02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að hefja hér rökræður um málefni sem alls ekki er á dagskrá og ekkert stendur til að fjalla um, hvorki í ríkisstj. né á Alþingi, fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Við höfum ekki fengið í hendur þau gögn og ekki getað unnið þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til þess að hægt sé að taka ákvarðanir í þessu máli. Það er því meira eða minna út í bláinn að ætlast til þess, að ég fari að gefa upp í einhverjum smábitum væntanlegar ákvarðanir eða stefnumótun ríkisstj. í þessu máli. Þetta minnir að vísu allóþyrmilega á langar og margar og miklar fsp. hv. þm. um efnahagsaðgerðir ríkisstj. í nóv. og des., þar sem við ráðh. vorum stöðugt þýfgaðir um hvað til stæði í þeim málum, en lítið varð um svör vegna þess að okkur þótti ekki við hæfi að það væri verið að tína það upp úr okkur í smábrotum og brotabrotum hvað til stæði varðandi heildstæðar efnahagsaðgerðir. Þær komu eins og til stóð, þær komu eins og ráð var fyrir gert, á þeim tíma sem að var stefnt. Eins er um ákvarðanir í skattamálum. Þær bíða síns tíma, en þær koma. Ég býst við að þá verði auðvelt að gefa svör við þeim spurningum, sem hv. þm. hefur lagt hér fram.