02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur lagt fram fsp. til forseta þingsins um óvenjulegt ákvæði í brbl. Ég held að því sé hægt að slá strax föstu, að það óvenjulegasta í þessu máli er fsp. sjálf og sá háttur sem á henni er hafður.

Það er vitað að brbl. eiga að koma til umr. hér innan skamms. Þau eru að vísu ekki á dagskrá þingsins í dag, en hljóta að verða á dagskrá einhvern næstu daga. (Gripið fram í.) Já, þau eru raunar á dagskrá í Ed. þegar í dag og eru komin til umr. Ég hef satt að segja ekki haft tíma til að líta inn í hv. Ed. og veit þess vegna ekki hvað þar er um að vera. — En hefði ekki verið eðlilegra að hv. þm. hefði beðið einhvern af flokksbræðrum sínum í Ed. að koma þessari fsp. á framfæri, þannig að hægt væri að ræða hana þar með þinglegum hætti, frekar en að bera hér í Nd. upp fsp. til forseta Nd. um mál sem nýlega er búið að leggja fram í Ed.? Þessi vinnubrögð hv. þm. eru slík einsdæmi að ég man ekki eftir að slíkt hafi skeð meðan ég hef átt sæti hér á þingi.

Ég vil minna á að í fjárlögum er gert ráð fyrir að fjmrh. hafi heimild til að fresta framkvæmdum og lækka tölur fjárlaga um 3000 millj. kr., en slík heimild í fjárlögum hefur verið um nokkurra ára skeið. Í brbl. er um að ræða viðbótarheimild sem hefur verið sett þar inn, en hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda á stundinni ellegar á næstu dögum. Þetta er þó óhjákvæmilegt að hafa sem stefnumið inni í myndinni þegar menn ræða efnahagsaðgerðir ríkisstj. í heild. Það er ljóst að þegar og eftir að ríkisstj. hefur heitið því að um verði að ræða jöfn skipti á kaupmætti annars vegar til aukningar, vegna þess að á síðari hluta ársins er notuð framfærsluvísitala, og svo hins vegar að um nokkra skerðingu vísitölubóta er að ræða 1. mars og að það, sem á að jafna muninn, eru einmitt skattar, sem felur í sér minni tekjur ríkissjóðs, þá verður auðvitað að mæta óvæntum áföllum hvað framkvæmd þessarar stefnu snertir með hugsanlegum niðurskurði á ríkisframkvæmdum eða sparnaði á fjárlögum. Vissulega má segja að þetta ákvæði hefði mátt setja inn í lög á síðara stigi, eins og hv. þm. hefur bent á í fjölmiðlum, — úr því að þetta átti ekki að koma til framkvæmda fyrr en þing kom saman hefði hugsanlega mátt hafa þetta með í lögum, sem Alþingi sjálft hefði sett á síðara stigi, frekar en að fara að taka þetta inn í brbl. En hérna er um að ræða aðgerðir sem eru á þann hátt samræmdar að þær miða að ákveðnu marki og það hefði verið óeðlilegt ef þessi þáttur hefði alveg fallið út og ekki verið gerð nein grein fyrir honum eða engin heimild legið fyrir til að meðhöndla mál með þessum hætti. Þess vegna var ákveðið að taka þetta beinlínis inn í brbl., enda þótt viðkomandi lánsfjáráætlun hafi ekki verið afgreidd í þinginu.

Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að þegar fjárlagafrv. var til meðferðar hér var gerð grein fyrir opinberum framkvæmdum, þ.e. framkvæmdum ríkisins, sem fjármagnaðar yrðu á lánsfjáráætlun. Sú hlið lánsfjáráætlunar liggur því öll ljós fyrir og tá þegar fyrir þegar fjárlögin voru afgreidd. Þannig er ekkert óeðlilegt að hér sé nefnd lánsfjáráætlun. Hún hefur hvað ríkið snertir þegar verið afgreidd. Ekki dettur okkur í hug að skera niður á lánsfjáráætlun framkvæmdir hitaveitna eða kaup á togurum til að geta staðið að ákveðinni skattalækkun eða afla fjár til slíks. Auðvitað er það einungis ríkishlutinn eða ríkisframkvæmdirnar í lánsfjáráætlun sem hér skiptir máli. Þær eru þegar ákveðnar. Þær eru þegar frágengnar í fjárlögum. Ég held því að það sé hreinn útúrsnúningur að telja það skipta einhverju máti þó að síðan hafi ekki veríð endanlega gengið frá lánsfjáráætlun í heild sinni hér á Alþingi. Það er búið að ganga frá þeim hluta lánsfjáráætlunar sem snertir ríkissjóð og ríkisfjármálin. Það er það sem máli skiptir í sambandi við skattalækkanir.