02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ekki hafði ég hugmynd um að skattamál yrðu á dagskrá neðri deildar Alþingis í dag.

Eins og kunnugt er er enn nokkur dráttur á því, að unnt sé að taka skattamálin í heild til meðferðar hér í þinginu, vegna þess að þær upplýsingar, sem menn hafa viljað byggja ákvarðanir sínar á, hafa ekki legið fyrir og mjög hefur dregist að við, sem höfum viljað fjalla um þessi mál, gætum fengið þessi gögn í hendur. Hins vegar var lagt fyrir hv. Ed. stjfrv. um skattamál sem einmitt lýtur að vaxtafrádrætti í tekjuskatti, en það mun hafa verið aðaltilefnið að þessari utandagskrárræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Þar er gerð grein fyrir tillögum ríkisstj. í þessu máli. Verða þessi mál til umræðu í fjh.- og viðskn. beggja deilda næstu daga og hv. stjórnarandstæðingar ættu þá að eiga greiða leið að koma sjónarmiðum sínum varðandi vaxtafrádráttinn á framfæri í sambandi við afgreiðslu þess frv. Sé ég ekki að hv. þm. Halldór Blöndal hafi þar með yfir miklu að kvarta, úr því að það mál, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, verður til meðferðar í þn. næstu dagana.

Varðandi spurningu hv. þm. um útreikninga á skattbyrði skattþegna á s.l. ári er því einu til að svara, að það, sem hann gerði hér að umræðuefni áðan, eru sjálfsagðir útreikningar sem gerðir eru með jöfnu millibili, og að sjálfsögðu verða þeir gerðir nú eins og oft áður.