29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

80. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið taka undir efni þeirrar till. sem hér er flutt. Ég tel að hér sé um tímabæra till. að ræða og lýsi við hana stuðningi á þeim grundvelli, eins og ég skil hana, að ríkisstj. sé falið að kanna með hverjum hætti þessum málum verði best fyrir komið.

Tillaga þessi fjallar um skaða sem húsbyggjendur hafa orðið fyrir og er mjög mikill víða, sérstaklega hér í Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur. Till. fjallar um skaða sem menn sáu ekki fyrir, ekki sérfræðingar á þessu sviði og þaðan af síður leikmenn. Hún fjallar um skaða sem er það mikill að þeir, sem þátt eiga í þessu máli, hvort sem um er að ræða steypustöðvar, Sementsverksmiðju ríkisins eða aðra aðila, hafa ekkert fjárhagslegt bolmagn til að bera hann, jafnvel þó þeir kynnu að einhverju leyti að vera taldir ábyrgir.

Alkalívirkni hefur komið hér fram í húsum og er Ísland, að ég hygg, eina landið þar sem það er þekkt. Steypuefni eru kölluð alkalívirk ef þau innihalda ókrystallaða eða lítt krystallaða kísilsýru, en í slíku tilviki koma fram efnaáhrif frá alkalísamböndum eða kalksamböndum sementsefjunnar við þessa kísilsýru. Við þá efnabreytingu, sem þannig fer fram, myndast seigfljótandi alkalíkísilhlaup. Þetta alkalíkísilhlaup er út af fyrir sig ekki skaðvænlegt nema til komi vatn að auki, en hlaupið hefur þann eiginleika að það drekkur mjög í sig vatn og þegar vatn er til staðar veldur þetta mikilli þenslu í steypunni sem getur sprengt hana og brotið niður styrkleikabönd hennar. Auðvitað getur þessi skaði, sem þarna er um að ræða, verið mismunandi eftir því hvernig þenslan er og hversu efnasamsetning hlaupsins er. En ég held að ég fari rétt með það, að fyrir 1940 þekkti enginn maður þessar alkalíefnabreytingar í steypu. Þá töldu menn að þau áhrif, sem menn síðar hafa rakið til alkalíefnabreytingar, væru frostþensla.

Eins og fram kom hjá flm. var hin íslenska Steinsteypunefnd fyrst stofnuð 1967. Ég hygg að það hafi svo verið 1969 sem alkalíefnahvörf fundust hér á landi fyrst og þá fundust þau á byrjunarstigi í höfninni í Þorlákshöfn. Forstjóri Sementsverksmiðjunnar, Guðmundur Guðmundsson, hefur ritað talsvert um þessi efni og þ. á m. um íblöndun á fínmöluðu líparíti í venjulegt Portlandssement eða svokallaða possotanvirkni. Um 1976 var þessi líparítíblöndun aukin í um 9%, en hún dregur mjög úr hættuvirkni alkalíhlaupsins.

Það skeður síðan 1976 — svo seint sem árið 1976 — að menn fyrst finna merki um efnahvörf af alkalígerð á háu stigi í húsi hér á Íslandi. Ég held að ég fari rétt með að það hafi erlendum fræðimönnum þótt mikil frétt, því að almennt hygg ég að meðal verkfræðinga hafi menn ekki talið að hætta væri á alkalívirkni í útveggjum húsa. Hins vegar höfðu menn áður þekkt að alkalívirkni gat verið hættuleg, sérstaklega þar sem mannvirki voru í miklum tengslum við vatn. Forsendur þess, að alkalíefnahvörf geti komið fram, eru sem sagt þrenns konar: það verða að vera alkalíefni í steypunni í talsvert ríkum mæli, kísilrík korn verða að vera í fylliefni, en auk þessa verður að vera stöðugur raki. Á Íslandi virðist þessi hætta hafa verið sérstaklega mikil þegar grannt er skoðað vegna þess hve íslensk sementsframleiðsla inniheldur mikið alkalí í fyrsta lagi. Í öðru lagi hefur þessi hætta aukist mjög við það, að menn hafa farið að nota fylliefni af sjávarbotni. Í þriðja lagi veldur veðrátta okkar, slagregn sem hér eru tíð, því að útveggir verða mun rakari en ella. En í fjórða lagi, og kannske það sem gerir að verkum að þessi virkni hefur — ég held ég megi segja það — hvergi fundist í útveggjum húsa nema á Íslandi, er gerð útveggjanna sem tíðkast hér, einangrun við steypta útveggi húsa að innan. Slíkt er í venjulegri verkfræði ekki talið sérstaklega æskilegt. Besta einangrunin að ýmsu leyti er að einangra útvegginn að utan, en því fylgja aftur í okkar veðráttu nokkuð mikil vandamál að vatnsverja einangrunina. Þess vegna hafa menn einangrað að innan. Það veldur aftur því, að steinsteypan er óvarin fyrir slagregni og þeim raka sem utan frá berst. Rannsóknir sýna að rakamagn í útveggjum húsa á Íslandi er mikið. Þessi raki er síðan aðalhvatinn að því, að alkalíefnahvörf eiga sér stað. Ef vatn og raki væri ekki til staðar væri ekki um þessi efnahvörf að ræða.

Eins og fram kemur í máli flm. er samkv. rannsóknum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins talið að lágmarkstíðni alvarlegra alkalískemmda, bara í Reykjavík og á stór-Reykjavíkursvæðinu, sé slík að um 6.6% af húsum sem byggð eru á tímabilinu 1956–1972, séu með miklar alkalískemmdir. Þegar þetta er skoðað virðist að það séu sérstaklega veikir punktar í húsum þar sem slagveðursátt er ríkjandi og kantar á göflum, sem standa upp fyrir húsið sjálft og ekki eru lokaðir, eða útskagandi bríkur og súlur, sem eru óvarðar að ofan, verði sérstaklega fyrir þessum skaða.

Þegar menn líta til viðgerða á þessu er ljóst að viðgerðir eru talsvert viðamiklar. Takist hins vegar að gera við hús með þeim hætti að vatn eigi ekki lengur aðgang að útveggjum hússins stöðvast þessi alkalívirkni og þá blundar hún áfram. En meðan vatn hefur fullan aðgang að útveggjum heldur alkalívirknin áfram og hætta er á að steypan grotni niður. Viðgerðir beinast að því nr. 1, nr. 2 og nr. 3 að því að minnka raka útveggjanna niður fyrir það rakastig sem getur valdið alkalískemmdum. Hvernig á að gera þetta? Það geta menn deilt um og sjálfsagt þyrfti að gera á því nokkru meiri athugun með hverjum hætti væri hægt að gera það haganlegast og hagkvæmast.

Ég hygg að flestir verkfræðingar telji að loftræst klæðning sé öruggasta leiðin í þessari vörn, að húsið eða steypan sé klædd með loftræstri klæðningu og veggurinn þannig varinn fyrir utanaðkomandi raka. Með því munu sjálf efnahvörfin stöðvast þegar rakinn minnkar í húsinu og veggurinn þornar. En tilraunir hafa jafnframt verið gerðar með því að reyna að verja vegginn með einhvers konar málningu, sementsmálningu eða sílikonhúðun eða einhverju slíku. Ekki held ég að menn séu á eitt sáttir um varanleik slíkra aðgerða og ljóst er að þær þurfa mikils viðhalds við.

Sementsverksmiðja ríkisins segir okkur að með íblöndun kísilryks frá málmblendiverksmiðjunni sé þessi alkalívirkni íslenska sementsins úr sögunni, lengur sé ekki hætta á þessu, þannig að vonandi sé nú komið að tökum í því máli og þar af leiðandi unnt að slá því föstu að skemmdir verði ekki meiri. Þar með er málið auðvitað ekki búið.

Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins slær því fram, að eitt meginvandamálið í þessu öllu sé hversu lítið fjármagn sé skammtað til rannsókna. Þar benda menn á nauðsyn þess, að kannað sé ítarlega á hvern hátt sé hagkvæmast að gera við þessar skemmdir, og sumir varpa fram efasemdum um hvort þær ráðstafanir, sem Sementsverksmiðjan nú hefur gripið til, muni koma í veg fyrir þessar skemmdir í framtíðinni, þar þurfi menn að fylgjast mjög vel með.

Spurning, sem fram kemur í þeirri skýrslu sem flm. vitnaði mikið til, er og hvort hefðbundin uppbygging útveggja sé óhentug með tilliti til alkalískemmda svo og annarra skemmda. Ég hygg að einmitt hér á þinginu sé komin fram nú önnur þáttill. og fjalli hún um einangrun útveggja húsa. Athugun á því máli snertir þetta mál beint. Það er ljóst að þarna eru nokkur atriði sem þarf að skoða betur vegna þeirra gífurlegu fjármuna sem í veði eru.

Það má segja að þeir húsbyggjendur sem í þessu hafa lent, séu að nokkru leyti leiksoppar aðstæðna og hafi að engu leyti getað ráðið við það, í hverju þeir lentu. Mér eru í fersku minni orð eins kunningja míns, sem stendur frammi fyrir mjög alvarlegum alkalískemmdum á húsi sínu. Hann sagðist vera búinn að eyða fram að þessu nánast öllum tíma sínum, orku og fé í að byggja húsið sem hann nú býr í, en nú séu á því svo miklar alkalískemmdir að það liggi við að hann verði að byrja á að byggja það aftur. Það er ljóst að hið opinbera hlýtur að skoða mjög vandlega hvernig unnt er að aðstoða þá sem frammi fyrir slíkum vanda standa. Það má vel vera, eins og flm. drap á, að Viðlagatrygging ætti að einhverju leyti að koma inn í þetta mál. Það er alveg ljóst að þeir, sem frammi fyrir slíkum skaða standa, verða að eiga aðgang að lánakerfi landsmanna til viðgerða. Ég vil hins vegar segja það varðandi þessa till., svo þörf og nauðsynleg sem hún er, að það er nokkrum vanda undirorpið með hverjum hætti á að nálgast þetta mál fjárhagslega, hvers konar kerfi menn hugsa sér, hversu miklar skemmdir þurfi að vera til þess að eðlilegt sé að viðkomandi fái lán eða hvort við ákveðnar skemmdir sé eðlilegt að hann fái einhvern styrk. Þetta er flókið mál og þetta þarf talsvert mikillar athugunar við. — En ég ítreka það, sem ég sagði hér í upphafi, að þessi till. er þörf og hún er nauðsynleg og ég styð það að ríkisstj. verði falið að taka til alvarlegrar athugunar með hverjum hætti megi létta þeim, sem í þessu hafa lent, þær byrðar sem á herðar þeirra hafa verið lagðar.