03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

177. mál, iðngarðar

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en í framhaldi af því vil ég segja þetta:

Eftir að till. mín kom fram á þinginu 1978–1979 kom fram það frv. sem ráðh. gat um, þ.e. að stofna lánadeild við Iðnlánasjóð sem lánaði út á iðngarðabyggingar, og reglugerð kom svo ekki fyrr en í s.l. árslok samkvæmt þessum lögum, eins og hann gat um, en með þessu frv. hans var ekkert nýtt veitt til iðnaðar. Það var aðeins skert það fé, sem fyrir var, með því að stofna þessa lánadeild — á það vil ég leggja áherslu — og það hefur ekki verið aukið síðan. Þetta er meginatriði málsins og svo hitt, að sú till., sem var samþykkt hér samhljóða um að undirbúa um þetta fullkomnari löggjöf og hafa samráð við þá aðila, sem þar var fram tekið, sú könnun og sú vinna hefur ekki enn átt sér stað. Ég hafði vonað að með því að það starf hefði verið unnið vel af hendi yrði með nýrri löggjöf veitt stóraukið fé til byggingar iðngarða, sem stórfellt mál, vítt og breitt um landið.