16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

5. mál, barnalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir á s.l. vori að frv. þetta yrði athugað á liðnu sumri og lagt fyrir haustþing í tæka tíð. Það var gert. Þetta er 5. mál Alþingis þess er nú situr. Hv. allshn. hefur nú gefist, að ég ætla, gott tóm til að athuga frv. Þær brtt., sem hér hafa verið lagðar fram, eru flestar fremur veigalitlar og raska ekki neinum meginmarkmiðum frv., enda unnar í samráði við höfunda þess í sifjalaganefnd dómsmrn.

Ég vænti þess, að frv. geti nú loks siglt hraðbyri um þessa hv. þd. og verði að lögum á þessu þingi.