18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

Umræður utan dagskrár

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að gera grein fyrir þeirri bókun er ég gekk frá í gær á fundi stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, en hún var svohljóðandi:

„Ljóst er að þetta togarakaupamál hefur þróast þannig, að kaupverð ásamt breytingarkostnaði hefur vaxið svo frá því sem upphaflega var talað um að um gerbreyttar forsendur fyrir fjármagnskostnaði í rekstri er að ræða. Þá má telja mjög vafasamt að kaup á þessum togara verði á nokkurn hátt til að leysa atvinnuvandamál Þórshafnar og Raufarhafnar til frambúðar. Þvert á móti gætu þau sett atvinnulíf á þessu stöðum í strand þegar hallarekstur þessara togara fer að íþyngja í vaxandi mæli. Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins samþykkti 14. 10. tilmæli ríkisstj. að lána 20% af stofnkostnaði, sem uppgefinn var 21 millj. norskra kr. Nú er fjárfestingarkostnaður gefinn upp 28 millj. norskra kr. Greinilegt er að viðbótarfé þarf til að koma togaranum endanlega á veiðar. Þess vegna tel ég allar forsendur brostnar fyrir þessum kaupum og þessi mál verði að skoða aftur í nýju ljósi.“

Í lokaorðum í bókun Ólafs G. Einarssonar og Matthíasar Bjarnasonar, sem voru rakin fyrr í umr., kemur fram mjög röng túlkun á minni bókun, að ég álíti að engin skylda hvíli á stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins í þessu máli, eins og þeir segja. Ekki hefur þvælst fyrir sumum að yfirgefa gefin loforð, sagði hv. þm. Ólafur G. Einarsson. Siðleysi, bætti hv. þm. Matthías Bjarnason við um mína afstöðu. Ég skrifa ekki upp á víxil nema í því augnamiði að borga hann, sagði einnig hv. þm. Matthías Bjarnason. Þetta er vissulega sú rétta regla. En togaravíxillinn var bara óútfylltur. Það blasti við að hann yrði margfalt hærri en búist var við, og það var ekki komið að skuldadögum. Það var og er enn hægt að leysa vandamál Þórshafnarbúa með miklu lægri víxli sem þeir sjálfir réðu við. Á því byggist mín afstaða. Ég var bæði að hugsa um hag fólksins þar fyrir norðan og Framkvæmdastofnunina með þeirri afstöðu.

Vegna hinna margumtöluðu 1500 millj.: Þær áttu og eiga að fara til innlendrar skipasmíði. Það var minn skilningur. Hv. þm. Friðrik Sophusson og fleiri eru enn og stöðugt að gambra um það mál og alls konar hrossakaup. Ég held að það væri mál fyrir þá, sem hæst hafa um það, að láta það til hliðar og líta í eigin barm.

Frv. að lánsfjárlögum var lagt á borð þm. í gær. Þar segir í 12. gr.:

„Byggðasjóði er heimilt að taka lán allt að 15 millj. kr. til að endurlána til smíði fiskiskipa. Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast endurlánin með sjálfskuldaábyrgð.“

Þarna er átt við þessar margumræddu 1500 millj. gkr. Enn fremur vantar breytingu á lögum um ríkisábyrgð vegna 90% ábyrgðar. Hún er ekki fyrir hendi í lögum sem stendur. Þetta mál er því ekki enn í höfn. Engin ákvörðun var tekin í ríkisstj. í gær, þ. á m. ekki heldur að taka af þessum margræddu 1500 millj. (Forseti hringir.) Ég er senn að ljúka máli mínu.

Í Vísi í dag segir hæstv. sjútvrh. um afstöðu stjórnar Framkvæmdastofnunar: „Ég verð að segja að ég fagna því, að þeir afgreiddu málið og firrtu sjálfa sig því að þurfa að punga út með 10% ábyrgð, sem þeir voru búnir að opna.“

Það er ekki búið að borga neitt í þessu máli. Það á að borga 10% við undirskrift kaupsamnings. Hann hefur ekki enn verið fullgerður og verður það vonandi aldrei. Enn er hægt að snúa við og leita farsælli lausnar í þessu máli. Vonandi bera stjórnvöld í landinu gæfu til að svo verði. Þjóðin bíður eftir því.