. Lárusi Jónssyni. Hann spurði um hvernig afkoma ríkissjóðs væri á árinu 1980. Ég verð að láta mér nægja að vitna til fréttatilkynningar sem fjmrn. sendi út í byrjun janúar, þar sem gerð var grein fyrir stöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum. Vissulega eigum við eftir að fá mörg gögn í hendur sem gera grein fyrir stöðu ríkissjóðs frá fleiri sjónarmiðum en þessu eina, og endanlega fáum við það í ríkisreikningnum sem vonandi verður hægt að útbýta hér á Alþingi áður en þinginu verður slitið. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram komu í þessari fréttatilkynningu, hafði staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum versnað um 1200 millj. kr., en hins vegar hafði ríkissjóður greitt afborgun til Seðlabankans upp á 8 milljarða. Í raun hafði staðan því batnað um 6.8 milljarða á liðnu ári. Okkur vantaði 1200 millj. kr. til að standa að fullu í skilum við Seðlabankann á þessum 8 milljörðum, eins og ráð var fyrir gert þegar fjárlögin voru samþykkt.

Hins vegar er þessi skuld við Seðlabankann mjög þungbær. Á henni eru vextir og við hana bætist verðauki. Vextir og verðauki eða verðbætur eru að sjálfsögðu ekkert annað en uppfærsla skuldarinnar í samræmi við verðrýrnun krónunnar. Og þegar ég nefni hér 1200 millj. og síðan 6.8 milljarða hefur ekki verið tekið tillit til uppfærslu þessarar skuldar. Þá er dæmið reiknað á óbreyttu verðlagi, sem auðvitað er eitt eðlilegt í þessu sambandi vegna þess að þessi skuld, sem er frá því að hv. þm. Lárus Jónsson seinast studdi ríkisstj., hefur í sjálfu sér ekkert hækkað þó að krónurnar hafi orðið fleiri eða þær hafi rýrnað. (Gripið fram í.) Ég held að hún sé að ákaflega litlu leyti frá seinni tíð.

Þetta er útkoman eins og hún blasir við í grófum dráttum. Ef hins vegar er tekið tillit til hækkunar skuldarinnar vegna verðbóta á skuldinni bætast þar 8 milljarðar við. Þrátt fyrir þessa greiðslu til Seðlabankans hefur því nettóskuldastaðan e.t.v. ekki batnað á þessu tímabili. En krónurnar eru verðminni og skuldin er í grófum dráttum heldur lægri, ef eitthvað er, miðað við fast verðlag.

Ég vænti þess, að innan nokkurra vikna liggi það skýrar fyrir hver rekstrarstaða ríkissjóðs hefur sennilega verið. Þegar við höfum fengið skil á söluskatti og öðrum ógreiddum sköttum frá s.l. ári, sem er núna undir mánaðarlokin, liggur auðvitað miklu ljósar fyrir en áður hver raunveruleg og endanleg rekstrarstaða ríkissjóðs er. En ég var hér að gera grein fyrir greiðslustöðunni gagnvart Seðlabankanum.