10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá hæstv. viðskrh. sem kom fram hér áðan, að forsenda þess, að vextir geti lækkað að einhverju marki hér, er að verðbólgan lækki að sama skapi. Þetta er það sem fulltrúar Alþfl. hafa ævinlega haldið fram í öllum umræðum um þessi mál. Þetta er hárrétt hjá hæstv. ráðh.

Hin spurningin er svo sú, hvort menn vilja bera ábyrgð á þeim aðgerðum sem leiða til þess að spariféð brennur upp í eldi verðbólgunnar.

Hæstv. ráðh. hafði það á móti þessu frv., þegar það var hér til umr. í gær, að það væri of seint fram komið. Þetta frv. var lagt hér fram nokkru fyrir jól. Það var lagt fram löngu áður en svokallaðar efnahagsráðstafanir og brbl. ríkisstj. voru komin á blað. Það gerist ekki fyrr en á gamlársdag, að þær svokölluðu ráðstafanir, annars vegar brbl. og hins vegar óskalisti, komast á blað. Þetta frv. kemur hér löngu, löngu fyrr og það fjallar um alveg ákveðnar aðgerðir og er flutt í þeim tilgangi að bæta og efla sparnað í landinu með því að gefa fólki kost á að verðtryggja sparifé án bindiþvingana. Það er þess vegna alrangt sem hæstv. ráðh. heldur fram, að það sé enginn munur á þessu og því sem felst í brbl. ríkisstj. Það er vissulega verulegur munur þar á.

Hér er gert ráð fyrir að fólk hafi aðgang að sínu fé, en sé það óhreyft í þrjá mánuði, þá gildi þessi ákvæði. En fólk getur hvenær sem er hreyft þetta fé, það er ekki bundið í þeim venjulega skilningi. Hæstv. ráðh, talaði hér áðan um óbeina bindingu. Það má kalla þetta óbeina bindingu, en féð er ekki bundið. Eigendur þess hafa aðgang að því hvenær sem er, en njóta jafnframt kosta verðtryggingarinnar.

Hins vegar er svo tilgangur þessa frv. að innleiða sérstakan lánaflokk til húsbyggjenda í viðskiptabönkunum til viðbótar við lán húsnæðismálastjórnar og lán lífeyrissjóða og geta þannig í fyrsta lagi hækkað lánshlutfall af byggingarkostnaði og í öðru lagi minnkað og jafnað greiðslubyrði vegna íbúðabygginga og íbúðakaupa og létt af húsbyggjendum þessari byrði skammtíma víxil- og vaxtaaukalána. Hæstv. ráðh. veit áreiðanlega hver aðstaða þess fólks er sem nú stendur í því að byggja. Það verður að eyða verulegum hluta af tíma sínum í alls konar hlaup og bráðabirgðabjarganir. Þeir, sem starfa við banka eða peningastofnanir, þekkja það allra manna best og hafa sínar sögur um það að segja, hvernig ástandið er þar og hvernig ástandið er hjá almenningi. Þetta frv. miðar að því að lagfæra þetta. Þetta er í senn réttlætis- og sanngirnismál nú þegar ríkisstj. kyndir undir 70 – 75% verðbólgu og allar hennar ráðstafanir, sem í orði kveðnu eiga að miða að því að draga úr þessari verðbólgu, reynast kák eitt - hreint kák. Það er miðað við það að standa í sömu sporum að ári liðnu og þegar lagt var upp í þessa ferð. Það er ekki aðeins að hjá einstaklingum blasi við greiðsluerfiðleikar og greiðsluþrot kannske í sumum tilvikum, heldur gildir þetta líka engu síður um ýmis opinber fyrirtæki, eins og t.d. Póst og síma, þar sem fyrirsjáanlegur er gífurlegur rekstrarhalli á þessu ári. Þetta gildir um velflest opinber fyrirtæki. Og síðan talar ríkisstj. um verðstöðvun í 75% verðbólgu. Það er ekkert til sem heitir verðstöðvun. Kannske er hægt að tala um verðfrestun þegar verðbólgan er undir 10%, en þegar verðbólgan er komin yfir 70% er ekkert til sem heitir verðstöðvun. Það er aðeins verið að reyna að blekkja fólk og slá ryki í augu almennings með því að tala um verðstöðvun. Það kemur líka mætavel í ljós núna þegar varla líður sú vika að ekki séu tilkynntar nýjar verðhækkanir. Þetta segir sig sjálft í ástandi eins og nú er í þjóðfélaginu. Og það sorglega við þetta allt saman er að ríkisstj. hefur ekki uppi neina tilburði til úrbóta og innan ríkisstj. virðist raunar ekki vera nein samstaða um aðgerðir. Það eru gerðar tímabundnar ráðstafanir sem eiga að duga aðeins fram undir vorið. Síðan veit enginn hvað við tekur. Um það hefur ekkert verið sagt og um það virðist engin samstaða vera.

Ég er þeirrar skoðunar, að með þessu frv. hafi verið hreyft hinu þarfasta máli. Hér er um að ræða feiknalegt hagsmunamál fyrir alla þá sem standa í því að reyna að koma sér upp húsnæði. Það hefur ekki verið staðið við ákvæði laga um lengingu lánstíma. Bankakerfinu hefur ekki verið gert skylt að kynna og taka upp hagstæðari kjör sem dreifa þessu á lengri tíma, eins og unnið var að í tíð minnihlutastjórnar Alþfl. Þetta veit auðvitað hæstv. viðskrh. allt saman, en það er samt ástæða til að minna á þetta.

Að lokum vil ég aðeins vonast til þess, að þetta frv. fái jákvæða meðferð í nefnd. Hér er gengið nokkru lengra en ríkisstj. hefur lýst sig tilbúna til að gera. Það verður að reyna á það, hvort ríkisstj. vill koma til móts við húsbyggjendur með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Komi í ljós að hún vilji það ekki, þá liggur það fyrir, og sömuleiðis hvort ríkisstj. vill efla sparnað í landinu með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Að lokum aðeins þetta: Hæstv. viðskrh. hafði orð á því í umr. um þetta mál í gær, að menn mættu ekki tala allt of illa um ríkisstj., menn mættu ekki skamma ríkisstj. svona mikið. Mér hefur stundum fundist að hann sjálfur talaði ekki allt of vel um þessa hæstv. ríkisstj.