29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

63. mál, fjarskiptaþjónusta á Gufuskálum

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er algerlega sammála hv. flm. þessarar þáltill. um nauðsyn skjótra úrbóta í fjarskiptamálum þessa svæðis. Hins vegar tel ég þá leið, sem þáltill. gerir ráð fyrir, að setja upp nýja strandstöð á Gufuskálum, allt of dýra. Í rekstri kæmi hún til með að kosta um 80–90 millj. gamalla kr. á ári, án þess að skila nokkrum umtalsverðum tekjum á móti. Og þó að strandstöð yrði sett upp á Gufuskálum yrði eftir sem áður að fjarstýra viðtækjum a.m.k. og einhverju af sendum, því að hlustunarskilyrði á Gufuskálum sjálfum eru líklega einhver þau allra verstu á öllu landinu vegna truflana frá gífurlega sterkum sendi lóranstöðvarinnar þar. Ef fjarstýra þarf viðtækjum og sendum á þessu svæði hvort eð er, þá er svo til alveg jafnauðvelt að gera það frá loftskeytastöðinni í Reykjavík án verulegs aukatilkostnaðar í rekstri. Auðvitað, eins og fram kom hjá hv. flm., geta orðið bilanir, en það geta líka komið bilanir innan svæða, þannig að það er erfitt að tryggja sig gegn því nema þá að hafa fleiri varasambönd á þeim leiðum, þ.e. á aðalleiðunum frá Reykjavík til Snæfellsness.

Það er líka rétt hjá hv. flm., að höfuðkosturinn við sérstaka stöð er staðþekking eða kunnugleiki á staðnum sem menn mundu fá eftir langdvalir þar. Til að byrja með yrðu þó allir mennirnir ókunnugir á Gufuskálum, og á þessum stöðvum eru tíð mannaskipti þannig að það er ekki heldur einhlítt að það breyti svo miklu hvort um er að ræða fjarstýringu frá Gufuskálum eða frá Reykjavíkurradíói.

Það, sem gera þarf bæði á þessu svæði og ýmsum öðrum sem hv. flm. gat um, er að koma upp nægilega mörgum viðtækjum og sendum á metrabylgjusviðinu til að ná til allra stranda landsins og grunnmiða allt í kringum landið og fjarstýra þeim frá þeim loftskeytastöðvum sem nú eru starfandi. Hitt er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. flm., að þessar framkvæmdir hafa gengið allt of hægt, þær hafa tekið allt of langan tíma. Það er unnið að þessu allt í kringum landið meira og minna, en þetta gengur allt of hægt. Ég er algerlega sammála því. Menn hafa að vísu millibylgjustöðvar líka, en reyndin er sú, að menn vilja hitt heldur. Það er þægilegra á ýmsan hátt. Ég er síður en svo að mæla á móti því, að þarna þurfi hraðar aðgerðir.

En það er erfitt að krefjast aukinnar hagkvæmni í rekstri Pósts og síma og hlutfallslegrar lækkunar gjaldskrár samtímis því að skylda stofnunina til að bæta stórlega við sig óarðbærum kvöðum sem hægt er að sinna annars staðar frá með svo til jafngóðu móti. Þessar kvaðir kemur hinn almenni símnotandi auðvitað til með að greiða.

Herra forseti. Ég vil láta leysa þau vandamál, sem hér er vissulega um að ræða, og leysa þau fljótt, en gera það með litlum tilkostnaði miðað við þá lausn sem þáltill. gerir ráð fyrir.