17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

210. mál, vaxtabreytingar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér með nokkrum orðum að draga athygli að ákveðnum staðreyndum sem hljóta að vera umhugsunarefni fyrir hv. þm.

Hæstv. bankamálaráðherra sagði hér orðrétt að rekstrarafkoma bankanna væri góð. Þetta er vitað þótt ekki sé enn þá ljóst hversu góð hún er. Þá vil ég segja: Er það ekki umhugsunarefni fyrir okkur hér, að afkoma peningastofnana er svona góð, en afkoma atvinnuveganna, fyrirtækja og einstaklinga sem skipta við peningastofnanir, bankana, er yfirleitt mjög erfið. Það, sem hæstv. ráðh. var að undirstrika, var að þeir, sem lána peninga, blómstra, en þeir, sem nota þá úti í þjóðfélaginu, eru í erfiðleikum.

Ég hef alltaf lítið á peningana sem vinnutæki fólksins í landinu sem þarf að gera bæði aðgengileg og ódýr.