10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er nú fyrst það, að á mig voru bornar nokkrar sakir hér áðan.

Hæstv. viðskrh. taldi að ég hefði ekki farið rétt með þegar ég lagði þannig út af hans orðum, að ríkisstj. vissi ekki hvort hægt væri að framkvæma stefnu sína. Ég lagði það út af þeim orðum ráðh. sem ég punktaði hérna hjá mér þegar hann var spurður um fyrirhugaða vaxtalækkun 1. mars, að auðvitað þyrfti að athuga stöðu bankakerfisins fyrst, áður en til framkvæmdanna kæmi. Enn fremur sagði hann að hann skyldi ekkert um það segja, hvort bankakerfið þyldi fyrirhugaða vaxtalækkun. Þetta er það sem ég taldi ráðh. segja — og fyrirgefi mér guð ef innihaldið í þessu er ekki nákvæmlega það sama, þó orðin séu kannske örlítið önnur.

Í annan stað ásakaði ráðh. mig enn þá fyrir það, að það væri ljótt að skamma ríkisstj. út af þessu máli. Ég tel að það sé rangt hjá ráðh., það sé fyllsta ástæða til þess að agnúast nokkuð út í ríkisstj. út af þessu máli. Og ég skal rökstyðja það stuttlega.

Það eru ákvæði um það í Ólafslögum, sem svo eru nefnd, að lengja skuli lán og jafna greiðslubyrði. Við það hefur ekki verið staðið. Það finnst mér forkastanlegt með öllu, og ég ítreka það enn, að með því að standa ekki við þann hlutann muni stefnan hrynja. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að agnúast út í ríkisstj. og skamma hana, ef menn svo vilja, út af þessu máli. Ég tel líka fyllstu ástæðu til þess að agnúast út í ríkisstj. og skammast yfir því að hún skyldi ekki grípa til og halda utan að verðlagsmálunum á öllu undanförnu ári, þannig að verðbólga rauk hér upp úr öllu valdi í stað þess að hún átti auðvitað að koma niður á móti vöxtunum eins og hæstv. viðskrh. talaði um áðan. Við stæðum ekki í þessum sporum núna ef ríkisstj. hefði staðið sig í þeim málum, svo að ég tel fyllstu ástæðu til þess að agnúast út í ríkisstj. af því tilefni.

Annars rekur mig minni til þess, úr því að við erum að tala um þessar háu prósentutölur, 50%, 75% og því um líkt, að það hafi verið í stefnuskrá Framsfl. fyrir kosningarnar 1979, að verðbólgan á árinu 1981, því ári sem við erum að tala um, ætti að vera 18%, en ekki 50%. (Gripið fram í.) Já, þá hefðum við líka náð árangri. Við vorum á góðri leið. En auðvitað eru þetta fjölþætt mál og verður að taka á þeim frá degi til dags. Ríkisstj. tók þann kost í sambandi við þær ákvarðanir, sem voru teknar núna um áramótin, að taka upp það sem kallað var fast gengi. Nú hefur í dag verið gefin út tilkynning um það, að breyta þurfi túlkuninni á þessu. Ég get ekki að því gert, að mér þótti það heldur hjákátleg tilkynning sem kom frá ríkisstj., því að efnislega var hún á þá leið, að vegna þess hve dollarinn væri mikilvægur fyrir útflutning okkar Íslendinga hefði verið ákveðið á gamlársdag að binda gengi íslensku krónunnar við dollarinn. Nú hefði hins vegar komið í ljós að gengi Evrópumyntar væri mjög mikilvægt fyrir íslenskan útflutning og þess vegna hefði verið ákveðið að hætta að binda gengi krónunnar við dollarinn. Ég held að ríkisstj. hefði átt að hyggja aðeins betur að þessum málum — rétt eins og fleiri yfirlýsingum sem hér hefur verið talað um — áður en hún lét þær frá sér fara, svo að það væri einhver vitglóra í framkvæmdinni og menn þyrftu ekki að fara tvisvar sinnum í gegnum sjálfan sig í sama málinu.

En að lokum aðeins þetta því að ég lofaði að vera stuttorður: Ég fagna því, að ráðh. kom loksins með rétta skilgreiningu á okkar frv., að því er varðaði með hvaða hætti sparifé yrði ávaxtað, og viðurkenndi að þar væri ekki um raunverulega bindingu að ræða. Ráðh. fer fram í hverri ræðunni og það er eiginlega synd til þess að vita, að við skulum ekki geta fengið að tala hér langtum oftar um þetta, því að á endanum kæmumst við kannske að þeirri niðurstöðu, að við gætum verið sammála og að frv. okkar Alþfl.-manna væri harla gott. Ráðh. sagði að í meginatriðum væri hann sammála þessu frv. Alþfl., þó að af hans málflutningi megi skilja að hann þori ekki að styðja frv.

Eitt atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á í þessu sambandi, gefur mér tilefni til þess að varpa fram einni spurningu. Hann talaði um það, að ríkisstj. hefði ekki þorað að fara lengra en í sex mánaða bindingu og hefði ekki þorað að fara í styttri bindingu en sex mánuði, hins vegar væri það svo í frv. okkar Alþfl.-manna, að við reiknuðum með að það fé, sem væri óhreyft hverja þrjá mánuði, nyti verðtryggingar. Ég vil þá spyrja hvort ráðh. væri t.d. tilbúinn til að fylgja þessu frv. okkar ef við mættumst þarna á miðri leið, t.d. gerðum þá breytingu á okkar frv. að binda verðtrygginguna við fé sem lægi óhreyft í 41/2 mánuð eða 5 mánuði t.d.