17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

210. mál, vaxtabreytingar

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir tilraun hans til að svara þessum þremur spurningum sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðh. Ég held að það sé óhætt að slá því föstu, þótt um óskýr svör hafi verið að ræða, að í raun hafa vextir eða ávöxtunarkjör hækkað frá áramótum. Það, sem hefur gerst til viðbótar því að verðbólgan hafi þar áhrif, er auðvitað ákvörðun sjálfrar ríkisstj. um breytt innlánsform, sem hefur leitt til þess, að bankakerfið, hinir venjulegu viðskiptabankar, hafa breytt útlánum sínum og fært þau í form svokallaðrar lánskjaravísitölu. Þar sem m.a. er tekið mið í dag af síðustu þremur mánuðum þ. á m. mánuðunum nóvember og desember á s.l. ári, sem voru einhverjir mestu verðbólgumánuðir um margra ára skeið.

Þá er það ljóst, hæstv. ráðh. upplýsir það hér og nú, að þjónustugjöld banka eiga að hækka nú á næstu vikum, á verðstöðvunartímabilinu. Það er athyglisvert að heyra það frá hæstv. ráðh.

Í þriðja lagi segir hæstv. ráðh. að afkoma bankakerfisins sé að hans áliti svo góð að bankakerfið geti tekið á sig lægri — ja, ég leyfi mér að segja: útlánavexti, og þess vegna eigi að vera hægt að stefna að því fyrir 1. mars að lækka vextina. Það eru 10 dagar eftir af þessum mánuði, og það er almennt beðið eftir ákvörðun ríkisstj. í þessum efnum. Og það er afar athyglisvert, að hæstv. ráðh. kemur hér upp og segir að nú sé nokkurt svigrúm hjá bankakerfinu til að auka útstreymið. Ég vænti þess, að forráðamenn bankanna, ríkisbankanna t.d., sem sæti eiga á Alþingi, komi hér í ræðustól og staðfesti þessi orð ráðh.

Þá er það jafnframt ljóst, að samkv. lögum, samkv. 29 gr. svokallaðra Ólafslaga, ber hæstv. ráðh. lagaskylda til þess að leggja fram til tveggja ára í senn áætlun um útlán bankakerfisins. Slík áætlun á að fylgja lánsfjáráætluninni. Lánsfjáráætlun, eða einhverju broti af henni a.m.k., var útbýtt áðan. En þar sem hæstv. ráðh. minntist ekki á þetta einu orði verð ég að álykta sem svo, að hér á borð þm. verði fyrir mánaðarlok lögð svokölluð útlánaáætlun sem hæstv. ráðh. og sessunautur hæstv. ráðh. boðaði í sínum ágætu lögum.

Það liggur jafnframt fyrir, að á gamlársdag voru sett brbl. hér á Íslandi. Ekkert í þessum brbl. var nauðsynlegt að setja í slík lög annað en vaxtaákvörðun ríkisstj. Verðstöðvun var í lögum áður, kaupskerðingin á að taka gildi 1. mars, eftir 10 daga, frestun á framkvæmdum er heimilaður í fjárlögum, og lánsfjáráætlun hefur ekki enn séð dagsins ljós, svo að ekki þarf að fresta framkvæmdum samkvæmt henni. Það eina, sem þurfti að breytast, var ákvörðunin um vextina. Það breyttist þannig, að vextir hafa stórhækkað. Engin breyting hefur á orðið og nú 1. mars á að stefna að vaxtalækkun sem hæstv. ráðh. vill þó ekki nefna öðrum orðum en þeim, að nokkurt svigrúm sé til að auka útstreymið. Það verður beðið í nokkra daga eftir endanlegri ákvörðun ríkisstj. og ég er viss um það, að fjölmargir lántakendur í landinu búast við því, að stefnuyfirlýsingar ríkisstj. í efnahagsáætluninni séu einhvers virði og að orð hæstv. ráðh., sem hann hafði hér við í dag í þessari umr., tákni það að einhver breyting verði á.