19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í efnahagslögum, sem samþykkt voru hér á Alþingi veturinn 1979, að skýrsla um lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga fylgi fjárlagafrv. Þetta hefur þó aldrei komið til framkvæmda í raun og aðeins orðið verklagsregla sem ekki hefur tekist að standa við, ekki að þessu sinni frekar en endranær.

Í fjárlagafrv., sem lagt var fram á fyrsta degi þingsins, var gerð grein fyrir framkvæmdum sem lánsfjármagnaðar væru í A- og B-hluta fjárlaga. Má því segja að ríkissjóður og ríkisstofnanir í B-hluta fjárlaganna hafi gert nokkuð hreint fyrir sínum dyrum hvað lántökur varðar. Hins vegar bárust ekki á s.l. hausti þau gögn, þær áætlanir og skýrslur, sem nauðsynlegar voru til samningar lánsfjáráætlunar, frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem annast þann hluta skýrslunnar sem snýr að sjóðakerfinu, né frá Seðlabankanum, sem fjallar um lántökur einkaaðila og áætlanir um peningamagn í umferð, og því dróst nokkuð að skýrsla um lánsfjáráætlun yrði lögð fram og frv. til lánsfjárlaga.

Þegar komið var fram í desemberbyrjun taldi ég óhjákvæmilegt að leggja fram bráðabirgðaskýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 og gera þar grein fyrir öllum þeim upplýsingum sem þá lágu fyrir þannig að þær mætti skoða í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. En eins og ég gerði þá grein fyrir höfðu þessi gögn ekki borist frá þessum tveimur stofnunum og var því ekki hægt að leggja fram skýrslu um lánsfjáráætlun.

Síðan hefur nokkurt vatn runnið til sjávar. Og ég verð að upplýsa það hér í þessu sambandi, að gögn um þessa þætti mála eru enn ekki frágengin í viðkomandi stofnunum og því mun enn dragast í nokkra daga að skýrsla um lánsfjáráætlun verði lögð fram. Seðlabankinn er hins vegar að leggja seinustu hönd á þær skýrslur sem frá honum koma um peningamagn í umferð og áætlaðar lántökur einkaaðila, og ég á von á að hægt verði að ganga frá skýrslu um lánsfjáráætlun innan skamms. En ég tilkynnti bankastjórn Seðlabankans fyrir hálfum mánuði að ég teldi ekki fært að draga öllu lengur að leggja fram frv. til lánsfjárlaga, þrátt fyrir það að skýrsla um lánsfjáráætlun væri ekki tilbúin. Þetta eru auk þess tvö aðskilin mál, annað er lagt fram í deild, hitt er lagt fram í Sþ., og þótt æskilegra hefði verið að þessi þingmál gætu orðið samferða inn í þingið og vissulega á allan hátt eðlilegast, þá tók ríkisstj. þá ákvörðun að láta ekki dragast lengur að leggja fram frv. til lánsfjárlaga, svo að hægt væri að koma því frv. til nefndar og gefa nm. sæmilegan tíma til að skoða frv. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því að 2. umr. um frv. til lánsfjárlaga fari fram fyrr en skýrsla um lánsfjáráætlun liggur fyrir.

Í skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981, sem dreift var hér á Alþingi í des. s.l., er gerð grein fyrir áformuðum opinberum framkvæmdum, fjáröflun til þessara opinberu framkvæmda og ráðstöfun lánsfjár í smærri atriðum og vísa ég til töflu á bls. 5 í þeirri skýrslu þar sem nákvæm grein er gerð fyrir ráðstöfun lánsfjár og auk þess er fjallað um það í textanum sem á eftir fylgir. Þar er einnig gerð grein fyrir áformuðum fjárfestingum fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og áformuðum framkvæmdum eða lántökum sveitarfélaga, og er fljótsagt að frá því að þessi skýrsla var lögð fram í desemberbyrjun hafa litlar breytingar orðið á þessum áformum, sáralitlar breytingar, en þó lítils háttar breytingar sem einkum varða hitaveiturnar og nokkrar aðrar framkvæmdir.

Á bls. 8 í þessari skýrslu var gerð grein fyrir áformuðum erlendum lántökum innlendra aðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila, eins og fram kom á bls. 9, en þar var gert ráð fyrir að lántökur í A- og B-hluta fjárlaga væru rúmir 28 milljarðar gkr., fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs 48.9 milljarðar, lántökur sveitarfélaga 19.9 milljarðar, lánastofnana 10.9 milljarðar og atvinnufyrirtækja 26.8 milljarðar, eða samtals 134.8 milljarðar kr. Þessi upphæð hefur hækkað lítillega frá því sem var þegar áætlunin var lögð fram. Er það fyrst og fremst járnblendiverksmiðjan sem hækkar þessa tölu, þar sem óhjákvæmilegt virðist að taka sérstakt rekstrarlán hennar vegna að upphæð 1400 millj. kr., og einnig er gert ráð fyrir sérstökum frágangi láns sem Tryggingastofnun ríkisins hefur lengi tekið hjá sjóðum sem eru í hennar vörslu, 3000 millj. Gert er ráð fyrir að formlega verði frá þessu láni gengið með einum eða öðrum hætti og því er það tekið inn í lánsfjáráætlunina.

Hitaveituframkvæmdir eru hækkaðar um 480 millj. kr. og lántökur vegna framkvæmda Pósts og síma um 300 millj. kr. Jafnframt er tekið inn í lánsfjáráætlun áðurnefnt 1500 millj. kr. lán, sem ætlað er Byggðasjóði og er ætlað til þess að endurlána til smíði og kaupa á fiskiskipum.

Svo ég fari hér yfir einstakar greinar frv., þá er gert ráð fyrir að lántaka fyrir hönd ríkissjóðs á árinu verði allt að 288 millj. 840 þús. nýkr., og að lántökuheimild ríkissjóðs sé miðuð við þá upphæð eða jafnvirði hennar í erlendri mynt. Jafnframt er heimilað að taka lán á innlendum lánsfjármarkaði að fjárhæð allt að 158 millj. 100 þús. nýkr.

Í 3. gr. frv. er vikið að fjáröflun frá lífeyrissjóðakerfinu, og þar er um nákvæmlega sams konar ákvæði að ræða og var í lánsfjáráætlun á s.l. ári. Rétt er að minna á það, að gerð var breyting á þessu ákvæði við meðferð málsins á þingi þegar lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 var hér til meðferðar. Var gengið til móts við sjónarmið lífeyrissjóðamanna, og er ákvæðið nú í fullu samræmi við endanlega niðurstöðu um orðalag þessa ákvæðis á s.l. ári.

Í 4. gr. er vikið að lántökuheimild Landsvirkjunar, en eins og kunnugt er er langsamlega stærsta einstaka framkvæmdin á árinu framkvæmd Landsvirkjunar við Hrauneyjafossvirkjun. Lántaka í því skyni er upp á 46.2 milljarða gkr.

Í 5. gr. er ákvæði sem varðar lántöku til Járnblendifélagsins upp á 1400 millj. gkr. eða 14 millj. nýkr. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að í raun og veru þyrfti ekki að setja þetta ákvæði í lög, en venju samkvæmt er það þó sett hér fram til þess að menn hafi heildarmynd af öllum lántökum sem áformað er að eigi sér stað á þessu ári. Í raun mætti nýta þær heimildir, sem eru í lögunum frá 1977 um Járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, í þessu skyni.

Í 6. gr. er vikið að hitaveituframkvæmdunum. Þar er um að ræða sömu framkvæmdir og áformaðar voru þegar drög að lánsfjáráætlun voru lögð fram fyrir jólin, en upphæðin hefur hækkað um 480 millj. kr. Er það fjórði liðurinn, til annarra hitaveituframkvæmda, sem hefur hækkað á árinu 1981.

Í 7. gr. er sveitarfélögunum heimilað að taka lán á árinu 1981 allt að 15 millj. nýkr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, og er þessi lántaka fyrirhuguð vegna framkvæmda á vegum sveitarfélaga.

Í 8. gr. er vikið að lántökuheimild Orkubús Vestfjarða og er ekki þörf að fjölyrða frekar um þá lántöku sem er að upphæð 27 millj. og 200 þús. nýkr.

Í 9. gr. er vikið að lántökum Framkvæmdasjóðs Íslands sem verða að fjárhæð 89 millj. nýkr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, þ.e. 8900 millj. gkr. Jafnframt annast Framkvæmdasjóður lántöku sem Framleiðsluráði landbúnaðarins er heimilt að taka að fjárhæð allt að 17 millj. Er hafður sami háttur á varðandi þessa lántöku og verið hefur, að ríkissjóði er heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð þetta lán og greiða afborganir, vexti og verðbætur af láninu.

Í 11. og 12. gr. eru ákvæði um lánveitingar sem ætlaðar eru Byggðasjóði. Í 11. gr. er vikið að lántöku Byggðasjóðs að upphæð 31 millj. og 500 þús. nýkr. og jafnframt að framlag ríkissjóðs skuli takmarkast við 37 millj. kr., en ákvæði í lögum eru á annan veg, eins og menn þekkja, og er því nauðsynlegt að taka af skarið um að þessi upphæð eigi að duga á þessu ári þrátt fyrir ákvæði laga um Framkvæmdastofnun ríkisins.

Í 12. gr. segir: „Byggðasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 15 millj. kr. til að endurlána til smíði og kaupa á fiskiskipum. Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast endurlánin með sjálfskuldarábyrgð.“

Hér er komið að máli sem er nátengt því máli sem virðist nú ætla að verða vikuverk Alþingis að þessu sinni að ræða, um kaup á einum skuttogara til Þórshafnar, en frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir því, að fyrirgreiðsla vegna þessara skipakaupa flokkaðist undir þessa fyrirgreiðslu til Byggðasjóðs. Satt best að segja undrast ég það mjög, hversu mikill misskilningur hefur verið uppi um þennan þátt málsins, vegna þess að ljóst hefur verið frá öndverðu að Byggðasjóði væri heimilt að taka helminginn af fyrirgreiðslu sinni til þessa skips af þessari upphæð. Hins vegar má deila um hvort orðalagið er nógu skýrt hér, og sérstaklega er það athugasemdin í grg. sem er kannske ekki nægilega greinileg hvað þetta varðar, og er þá sjálfsagt að taka það til endurskoðunar í nefnd, nema Alþingi vilji ekki fallast á að heimildin nái til fyrirgreiðstu vegna þessa skips. Þá nær það að sjálfsögðu ekki lengra.

Í 13.–24. gr. frv. er einungis verið að staðfesta niðurstöður fjárlaga. Fjárlög eru ekki lög, eins og menn þekkja, í réttri merkingu þeirra orða. Lög eru það einungis sem hafa verið samþykkt við þrjár umr. í hvorri deild þingsins, og það á ekki við um fjárlögeins og kunnugt er. Þess vegna þarf að staðfesta þau ákvæði fjárlaga, sem hugsanlega stríða gegn ákvæðum í öðrum lögum, á formlegan hátt við 3. umr. í Ed. og Nd. Þessi ákvæði eru til staðfestingar á fjárlagatölum.

Í 25. gr. frv. er fjmrh. heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 30 millj. nýkr. og endurlána m.a. Rafmagnsveitum ríkisins til að greiða eftirstöðvar kostnaðar við lagningu byggðalínu á árinu 1980 og til að greiða upp bráðabirgðalán vegna annarra framkvæmda á vegum ríkissjóðs á árinu 1980 er tekin voru hjá Seðlabanka Íslands. Hér er um það að ræða, að lánsfjáráætlun seinasta árs stóðst ekki alls kostar hvað snertir innlenda fjármögnun, og munaði þar mest um að sparisjóðir tóku ekki þann þátt í inntendri fjármögnun sem ráð hafði verið fyrir gert og lífeyrissjóðir keyptu ekki skuldabréf af ríkinu í þeim mæli sem reiknað hafði verið með. Þarna varð nokkur mismunur sem verður að ganga frá með formlegum hætti, og því er þessi frvgr. sett hér inn. Þetta er því í raun og veru uppgjör á árinu 1980, en snertir ekki árið 1981 eða framkvæmdir á því ári.

Í 26. gr. er ríkisstj. heimilað að veita sjálfskuldarábyrgð á skuld Útvegsbanka Íslands við Seðlabanka Íslands allt að 50 millj. nýkr. eða 5 milljörðum gkr. Skuld þessi skal færð á sérstakan reikning Útvegsbankans í Seðlabankanum og greiðir ríkissjóður vexti og afborganir af skuldinni með föstum árlegum greiðslum að fjárhæð 7 millj. og 500 þús. nýkr. í 12 ár, í fyrsta sinn á árinu 1982.

Eins og kunnugt er hafa málefni Útvegsbankans verið til umræðu. Hefur verið talið óhjákvæmilegt að styrkja fjárhagsstöðu bankans. Eru ýmsar ráðstafanir í undirbúningi og sumar þegar komnar til framkvæmda, en hér er leitað heimildar til þess að veita sjálfskuldarábyrgð á skuld Útvegsbankans við Seðlabankann að upphæð 5 milljarðar gkr. Eins og fram kemur í grg. verður skuld þessi áfram á nafni Útvegsbanka Íslands á sérstökum reikningi í Seðlabankanum en ekki er gert ráð fyrir að Útvegsbankinn greiði vexti eða afborganir af þessari skuld. Ríkissjóður skuldbindur sig til að greiða 7.5 millj. kr. í vexti og afborganir af þessari skuld á næstu 12 árum, og er það fullnaðargreiðsla. Það má því segja að ef Alþingi samþykkir þá till., sem gerð er í þessari frvgr., þá hafi þessari skuld verið létt af Útvegsbankanum, enda þótt hún muni áfram verða á nafni bankans á sérstökum reikningi, og Útvegsbankinn mun ekki þurfa að greiða vexti eða afborganir af þessari skuld, þar sem ríkissjóður tekur það að sér. En miðað við upphæðina, sem greiða á, er ljóst að ekki eru greiddir fullir vextir af fjárhæðinni, og má segja að Seðlabankinn taki þá á sig þann hluta uppgjörsins af þessari skuld.

Í 27. gr. frv. er fjmrh. heimilað fyrir hönd ríkisins að taka lán erlendis í því skyni að greiða afborganir þessa árs af erlendum lánum ríkissjóðs og enn fremur að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána, þegar lánstíminn er talinn of stuttur miðað við eðlilegan afskriftartíma mannvirkja sem fjármögnuð hafa verið með viðkomandi lánum.

Hér er sem sagt farið fram á heimildir til þess að framlengja lán, sem viðkomandi aðilar telja sér ekki fært að standa undir vegna þess að tekin hafa verið lán til tiltölulega skamms tíma og ríkisstj. getur fallist á að þurfi að „konvertera“, eins og það heitir á erlendum málum. Hér er fyrst og fremst um að ræða lán sem tekin hafa verið vegna Kröfluframkvæmda og lán sem tekin hafa verið vegna byggðalína. Einnig er óhjákvæmilegt að framlengja eða „konvertera“ lánum sem Rafveita Siglufjarðar hefur tekið. Þá er 1 jóst að framlengja verður lán sem Hitaveita Akureyrar hefur tekið, og nokkur fleiri dæmi eru um slík vandamál. Ég geri ráð fyrir því, að nánari grein verði gerð fyrir þessum væntanlegu framlengingum lána við meðferð málsins í nefnd.

Í þeirri bráðabirgðaskýrslu, sem lögð var fram í des. s.l., var gerð ítarleg grein fyrir væntanlegum fjárfestingum á árinu 1981. Þar kom m.a. fram að fjármunamyndun er áætluð 26% af vergri þjóðarframleiðslu á árinu 1981, miðað við það að talið er að fjármunamyndunin hafi verið 27.5% af þjóðarframleiðslu á árinu 1980. Hér er sem sagt um lítils háttar lægra fjárfestingarhlutfall að ræða heldur en í reynd varð á árinu 1980, en þetta er í fullu samræmi við þá stefnu ríkisstj. að fjárfesting í þjóðfélaginu sé um fjórðungur af vergri þjóðarframleiðslu, eins og nefnt er í stjórnarsáttmálanum. Að öðru leyti vísa ég til kaflans um fjárfestingu í þessari bráðabirgðaskýrslu, á bls. 9–12, þar sem ítarleg grein er gerð fyrir þessum þætti mála, og sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hann. Ég geri svo ráð fyrir að þessi mál komi til nánari umræðu þegar skýrsla um lánsfjáráætlun verður lögð fram, sem ég vænti að verði innan skamms þó að ljóst sé nú þegar — vegna þess hve prentun á löngum skýrslum og miklum töflum tekur langan tíma — að það verður tæpast fyrr en eftir 2–3 vikur héðan í frá.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.