19.02.1981
Sameinað þing: 51. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það var í gær að ég beindi þeim tilmælum til hæstv. forseta Sþ., að ég fengi að ræða mál utan dagskrár í dag, en ég gerði mér vitanlega ekki grein fyrir því þá, að sama mál gæti komið upp í hv. þd. utan dagskrár. Það mál, sem ég hafði áhuga fyrir að ræða utan dagskrár í dag, er hinn mikli vandi sem við blasir í mörgum byggðarlögum í sambandi við hið gífurlega tjón af völdum fárviðrisins sem gekk yfir landið s.l. mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags. Hafa þúsundir manna í landinu orðið fyrir stórtjóni.

Þetta fárviðri var með því versta sem komið hefur hér, sérstaklega suðvestanlands, eða eins og veðurstofustjóri hefur sagt opinberlega: Veðurhæð var lítið minni en í fellibyljum á suðlægum breiddargráðum, sem þar skilja jafnan eftir sig húsarústir, auðn og mannskaða. — Ef undan er skilið hið hörmulega sjóslys, er Heimaey VE-1 rak á land í ofsaveðrinu og tveir ungir s jómenn fórust, má kallast kraftaverk að frekara manntjón varð ekki í þessu veðri né stórslys. Hins vegar varð eignatjónið gífurlegt og það mjög víðtækt í þéttbýlinu hér á stór-Reykjavíkursvæðinu, á Suðurlandi og um allt Vesturland, Vestfirði og Norðurland. Þök hafa svipst af húsum, gluggar brotnað, sum hús hrunið saman og gróðurhús brotnað og framleiðendur orðið fyrir gífurlegu tjóni sem kemur niður á framleiðslu og afkomu. Ég vil geta þess, að við þm. Vesturlands höfum verið beðnir að mæta á sérstakan fund hjá gróðurhúsaeigendum í Borgarfirði vegna þessa stórtjóns. — Íbúðarhús og peningshús í heilum sveitum hafa meira og minna laskast og opinber mannvirki skemmst. Rafmagn og sími hafa farið af og hafa liðið sólarhringar þangað til það var komið í lag. (EG: Ég held að þú ættir að boða þm. til fundar annars staðar en úr ræðustól.) Ég þarf ekki að lýsa þessu hér fyrir hv. þm., þetta hefur þegar komið fram í fjölmiðlum. — Í sambandi við frammíkall hv. 5. þm. Vesturl. vil ég segja honum að það er hálftími síðan ég fékk þessi tilmæli formleg. Mun hann og aðrir þm. Vesturl. fá boðin um fundinn eftir öðrum leiðum, eins og venja hefur verið. Alvarlegust í þessu máli að mínu mati er sú nöturlega staðreynd að engar tryggingabætur eru til að bæta mestan hluta þess gífurlega tjóns sem talið er skipta mörgum milljörðum gkr.

Bjargráðasjóður er fjárvana og hefur því ekkert fjármagn til að láta af hendi, eins og stjórn sjóðsins hefur opinberlega tilkynnt. Við síðustu áramót skuldaði sjóðurinn rúmlega 90 millj. kr. í sambandi við það verkefni sem hann hefur. Hér á hv. Alþingi hefur komið fram í umr. nauðsyn þess að taka lög um Bjargráðasjóð til endurskoðunar með það fyrir augum að gera sjóðinn að tryggingasjóði til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara, farsótta eða óhappa í búskap o.s.frv. eða efla hann til útlána frekar en hefur verið til þessa, en því miður hafa þessi mál ekki náð fram að ganga enn þá.

Viðlagatrygging Íslands, sem er skyldutrygging á öllum fasteignum í landinu, greiðir ekki tjón af því tagi er varð í þessu ofsaveðri. Tiltekið er í lögum um Viðlagatryggingu að tryggingin greiddi tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, snjóflóða, skriðufalla og flóða. Viðlagatrygging varð skyldutrygging, eins og allir vita, í kjölfar gossins í Heimaey og fylgir nú brunatryggingum í landinu. Ekki þótti rétt á sínum tíma að setja foktryggingu inn í viðlagatrygginguna, m.a. vegna þess rökstuðnings, að slík tjón væru mjög fátíð og snertu sjaldan mjög marga einstaklinga. Ljóst er nú, að þetta var ekki rétt mat. Staðreyndir nú og t.d. 1973 sýna allt annað. Ofsaveður sem jaðra við fellibylji eru engu síður hamfarir en snjóflóð og skriðuföll.

Ég tel augljóst að réttast sé að breyta lögum um Viðlagatryggingu og láta tjón af völdum veðurofsa falla undir þessa tryggingu. Þetta þarf að gera nú þegar. Jafnframt þarf að skoða hvort ekki er rétt að gera húseigendatryggingu að skyldu, þar sem vitað er að lítill hluti húseigenda í landinu hefur tekið slíka tryggingu. Sjálfsagt er einnig nauðsyn að taka til endurskoðunar skilmála tryggingarfélaganna almennt í landinu.

Ég vil, herra forseti, leita hér eftir viðbrögðum eða fyrirætlan hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Hef ég rætt um það við hæstv. félmrh. að fá hér svör. Fjöldi fólks í landinu hefur orðið fyrir stórskaða og margir eru ráðþrota og bíða eftir viðbrögðum stjórnvalda. Ég tel augljóst að Alþingi geti ekki látið sem ekkert hafi skeð. Það er skylda okkar að gera raunhæfar ráðstafanir og um leið reyna að finna leiðir til að tryggja þjóðina gegn tjóni af slíkum náttúruhamförum.