19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár og skal vera mjög stuttorður. Tilefni þess er að mig langar til að beina fsp. til hæstv. forsrh.

Svo sem öllum er kunnugt gekk hér fárviðri yfir meginhluta landsins mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags. Ljóst er að í þessu veðri hefur orðið gífurlegt tjón og eru raunar ekki öll kurl þar enn komin til grafar. Bæði hafa íbúðarhús einstaklinga skemmst og ljóst virðist vera að stórfellt tjón hefur orðið á gróðurhúsum. Þar verður því langtum minni uppskera en efni stóðu til, svo að vandi garðyrkjubænda er stórfelldur. Bílar einstaklinga hafa skemmst tugum saman a.m.k. Og svo hefur orðið verulegt tjón sums staðar á hafnarmannvirkjum.

Það er alveg ljóst, að þetta tjón er með þeim hætti að tryggingarfélög munu ekki bæta nema mjög óverulegan hluta þess. Það er sömuleiðis alveg ljóst, að þetta tjón er svo stórfellt að einstaklingar og aðrir aðilar, sem orðið hafa fyrir skakkaföllum í þessum efnum, munu ekki eða tæpast fá það borið uppi aðstoðarlaust. Þess vegna er fsp. mín til hæstv. forsrh. í þá veru, hvort ríkisstj. hafi nú þegar rætt eða muni beita sér fyrir t.d. lánsútvegun til Bjargráðasjóðs eða einhverjum aðgerðum öðrum til að koma til móts við þá einstaklinga sem þarna hafa orðið fyrir verulega tjóni. Ég get sagt það hér og nú, að það mun ekki standa á okkur fulltrúum Alþfl. á Alþingi að vera til viðræðna um það, með hverjum hætti best og hagkvæmast væri að afla fjár til þess að þessa aðstoð megi veita.