12.02.1981
Efri deild: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

6. mál, söngmálastjóri og Tónskóli þjóðkirkjunnar

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur tekið frv. þetta til meðferðar og leggur til að það verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Davíð Aðalsteinsson.

Frv. er ætlað að koma í stað laga nr. 73 frá 1941, um söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Helsta nýmæli frv. er að gert er ráð fyrir að stofnaður verði tónskóli þjóðkirkjunnar í tengslum við embætti söngmálastjóra og er það talið eðlilegt framhald af þeirri starfsemi sem hefur þróast á undanförnum árum. En undir stjórn söngmálastjóra hefur í mörg ár verið rekinn vísir að skóla þar sem starfandi organistar og væntanlegir organistar hafa fengið kennslu. Þótt hér sé um nýmæli í lögum að ræða er þess vegna aðeins verið að festa í lög framkvæmd sem hefur þróast í tengslum við embætti söngmálastjóra.

Frv. þetta kemur frá hv. Nd. Því var lítillega breytt þar. Hv. menntmn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það hefur komið til hennar.