02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 31. des. s.l. voru gefin út brbl. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu og eru það lög nr. 87 frá 1980. Þessi brbl. hafa nú verið lögð hér fram. Þeim var útbýtt á öðrum degi eftir að þing kom saman að nýju, eða 27. jan., og eru nú til 1. umr. hér í hv. deild.

Í stjórnarskránni eru ákvæði um heimild til handa forseta Íslands að gefa út brbl. milli þinga ef brýna nauðsyn ber til. Um það hefur aldrei verið deilt, að þessi heimild á einnig við um þinghlé eða þingfrestun þegar þingi er frestað með samþykki Alþingis. Alþingi samþykkti sjálft að fundum þess skyldi frestað frá 20. des. s.l. til 26. jan. og var þá á vitorði hv. alþm. að til þess kynni að koma að brbl. yrðu gefin út í þessu þinghléi.

Þau brbl., sem hér um ræðir, voru gefin út síðasta dag s.l. árs. Þau byggjast á efnahagsáætlun, efnahagsaðgerðum allítarlegum sem ná til margra greina efnahagslífsins. Þessar efnahagsaðgerðir, sem brbl. byggjast á, voru ekki fullbúnar þegar Alþingi var frestað 20. des. Hins vegar var það svo um þessar efnahagsaðgerðir að um sumar þeirra þurfti lagaákvæði, en um önnur ekki, heldur voru þau framkvæmdaatriði sem heimildir voru til fyrir ríkisstj. að framkvæma. Þau ákvæði sem brbl. fjalla um voru liður í þessum heildarefnahagsráðstöfunum og bar því brýna nauðsyn til þess að gefa þau út um þetta efni á þeim tíma sem gert var. Þessar aðgerðir voru að meira og minna leyti tengdar gjaldmiðilsbreytingunni um áramótin. Urðu því ýmsar þeirra að koma til framkvæmda strax 1. jan. og þegar af þeirri ástæðu var ekki unnt að bíða með að setja þessi ákvæði í lög.

Þessar efnahagsaðgerðir ríkisstj. mótast af þremur meginmarkmiðum, en þau eru í fyrsta lagi að efla atvinnulíf og tryggja öllum landsmönnum næga vinnu, í öðru lagi að draga úr hraða verðbólgunnar og í þriðja lagi að tryggja kaupmátt launafólks.

Ein meginforsenda í sambandi við þessar efnahagsaðgerðir er sú ákvörðun ríkisstj. að koma á stöðugu gengi á hinum næstu mánuðum og hætta því gengissigi sem lengi hefur verið iðkað. Stöðugt gengi næstu mánuði er mikilvæg forsenda í sambandi við viðnám gegn verðbólgu. Það hefur stundum verið sett fram sú kenning af hagfræðingum, að lækkun krónunnar hafi þau áhrif, að fyrir hvert 1% gengislækkunar hækki vísitala nokkuð skjótlega um þriðjung úr vísitölustigi. Hins vegar sýnir reynslan, og sú skoðun hefur einnig verið sett fram af hagfræðingum, að áhrif gengislækkunar séu, þegar nokkuð líður frá, miklu meiri vegna þeirra víðtæku áhrifa sem gengisskráningin hafi á allt efnahagskerfi landsmanna. Þetta kemur fram m.a. í því, að meðal margra áætlana, sem Þjóðhagsstofnun gerði rétt fyrir áramót, var ein sú, hver áhrif 4% gengislækkun um áramót mundi hafa á verðlagsþróun á árinu 1981, og niðurstaða Þjóðhagsstofnunar, sem liggur fyrir, varð sú, að 4% gengislækkun um áramót mundi þýða 5% hækkun verðbólgunnar á árinu. Ég nefni þessa tölu hér til þess að sýna hversu mikilvæg gengisskráningin er í sambandi við baráttuna gegn verðbólgunni.

Ef litið er á þróun gengismála á þessum mánuði sem liðinn er frá áramótum, frá því að ákvörðun ríkisstj. um stöðugt gengi tók gildi, þá hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar verið stöðugt, verið óbreytt, dollarinn kostar það sama í íslenskum krónum nú í dag eins og hann gerði í ársbyrjun. Ýmsir aðrir erlendir gjaldmiðlar hafa nokkuð hreyfst, þó á mismunandi hátt, og þegar tekið er meðalgengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni hefur íslenska krónan styrkst lítið eitt. Ef nefna skyldi dæmi má taka t.d. dönsku krónuna. Í ársbyrjun kostaði ein dönsk króna 1.03 kr. íslenskar, en nú 97 aura íslenska. Þannig hafa einstakir gjaldmiðlar, eins og kunnugt er, hreyfst nokkuð misjafnlega, en aðalatriðið er þetta: að í heild hefur meðalgengi krónunnar aðeins styrkst gagnvart Bandaríkjadollar. Er það, eins og að var stefnt, óbreytt nú frá áramótum.

Í 1. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki má hækka verð vöru eða þjónustu eða endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé frá því sem var fyrir 1. jan. 1981 til 1. maí 1981, nema að fengnu samþykki réttra yfirvalda, og skulu þau ekki leyfa neina hækkun nema þau telji hana óhjákvæmilega. Leyfi til hækkunar tekur þó ekki gildi fyrr en það hefur hlotið staðfestingu ríkisstj.

Varðandi nánari stefnumótun og framkvæmd þessa ákvæðis ritaði hæstv. viðskrh. verðlagsráði svohljóðandi bréf:

„Með tilvísun til brbl. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, nr. 87 frá 31. des. 1980, þar sem kveðið er á um verðstöðvun á tímabilinu frá 1. jan. til 1. maí 1981, beinir viðskrn. þeim tilmælum til verðlagsráðs og Verðlagsstofnunar, að fylgt verði mjög strangri stefnu í verðlagsmálum á umræddu tímabili og mun strangari en að undanförnu. Ráðuneytið beinir því til verðlagsráðs, að ráðið framfylgi almennri verðstöðvun sem meginstefnu fram til 1. maí n.k. og samþykki ekki verðhækkanir nema í algerum undantekningartilvikum, að undangenginni ítarlegri athugun Verðlagsstofnunar.“

Þetta bréf viðskrh. var lagt fram og rætt á fundi verðlagsráðs og var þar samþykkt í framhaldi af þessu bréfi svohljóðandi tillaga:

„Með hliðsjón af tilmælum viðskrn. samþykkir verðlagsráð að fresta um sinn umfjöllun hækkunarbeiðna annarra en þeirra sem byggja á verulegri hækkun helstu kostnaðarþátta í rekstri fyrirtækja.“

Verðlagsráð samþykkti þessa till. með 7:2 atkv.

Í 2. gr. brbl. er fjallað um framkvæmd þeirra ákvæða laga um stjórn efnahagsmála frá 1979, að verðtryggingu sparifjár skuli komið á fyrir lok ársins 1980. Mál stóðu svo nú, að ef hefði átt að ná fullri verðtryggingu inn- og útlána fyrir síðustu áramót hefði þurft að hækka vexti um ca. 10%. Ríkisstj. taldi alls ekki fært að fallast á slíka vaxtahækkun, svo þung sem vaxtabyrðin er nú þegar orðin fyrir atvinnufyrirtæki og einstaklinga. Með brbl. var því ákveðið að framlengja þennan aðlögunartíma fram til ársloka 1981.

3. gr. frv. fjallar um það mál, sem stjórnarsáttmálinn nefnir sérstaklega, að komið skuli sem fyrst á fót sparifjárreikningum í bönkum og sparisjóðum með fullri verðtryggingu. Þetta ákvæði kom til framkvæmda 1. júlí s.l., en binditími þeirra reikninga, þ.e. sá tími sem sparifé er bundið, var svo ákveðinn að ráði Seðlabankans tvö ár. Reynslan hefur sýnt að þessi binditími er allt of langur, og ákvað því ríkisstj. að setja í brbl. ákvæði um það í fyrsta lagi, að slíkir fullverðtryggðir sparireikningar skyldu vera í bönkum og sparisjóðum og mætti binda þar fé til sex mánaða, m.ö.ö.: í stað tveggja ára binditíma komi sex mánaða binditími. Þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum, sem nú er nánar kveðið á um í 3. gr. brbl., er í því skyni sett að örva sparnað, og er ljóst að með slíkum reikningum er mikil breyting á orðin. Fram að þeim tíma sem þessir reikningar voru upp teknir í bönkum, 1. júlí s.l., hafði fólk engan möguleika til þess að fá fulla verðtryggingu í bönkum og sparisjóðum fyrir sparifé sitt. Það er ljóst, að margir hafa talið sér hentara að ráðstafa fé, sem þeir kynnu að hafa aflögu, til kaupa á ýmsum erlendum vörum eða festa í fasteignakaupum vegna þess að innlánsstofnanir veittu ekki fulla verðtryggingu. Þegar þessir reikningar eru nú upp teknir og verða aðeins bundnir til sex mánaða er þess að vænta, að fólk hugsi sig betur um áður en það fer að verja fénu til kaupa á erlendum vörum eða festa það í fasteignum, ef það getur frestað því, þar sem hér er opnuð leið til að fá fulla verðtryggingu með því að leggja slíkt fé í banka.

Seðlabankinn hefur, síðan brbl. voru sett, haft til nánari umfjöllunar framkvæmd þessa ákvæðis og þá hefur hann jafnframt fjallað um önnur atriði sem hann telur að þurfi að kveða nánar á um eða breyta í sambandi við þetta. Hinn 26. jan. sendi Seðlabankinn ríkisstj. tillögur um framkvæmd þessa atriðis og allmargra fleiri sem hann vill tengja því. Ríkisstj. hefur þær tillögur nú til meðferðar.

Í 4.–6 gr. laganna er fjallað um vísitölu framfærslukostnaðar og greiðslu verðbóta. Í fyrsta lagi er svo ákveðið, að reikna skuli vísitölu framfærslukostnaðar frá 1. jan. s.l. með grunntölunni 100. Síðan skulu framfærsluvísitala og verðbætur greiddar á þessu ári miðað við þær breytingar sem orðið hafa frá grunntölunni 100 1. jan. Verðbætur skulu greiddar skv. framfærsluvísitölu, þó með þeirri undantekningu, að verðbreytingar á áfengi og tóbaki hafi ekki áhrif á verðbæturnar. Varðandi verðbætur 1. mars eru sérstök ákvæði á þá lund, að þær verðbætur reiknast sem hækkun framfærsluvísitölu frá 1. jan., en þó skal taka tillit til hækkana verðlags í nóv. og des. á þann veg, að verðbætur 1. mars skulu ekki vera meira en 7% lægri en verið hefði ef reiknað hefði einnig verið með verðbótum vegna verðhækkana í nóv. og des. Til skýringar má nefna það dæmi, að ef verðbætur eftir eldra kerfi ættu 1. mars að verða 11%, þá yrðu þær væntanlega 4% nú. Ef verðbæturnar ættu að vera 12%, yrðu þær 5%. Sú skerðing á verðbótum, sem með þessu ákvæði verður 1. mars, verður bætt upp með ýmsum hætti.

Í fyrsta lagi er að sjálfsögðu þess að geta, að með þessum ákvæðum er stefnt að því að draga úr hraða verðbólgunnar. Ég ætla að það sé almennt viðurkennt af öllum og ekki síst af launþegasamtökum, að verðbólgan skaðar fyrst og fremst launafólkið og jafnan þegar til lengdar lætur mest láglaunafólkið. Það að draga úr hraða verðbólgunnar er því launþegum áhugamál og hagsmunamál eins og margsinnis hefur komið fram í ályktunum frá samtökum þeirra. M.ö.o.: kaupmáttur á hverju verðbótatímabili mundi því rýrna minna en verið hefur vegna minnkandi hraða verðbólgunnar. Þá verða skattar lækkaðir sem svarar 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna. Fleiri atriði má nefna í þessu sambandi sem hvað eftir annað hafa áður verið rakin og ég skal ekki fara frekar út í að þessu sinni.

Það er auðvitað ljóst, að sú ákvörðun að draga úr verðbótum um 7% 1. mars hlýtur að verða mjög gagnlegt ráð í baráttunni við verðbólguna. Það dregur mjög verulega úr hraða hennar á fyrri hluta þessa árs og ásamt fjölmörgum öðrum aðgerðum ætti það að verða til verulegrar hjálpar í þessari baráttu.

Í 7. gr. frv. er heimild fyrir ríkisstj. til þess að fresta ýmsum framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og lánsfjáráætlunum, ef þörf er á. Eins og áður hefur komið fram í yfirlýsingu ríkisstj. er hér tvennt sem einkum er haft í huga. Annað er að draga úr framkvæmdum, ef nauðsyn reynist, á árinu til þess að koma í veg fyrir ofþenslu í einhverjum greinum, og í annan stað það sjónarmið að afla fjár til að standa undir ýmsum aðgerðum til hagsbóta fyrir launafólk.

Ég hef nú farið yfir meginatriði brbl. og tel ekki ástæðu til þess að orðlengja það frekar að sinni, en legg til að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og fjh.- og viðskn.