15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 2 um skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, sem hér liggur fyrir hv. Ed., var lagt fyrir Alþ. seint á síðasta þingi og mælti ég þá fyrir því. Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka allt það sem kom fram í þeirri framsögu, en vísa aðeins til þess, að vaxandi umræða hefur verið um þörf á löggjöf á þessu sviði, sbr. þingsályktunartillögur á liðnum áratug svo og nefndarskipun og samningu þessa frv. sem nú er lagt fram óbreytt eins og það var lagt fram á s.l. vori. Ég vil aðeins endurtaka ábendingu um þau höfuðsjónarmið sem liggja til grundvallar þessari frumvarpsgerð, en hún er sú, að brýn nauðsyn sé á löggjöf um tölvunotkun og verndun hagsmuna borgaranna í því sambandi. Slík löggjöf hefur alls staðar verið sett á síðustu árum allt í kringum okkur og þó að þróun á beitingu tölvutækni hafi verið hægari hér en umhverfis okkur er ljóst að ekki má við svo búið standa.

Ég minni á skyldleika þessa frv. við frv. það sem hér er næst á dagskránni. Þau mál verða bæði vonandi skoðuð í samhengi hjá þeim n. sem um þau fjalla. Ég vísa að öðru leyti til hinnar ítarlegu grg. sem þessu frv. fylgir.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.