18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Undanfarna daga og vikur hefur mikið verið ritað og rætt um þau togarakaup sem hér eru nú rædd utan dagskrár í hv. deild, þ.e. kaup á togskipi til Þórshafnar eða Raufarhafnar eða sameiginlegs útgerðarfélags þessara aðila, Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga.

Það er vissulega ánægjulegt við þessar umræður hvað margir bera hag þeirra norðanmanna fyrir brjósti. Menn tala með hjartnæmum orðum um að atvinnuvandamál þeirra þurfi að leysa. Menn tala líka um að þarna sé verið að útvega þeim eða láta þá kaupa skip, sem sé allt of dýrt og verði þess vegna erfitt í rekstri, að þeir muni reisa sér hurðarás um öxl og að byggðarlögin, sem um ræðir, séu ekki fær um að standa undir þessum rekstri.

Af þessum ummælum finnst mér mega ráða að fyrirhyggja ákveðinna aðila, sem hafa tekið þátt í þessum umræðum, felist fyrst og fremst í því, að veita eigi úrlausn með því að þessum byggðarlögum verði útveguð atvinnutæki, helst togskip sem séu orðin gömul, sem séu ódýr, sem séu annars flokks. Og þá hlýtur líka að felast í því, að þetta fólk sé annars flokks. Dýr skip og dýra togara, sem kosta ekki bara 3.5 milljarða gkr., heldur kannske 5 milljarða eiga einhverjir aðrir að fá, sem eru þá trúleg fyrsta flokks og eiga að fá fyrsta flokks tæki. Þeim aðilum, sem þarna ætla að fara að gera út og efla atvinnulífið, er ekki trúað fyrir slíkum tækjum. Það er eins og þetta sé eina skipið sem kosti mikla peninga og verði dýrt að reka. Í þessum umræðum hefur líka komið fram, að þessi togari taki svo og svo mikið af þeim þorskveiðikvóta, sem öðrum togurum sé ætlaður, og rýri þar með afkomumöguleika þeirra. Það er ekki rætt um önnur skip í þessu sambandi. Rýra ekki önnur skip þetta líka? Og er ekki erfitt að gera út önnur skip? Ég held því miður að svo sé, og þar sem ekki hefur tekist að skipuleggja bátakaup og veiðar og vinnslu eða löndun á þann hátt sem kannske hefði verið æskilegast, þá er nú horfið að þessu ráði á Þórshöfn eins og víða annars staðar, að reyna að verða sér úti um togskip og gera út þar á svipaðan hátt og gengur og gerist víða annars staðar í sjávarplássum um allt land.

Í bréfi okkar þm. kjördæmisins, sem hér hefur verið vitnað til, reyndar lesið upp, og við rituðum í maí 1980, nefnum við einmitt þetta, að við teljum að það sé til nægur fjöldi af skuttogurum í landinu, ef dreifing þeirra væri með öðrum hætti en raun ber vitni og ef hægt væri að skipuleggja löndun öðruvísi. En málin á Þórshöfn hafa hins vegar þróast þannig síðustu árin, að við teljum að ekki verði undan því vikist að gera ráðstafanir til að kaupa skuttogara fyrir þetta byggðarlag.

Hv. 3. þm. og hv. 4. þm. kjördæmisins, sem talað hafa í þessum umræðum á undan mér hafa gert svo ítarlega grein fyrir því, sem á undan er gengið — hv. 4. þm. Stefán Jónsson ræddi um Fontsmálið eða togarakaupin sem áttu sér stað hér um árið — að ég ætla ekki að rekja þá sögu frekar, enda var ég minna kunnugur málum á þeim tíma. Og hv. 3. þm. kjördæmisins, Lárus Jónsson, gerði grein fyrir því, hvernig að þessu hefur verið staðið af okkar hálfu, hver okkar þátttaka hefur verið í þessum málum, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í það. En mér finnst þó ástæða til að nefna hér örfá atriði sem fram hafa komið í umræðunum undanfarið, ekki bara hér í hv. deild, heldur líka úti í þjóðfélaginu.

Við fórum á fund í Framkvæmdastofnun, þm. kjördæmisins ásamt fulltrúum frá Útgerðarfélagi Norður-Þingeyinga, hinn 28. jan. Þar voru þessi mál rædd og rakin. Þar var að því spurt af framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Sverri Hermannssyni, hvort hér væri um að ræða verksmiðjuskip og hvort stefnt væri að kaupum á slíku skipi og útgerð. Það kom í ljós í þeim umræðum og svörum, að slíkt er alls ekki. Allt tal um verksmiðjuskip er út í hött. Hins vegar er þarna um að ræða skip sem er með frystilest, og þess vegna hefur verið talið eðlilegt að í þessu skipi væru frystitæki til að þessa lest mætti nýta — til þess að ekki væri keyptur búnaður í skipinu, sem væri auðvitað dýr, en mundi ekki nýtast neinum ef ekki væru frystitæki í skipinu. Um annað, sem tilheyrir verksmiðjuskipi, eins og flökunarvélar o.fl., er ekki að ræða í þessu skipi. Umræður um slíkt eru því ekki réttar.

Mikið hefur verið talað um hækkunina á skipsverðinu úr u.þ.b. 1.5 milljörðum gkr. upp í 3 eða 3.5 milljarða, og menn hafa verið undrandi á því, hvernig slíkt hafi gerst. Á þessum fundi, sem ég gat um í Framkvæmdastofnuninni, var upplýst að þessi ákveðnu skipakaup og verð á þessu skipi hefðu verið kynnt fyrir stjórnarmönnum á tveim fundum, 29. sept. og 14 okt. s.l. Þá lá fyrir að verð þessa skips væri rúmlega 2 milljarðar gkr. ísl. og auk þess þyrfti að breyta skipinu fyrir 300–400 millj. gkr. Ef tekið er tillit til gengisbreytinga síðan sjáum við að þetta verð er komið í um 3 milljarða gkr., svo að mönnun ætti í sjálfu sér ekki að ógna tölurnar eða koma þær á óvart. Ég tel að þá hafi verið skrifað upp á þann víxil sem hv. þm. Lárus Jónsson nefndi hér áðan. Þá lá þetta ákveðna skip fyrir og verðið á því. Þá var skrifað upp á víxilinn og hann gefinn út og verður auðvitað að standa við það. Þá áttu fulltrúar í stjórn Framkvæmdastofnunar og í ríkisstj. auðvitað kost á að segja: Þetta skip er of dýrt. Við samþykkjum ekki þessi kaup. Við skrifum ekki upp á þennan víxil. Þið verðið að leita ykkur að öðru skipi. Það var ekki gert. Og þess vegna tel ég óhjákvæmilegt og eðlilegt að við þetta mál verði staðið til enda. Þá mátti líka þeim mönnum, sem um þetta mál fjölluðu og sumir hverjir eru fróðir um útgerðarhætti og skipakaup, vera ljóst að það þurfti að skoða þetta dæmi e.t.v. nokkru betur en þá var gert. Inn í þetta verð vantaði þá t.d. lántökukostnað, kostnað við kaup á fiskkössum, kostnað sem hefur nú verið settur á blað og kallast „ófyrirséð“ og er sjálfsagt og eðlilegt að taka með í dæmið, en aldrei verður fyrir fram vitað með vissu hversu hár sá kostnaður endanlega verður. Ég tel að eins og málum er nú komið sé fráleitt að hlaupa frá því og skilja vandann eftir eins og hann var raunverulega fyrir ári og er búinn að vera lengur og fara að byrja á einhverju nýju máli, taka það allt upp að nýju með þeirri fyrirhöfn allri og þeim tíma sem í það yrði eytt.

Það hefur verið nefnt að hér sé ráðstafað fé sem á að fara til innlendrar skipasmíði, a.m.k. hluta af fjármagninu. Það hefur líka verið bent á það hér í umræðunum, og ég vil aðeins ítreka það, að breytingar þær, sem fyrirhugað er að fari fram á skipinu, eiga að vinnast í Slippstöðinni á Akureyri. Fellur það að sjálfsögðu undir innlendan skipasmíðaiðnað. Ég fæ a.m.k. ekki annað skilið.

Þá langar mig aðeins að nefna að þeir tveir hv. þm. kjördæmisins, sem hér hafa talað á undan, hafa getið um, að þeir hafi lítið fengið að fylgjast með þessu máli, og telja að þeir hafi ekki fengið upplýsingar og vitneskju um hvað var að gerast hverju sinni. Ég vil nú segja það fyrir mitt leyti, að ég hef haft gott samband við þá menn sem hafa staðið að þessum kaupum, forsvarsmenn útgerðarfélagsins fyrir norðan, svo að ég vissi af því þegar sú hugmynd kom upp að kaupa ársgamalt skip frá Noregi. Og þá var mér sagt að það skip gæti kostnað um eða rúmlega 2 milljarða gkr., eins og síðar var staðfest á fundum í Framkvæmdastofnun og ég sagði frá áðan. Ég sagði þá við þessa menn, sem að skipakaupunum standa, að ég teldi að þar væru komnar miklu hærri tölur en við þm. kjördæmisins hefðum rætt um þegar við skrifuðum bréfið. Ég gerði þeim grein fyrir því. Hins vegar var mér bent á að það væri nokkuð annað skip sem þarna væri á ferðinni, það væri ársgamalt norskt skip. Hitt verðið ætti fjögurra, sex kannske átta ára gamlan franskan togara, og við vitum auðvitað að nýtt skip eða svo til er nokkuð annað í útgerð og rekstri heldur en gamalt skip. Við vitum líka að slíkt skip hlýtur að vera dýrara. En mér sýndist, eins og reyndar fleirum sem um þetta mál hafa fjallað, að þarna væri kostnaðarmunur ekki svo mikill að það væri ekki skynsamlegt að ráðast í kaupin einmitt á þessu umrædda norska skipi. Síðan kom það í ljós, sem menn vita nú, að þá var eftir að gera breytingar á skipinu.

Svo hefur ýmiss annar aukakostnaður lagst á þetta eins og ég nefndi áðan.

Ég vil aðeins leggja á það áherslu að lokum, að ég vona að þetta mál sé nú í höfn, við séum búnir að finna lausn á þessu vandamáli. Auðvitað er þetta dýr lausn, ég er því algjörlega sammála. En ég sé ekki að við getum forsvarað það að þessir aðilar, íbúar Þórshafnar og Raufarhafnar, eigi að reka gamalt skip, miklu ódýrara og þá auðvitað annars flokks skip, á sama tíma og öðrum er gert kleift og þeir fá fyrirgreiðslu til kaupa og reka nýrri skip og fyrsta flokks skip. Ég vona að við séum nú með þetta mál í höfn og eftir allar umræðurnar, sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu um þessi togarakaup, sé þessum stormi að linna og málið fái farsælan endi.