19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera strax nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Hann notaði æðioft orðin „að margt væri skrýtið“ o.s.frv. Ég get ekki sagt að mér hafi þótt ræða hans neitt skrýtin, — við eigum hans málflutningi að venjast, — en það, sem sagt var, er allt fullt af rangtúlkunum og fullyrðingum sem ég verð að leiðrétta.

Hann fullyrti að enginn vildi taka ábyrgð á þessu. Ég sagði í gær að ég tæki fulla ábyrgð á því að hafa samþykkt viðbótartogara. Það gerði ég á fundi fyrst þegar til mín kom forstjóri Framkvæmdastofnunar, sem hér situr, í byrjun júlí ásamt fleirum og afhenti mér eintak af samþykkt Framkvæmdastofnunar frá 4. júlí, sem fram kemur í bréfi til forsrh., dags. 8. júlí. Ég sagði þá að að þessari niðurstöðu fenginni skyldi ég samþykkja að þarna kæmi viðbótartogari og á því tek ég alla ábyrgð. Togarinn hefði að sjálfsögðu ekki komið ef ég hefði hafnað því, geri ég ráð fyrir, og vonandi þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Ég hef hins vegar lítið svo á, að það væri ekki verkefni sjútvrh. að ákveða hvers konar skip útgerðarmenn kaupa.

Hv. þm. talar um frumkvæði. Flokksbróðir hans, hv. þm. Árni Gunnarsson, var þó maður til að viðurkenna að hann hefði átt frumkvæði með því bréfi sem hann skrifar ásamt fleiri þm. Ég hef ekki séð hann hlaupa undan merkjum. Og hv. 1. þm. Vestf. viðurkenndi þátt sinn í því að samþykkja upphaflega ábyrgð. Hvaða sleggjudómar eru þetta hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni?

Hv. þm. talar mikið um vanskil. Því miður eru vanskil allt of mikil í útgerð. En ég hygg að hv. þm. viti í raun og veru að t.d. eru nokkrir góðir togarar í okkar kjördæmi í mjög miklum vanskilum, skulda hundruð milljóna. Ætlum við að segja þjóðinni að þeir séu ómagar á íslensku þjóðinni? Þeir flytja gífurlegt aflaverðmæti í land, halda uppi atvinnu. Og ég vil halda því fram, að þrátt fyrir þessi vanskil, sem eru vissulega mjög erfið og umhugsunarverð, séu þeir ekki ómagar á þjóðinni. Ég vil leyfa mér að vona að þeir greiði að lokum öll þau vanskil sem á þeim hvíla.

Sumir þessara togara voru samþykktir í Fiskveiðasjóði, og reyndar allir sem þarna er um að ræða, fyrir mína tíð. Sumir voru samþykktir í tíð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Það er líklega enginn af þessum samþykktur í tíð hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Þeir eru að koma þrír. Það verður gaman að sjá hvernig þeir standa sig. Ég get ekki ætlast til þess, að hv. fyrrv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, tæki ráðin af útgerðarmönnum og segði þeim að þessir togarar kæmu ekki til með að bera sig og því skyldu þeir ekki kaupa þá. Þá væru nú fyrst ríkisafskiptin orðin mikil ef sjútvrh. ætti að vera að ákveða hvort ákveðið skip er arðbært eða arðbært ekki eftir að viðkomandi sjóðir og fleiri hafa samþykkt það.

Ég vísa því algjörlega á bug og ég mun aldrei fallast á það á meðan ég er þar, að sjútvrn. taki þannig upp daglegt eftirlit með ákvörðunum einstakra útgerðarmanna, sem hafa fengið sín skip samþykkt eftir leiðum sem hér eru farnar, t.d. hjá Fiskveiðasjóði eða Byggðasjóði o.fl. (Gripið fram í.) Já, eða ríkisstj. Þá verða þeir sjálfir að standa skil á því. Hér er búið að gera samning. Viðkomandi skip á að greiða 20% af afla. Það ætti að vera nóg til að standa undir þessum lánum. (Gripið fram í.) Ekki ríkisafskipti? Ja, það er verið að tryggja það sem ríkisábyrgðasjóður í þessu tilfelli veitir ábyrgð fyrir. Fiskveiðasjóður, þegar hann á hlut að máli, gerir svipað.

Hv. þm. gerði mikið úr því sem fór á milli mín og forstjóra Framkvæmdastofnunar, hæstv. forseta þessarar deildar. Það virtist ekki komast inn í hans koll hvað um var að ræða. Ég viðurkenndi í gær að misskilningur virtist um eitt orð, hvort ég hafi sagt: „menn eru þeirrar skoðunar að málin skuli leysa svona“ eða „við erum þeirra skoðunar“. Ég nota sjaldan orðið „menn“ út af fyrir sig. En þarna vorum við að ræða um fund sem við sátum, fjmrh., ég og forstjóri þessarar stofnunar, niðri í Kringlu. Ég átti að sjálfsögðu við að við fjmrh. vorum og erum þeirrar skoðunar að málið mætti leysa svona. Það virðist valda miklu fjaðrafoki. Nóg um það.

Ég ætla ekki að fara að ræða fiskverð hér. Seinna gefst tækifæri til þess. En það kemur mér þó spánskt fyrir sjónir ef í þeirri ríkisstj., sem hv. þm. sat í, hefur ekki verið rætt um fiskverð, Í þeirri ríkisstj. einni, sem ég hef setið í áður, var ætíð rætt um fiskverðsákvörðun ef oddamaður varð að skerast í leikinn. Ég held að fiskverðsákvörðun sé svo mikilvæg að vafasamt sé að ræða slíkt ekki í ríkisstj.

En ég vil koma að málefnalegri ræðum, sem hér hafa verið fluttar, fyrst ég er staðinn upp.

Hv. þm. Magnús H. Magnússon nefndi réttilega að fjölgun togara þýði skerðingu á kjörum sjómanna, þ.e. minni þorskafla. Þetta er rétt og er umhugsunarmál. En skerðir ekki BÚR-togarinn neitt afkomu sjómanna eða þeir sex togarar sem hafa verið samþykktir af Fiskveiðasjóði undanfarin þrjú, fjögur ár? Þeir gera það því miður. Ég vona að þeir togarar standi sig, t.d. BÚR-togarinn sem kostar á sjötta milljarð. Það vona ég sannarlega. En ég verð að halda því fram, að þeir skerði líka kjör sjómanna.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason spurði um franskt skip. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um þau mál. Ég vil segja það hér, að þegar forstjóri stofnunarinnar ásamt fleiri kom til mín á fund spurði ég hvað skipið ætti að kosta. Mér var sagt að gert væri ráð fyrir að það kostaði 1400–1500 millj. Ég stóð í þeirri góðu trú að það yrði u.þ.b. verðið, ég verð að viðurkenna það. Ég held að sú breyting sé ákaflega vafasöm sem síðan hefur verið gerð, en tel að það sé málefni útgerðaraðilanna fyrst og fremst og Framkvæmdastofnunar sem bauð fram aðstoð í þessu máli í þeirri samþykkt sem hún gerði 4. júlí. Hvenær hætt er við franskt skip og kaup fest á norsku veit ég því ekki. En ég kynnti mér það einnig í morgun, að Framkvæmdastofnun gefur út ábyrgðarskírteini fyrir 10% af kaupverði skipsins og það er dagsett 17. okt. og tekið fram í þeirri ábyrgð að það sé byggt á kaupsamningi sem gerður hafi verið 19. sept. um kaup á þessum togara, Iversen, eða hvað hann heitir, með viðbótarsamningi, dagsettum 25. sept. Ég hef að vísu ekki séð þann samning, en ég tel ljóst að Framkvæmdastofnun hafi séð þann samning. Það hlýtur að vera, því ábyrgðin er gefin út á þeim grundvelli. Það hlýtur að koma fram um hvers konar skip er að ræða. Þá hefur það verið orðið norskt enginn vafi.

Hv. þm. Árni Gunnarsson spyr hver ákveði kaup þessa togara. Ég hef kannske að hluta svarað því.

Hv. þm. Friðrik Sophusson gaf hálfpartinn til kynna samþykkt Framkvæmdastofnunar hefði breyst í meðförum ráðherra. Ég mun láta ljósrita það bréf og afhenda hv. þm. svo hann geti sannfærst um að þar er engin fölsun af minni hálfu — og þarf ekki að ræða meira um það.

Ég vil hins vegar leyfa mér að bera fram fsp. til hæstv. forseta þessarar deildar, forstjóra Framkvæmdastofnunar. Í Dagblaðinu í gær er skýrt frá viðtali við hann og fleiri. Þar segir svo og haft — innan gæsalappa — eftir Sverri Hermannssyni:

„Ég flutti stjórn Framkvæmdastofnunar skýrslu um stöðuna í togaramálinu fyrir Þórs- og Raufarhöfn í gærmorgun. Þegar umræður voru hafnar hringdi sjútvrh. og tjáði mér að málið hefði verið rætt á fundi ríkisstj. þá um morguninn. Viðhorf stjórnarinnar væri að það væri að fara úr öskunni í eldinn að hætta við kaup togarans.

Áherslu skyldi leggja á að lækka endurbótakostnað. Kaupverð skyldi skoðast 28 millj. norskra kr. Hlutur byggðasjóðs skyldi vera 10% af því verði, en 10% mætti taka af sérstöku framlagi sem ríkissjóður ætlar að tryggja sjóðnum (svokallað sælgætisgjald) og stæði ábyrgð ríkissjóðs þar að baki.“

Þetta er allt annað en m.a. hæstv. forseti gerði grein fyrir hér í gær. Hérna kemur hvergi fram, sem hann sagði í gær, en ég hefði undirstrikað í upphafi og lok míns samtals að ekki væri von á neinni samþykkt frá ríkisstj., heldur má skilja þetta svo, að hér sé einmitt um samþykki ríkisstj. að ræða. Ég man ekki til þess, að hann notaði í gær nokkurn tíma orðið „skyldi“. Ég vildi gjarnan að hæstv. forseti leiðrétti þessi ummæli sín ef þau eru röng.