12.02.1981
Neðri deild: 52. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðeins til að vekja athygli á einni, að því er ég tel, mjög athyglisverðri staðreynd. Eins og margfaldlega hefur verið á bent eru öll skattamálin í hreinni upplausn hjá hæstv. ríkisstj. Hún kemur ekki frá sér þeim málum sem hún hefur við að fást, og á það raunar við um fleiri mál frá hæstv. fjmrh.

Nú gerist það, þegar mál er til meðferðar í þinginu, sem varðar framtal manna á árinu 1981 og skiptir húsbyggjendur í landinu mjög miklu máli þegar framtalsfrestur er liðinn, að þá, þegar komið er fram yfir elleftu stundu, er hæstv. ríkisstj. að reyna að afgreiða frá sér mál hér úr hv. Nd. Við atkvgr. eftir 2. umr., sem fram fór hér áðan, hlaut málið afgreiðslu með 22 atkv. Af þessum 22, sem atkv. greiddu með málinu, voru 6 þm. Alþfl. Jafnvel á þessari stundu, þegar framtalsfrestur er liðinn og hæstv. ríkisstj. þarf að koma frá sér máli sem svo miklu skiptir húsbyggjendur í landinu, þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki rænu á því að sjá svo um, að þinglið hennar sé mætt til fundarins til þess að taka þátt í afgreiðslu málsins. Málið hefði ekki hlotið hér afgreiðslu og náð fram að ganga ef ekki hefði komið til atbeini þm. Alþfl. (Gripið fram í.) Ég vil nú biðja menn þarna í Snorrabúð að hafa hljótt um sig og vænti þess, að hæstv. forseti sjái svo til. En þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum um það, hvílík handabakavinna það er sem hæstv. ríkisstj. gerir sig seka um í þessu máli.