18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

Umræður utan dagskrár

Fjmrn. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða hér um forsögu þessa máls eða meginefni. Ég vil þó láta koma hér skýrt fram að ég var einn þeirra mörgu sem töldu að þessi staður þyrfti á stuðningi að halda þyrfti að fá skip. Það er hins vegar ljóst að það skip, sem á boðstólum er, er heldur dýrt, miðað við allar aðstæður, en ég tel að ekki verði snúið til baka í þessu máli úr því sem komið er.

Ég vil líka rifja upp í þessu sambandi að ríkisstj. samþykkti á sínum tíma að gera undantekningu varðandi þennan stað, að það mætti kaupa skip erlendis frá vegna sérstakra aðstæðna á þessu stað, og fól Framkvæmdastofnun að sjá um frekari málsmeðferð. Jafnframt ákvað fjmrn. að hagnýta ótvíræða heimild í lögum til að veita 80% ríkisábyrgð vegna þessara skipakaupa, eins og oft hefur áður verið gert. Það er hins vegar rétt, sem hefur komið fram í þessum umr. og kom fram m.a. hjá iðnrh. í viðtali við Morgunblaðið í morgun, að ríkisstj. gerði enga nýja samþykkt í þessu máli í gær. Ríkisstj. beindi ekki neinum sérstökum tilmælum til stjórnar Framkvæmdastofnunar á fundi sínum í gær umfram það sem orðið var. Ríkisstj. hafði falið stjórn Framkvæmdastofnunar að greiða fyrir þessu máli og ráða fram úr því. Það var því í raun og veru alls ekki við hæfi að ríkisstj. væri að senda stjórn Framkvæmdastofnunar einhverjar fyrirskipanir, enda tók stjórn Framkvæmdastofnunar ákvörðun í málinu eins og vera bar. Mér finnst ekki trúlegt að ríkisstj. muni gera neina samþykkt í þessu máli til viðbótar því, sem orðið er, ellegar hún fari að draga til baka það sem stjórn Framkvæmdastofnunar hefur ákveðið. Ég tel að málið hljóti að vera um það bil að leysast á þeim grundvelli sem stjórn Framkvæmdastofnunar hefur ákveðið.

Það er hins vegar rétt sem kom fram í umr. áðan, og það vil ég staðfesta hér, að ég hafði nokkur afskipti af þessu máli með því að benda á í byrjun vikunnar að eðlilegt væri að gera ráð fyrir að ríkissjóður tæki á sig ábyrgð á hluta af þeim 20% sem áður hafði verið talað um að Byggðasjóður útvegaði fé til, miðað við þá ákvörðun sem tekin var hér um jólaleytið, þegar gengið var frá megindráttum lánsfjáráætlunar og við það miðað að útvegaðar yrðu 1500 millj. kr. til Byggðasjóðs vegna skipakaupa og skipasmíði og heimilt væri að ábyrgjast endurlán þessarar fjárhæðar til hvers einstaks eignaraðila.

Sú ákvörðun var þannig til komin, að fyrir lá að á þessu ári yrði óvenjulega þung byrði á Byggðasjóði vegna togarasmíða og togarakaupa og talið að hann yrði að láta út, miðað við þær reglur sem gilt hefðu, um 3 milljarða gkr. á þessu ári vegna togarasmíða og togarakaupa — lán sem annaðhvort hefði þegar verið veitt loforð fyrir eða væru í samræmi við þær venjur sem gilt hefðu hjá sjóðnum undanfarin ár. Það var ljóst að þarna var um mjög þunga byrði að ræða á Byggðasjóði og sérstaklega þar sem meginhluti þessa fjármagns hefði orðið að vera hreint áhættufjármagn, lítt tryggt, þar sem aðrir aðilar hefðu verið þar á undan með veð. Til viðbótar kemur svo hitt, að framlag ríkisins til Byggðasjóðs er verulega takmarkað miðað við þarfirnar, ekki nema 3,5 milljarðar kr. á þessu ári. Það var af þessum ástæðum og með þetta í huga sem sanngjarnt og eðlilegt þótti að ríkið tæki að sér að útvega fjármuni upp í helming af þessum 3000 millj. kr. lánum og ábyrgðist helminginn að sínu leyti, 1500 millj. gkr.

Það, sem gerðist í þessu máli núna í vikubyrjun varðandi þennan þátt málsins, var ekkert annað en það, að í samtali, sem við áttum, hæstv. forseti deildarinnar, Sverrir Hermannsson, og hæstv. sjútvrh. á mánudaginn, benti ég á að eðlilegt væri að helmingurinn af fyrirgreiðslu Byggðasjóðs í þessu sambandi yrði tekinn af þessum 1500 millj., vegna þess að ég hef alltaf lítið svo á að væntanleg skipakaup til Þórshafnar hlytu að vera innifalin í þessari 3000 millj. kr. upphæð. Ég vil benda á það, vegna mjög óeðlilegs fréttaflutnings um að ríkissjóður hafi nánast hækkað fyrirgreiðslu sína úr 80% í 90%, að það var ekki sú ákvörðun sem var tekin í gær, heldur má segja að þegar ríkið tók að sér að standa fyrir lánsútvegun vegna helmings af þessari upphæð — 1500 millj. af 3000 millj. — og ábyrgjast þann hluta lána Byggðasjóðs til togarakaupa og togarasmíða, þá var raunverulega verið að lækka lánaprósentu Byggðasjóðs í þeim tilvikum þar sem hún var 10% úr 10 í 5 og þar sem hún var 20% úr 20 í 10 og annað eftir því og hækka þá auðvitað skuldbindingu ríkissjóðs að sama skapi. Þetta á ekki við þetta skip eingöngu, heldur yfirleitt þá togara sem verið er að kaupa eða verið er að smíða og fá þessa fyrirgreiðslu frá Byggðasjóði. Það, sem gerðist í þessu máli í byrjun þessarar viku og snýr að ríkisstj., var því fyrst og fremst það, að í samtali mínu við framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar lýsti ég yfir að ég hefði ekkert á móti því, að Byggðasjóður gerði ráð fyrir að taka helminginn af sínum hluta af þessari upphæð til þessa skips, enda hafði ég persónulega alltaf gert ráð fyrir því.

Hins vegar má vel vera að uppi hafi verið einhver misskilningur um þetta atriði, bæði innan ríkisstj. og innan stjórnar Framkvæmdastofnunar, það þekki ég ekki. En ég vil lýsa því yfir hér, að ég hef alltaf skilið þetta mál þeim skilningi að þessi togari og togarakaup féllu undir sama ákvæði varðandi 1500 millj. og önnur togarakaup sem nú eiga sér stað og fá fyrirgreiðslu frá Byggðasjóði.

Ég hef staðið hér upp til að staðfesta það fyrst og fremst, sem fram kom hjá framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar, að það var þetta sem fór okkar í milli og þetta eru raunverulega einu afskipti ríkisstj. af málinu.